Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2018 Innviðaráðuneytið

Markmið nýrra köfunarlaga að stuðla að auknu öryggi

Með nýjum lögum um köfun, sem gilda bæði um atvinnuköfun og áhugaköfun, er regluverk köfunar hér á landi gert skýrara. Markmið laganna er að stuðla að auknu öryggi við köfun. Lögin, sem Alþingi samþykkti 11. júní síðastliðinn, hafa tekið gildi.

Í nýju köfunarlögunum, nr. 81/2018 hefur ýmsum ákvæðum verið breytt frá fyrri löggjöf og lögin uppfærð, t.d. varðandi gildissvið, skilgreiningar og fleira. Viðurkenning og eftirlit með köfunarbúnaði færist til Vinnueftirlits ríkisins í samræmi við samræmdar evrópskar reglur um persónuhlífar. Þá eru ákvæði um skírteinaútgáfu og skilyrði fyrir útgáfu þeirra gerð skýrari og ítarlegri. Auk þess er nú sérstaklega mælt fyrir um kröfur til náms í köfun en það hefur ekki verið gert áður í lögum.

Kveðið er á um sérstaka tilkynningarskyldu aðila sem hyggjast kafa utan skilgreindra þjónustusvæða. Þessum aðilum ber nú að tilkynna um fyrirhugaða köfun og að þeir hafi leyfi til hennar þar sem við á. Það á við svæði í einkaeigu, þjóðgarða og friðlýst svæði og staði í óbyggðum, fjarri alfaraleið. Fordæmi tilkynninga af svipuðu tagi eru kunn, svo sem tilkynningar til Landsbjargar um ferðir á víðfeðma jökla eða há fjöll og langar göngu- eða skíðaferðir um óbyggðir. 

Í lögunum er kveðið á um að rannsóknarnefnd samgönguslysa fari með rannsókn í kjölfar köfunarslysa. Rannsóknin skal miða að því að leiða í ljós orsakir köfunarslyssins með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og afleiðingum sambærilegra slysa. Slíkar rannsóknir eru óháðar rannsóknum lögreglu og byggjast á lögum um rannsókn samgönguslysa, nr. 18/2013.

Víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila í undirbúningsvinnunni og tekið var tillit til athugasemda og ábendinga eins og kostur var.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta