Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu um 87. Alþjóðavinnumálaþingið 1999
Á 87. Alþjóðavinnumálaþinginu náðist einstæð samstaða um afgreiðslu nýrrar samþykktar um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd. Aðildarríki samþykktarinnar skuldbinda sig til að leggja bann við og afnema barnavinnu eins og hún gerist verst samkvæmt nánari skilgreiningu í samþykktinni. Samþykktin ásamt tilmælum um sama efni er birt sem fylgiskjal með skýrslunni.
Ein fjölmennasta nefnd þingsins var að venju nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna en hörðustu viðurlögum sem eru í valdi þeirrar nefndar var að þessu sinni beitt gagnvart Burma vegna brota á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu, og nr. 87, um félagafrelsi, og Kamerún vegna brota á samþykkt nr. 87. Þá var á allsherjarþinginu samþykkt harðorð ályktun þar sem Burma var fordæmt vegna við varandi brota á samþykkt nr. 29 og þess að ríkið hefur hunsað að fara eftir niðurstöðum og tilmælum eftirlitsaðila Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um úrbætur.
Eins og undanfarin ár er í skýrslu félagsmálaráðherra um Alþjóðavinnumálaþingið árið 1999 gerð grein fyrir starfi þríhliða nefndar sem fer með málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og um framkvæmd félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 1999. Kemur þar m.a. fram að á árinu fullgilti Ísland gerð um breytingu á stofnskrá ILO sem samþykkt var á 85. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 1997 og samþykktir ILO nr. 138 (1973) um lágmarksaldur við vinnu og nr. 147 (1976) um lágmarkskröfur á kaupskipum.
Í viðauka skýrslunnar er greint frá athugasemdum sem sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur gert við framkvæmd Íslands á ákvæðum sáttmálans á árunum 1992–1996.
Skýrsla félagsmálaráðherra um 87. Alþjóðavinnumálaþingið 1999