741/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018
Úrskurður
Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 741/2018 í málum ÚNU 18030005, ÚNU 18030006, ÚNU 18030009, ÚNU 18040005, ÚNU 18040012, ÚNU 18040013, ÚNU 18040014, ÚNU 18050001, ÚNU 18050002, ÚNU 18050006, ÚNU 18050007, ÚNU 18050008, ÚNU 18050010, ÚNU 18050011, ÚNU 18050013, ÚNU 18050014 og ÚNU 18050020.Kærur, málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, A, hefur kært afgreiðslu Vestmannaeyjabæjar á nokkrum fjölda beiðna um aðgang að upplýsingum. Kærurnar lúta að því að beiðnunum hafi ekki verið svarað og verður að líta svo á að kærandi telji að bærinn hafi ekki fylgt sjónarmiðum um málshraða við afgreiðslu þeirra, sbr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um er að ræða eftirfarandi mál:
Málsnr. ÚNU |
Kæruefni |
Dagar frá dags. beiðni til kæru |
18030005 |
Tilboð í endurbætur á loftræstikerfi í Safnahúsi |
9 |
18030006 |
Starfsmannastefna Vestmannaeyjabæjar |
9 |
18030009 |
Umsækjendur um auglýst starf |
11 |
18040005 |
Samkomulag um eflingu eldvarna |
9 |
18040012 |
Umsækjendur um auglýst starf |
12 |
18040013 |
Umsækjendur um auglýst starf |
11 |
18040014 |
Umsækjendur um auglýst starf |
12 |
18050001 |
Umsækjendur um auglýst starf |
10 |
18050002 |
Umsækjendur um auglýst starf |
10 |
18050006 |
Umsækjendur um auglýst starf |
10 |
18050007 |
Fundargerð bæjarstjórnarfundar |
11 |
18050008 |
Umsækjendur um auglýst starf |
11 |
18050010 |
Samningur um rekstur Herjólfs |
14 |
18050011 |
Umsækjendur um auglýst starf |
12 |
18050013 |
Ársreikningur bæjarsjóðs |
14 |
18050014 |
Umsækjendur um auglýst starf |
17 |
18050020 |
Málstefna Vestmannaeyjabæjar |
9 |
Með erindi, dags. 16. maí 2018, var óskað eftir upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ um meðferð upplýsingabeiðna frá kæranda. Svar barst þann 17. maí 2018.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt það hvort meðferð Vestmannaeyjabæjar á beiðnum kæranda um aðgang að gögnum samrýmist málshraðareglu stjórnsýslu- og upplýsingaréttar.Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga skal taka ákvörðun um það hvort orðið verði við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða megi. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga leiðir að heimilt er að kæra óhæfilegan drátt á meðferð beiðni um aðgang að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Í athugasemdum við ákvæði 17. gr. í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að mikilsvert sé að beiðnir um aðgang að gögnum á grundvelli laganna verði ávallt afgreiddar fljótt og án ástæðulausra tafa. Þá er vikið að sjö daga reglu 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. og tekið fram að reynslan sýni að fleiri en ein ástæða geti valdið því að farið sé fram yfir þau tímamörk. Í fyrsta lagi kunni að vera flókið að leysa úr máli, í öðru lagi geti verið rétt að leita álits þess sem mál snertir en í þriðja lagi kunni önnur verkefni að hafa forgang þannig að úrlausn um beiðni verði að bíða.
Við mat á því hvort Vestmannaeyjabær hefur afgreitt beiðnir kæranda í samræmi við málshraðareglu upplýsinga- og stjórnsýsluréttar verður að mati úrskurðarnefndarinnar í fyrsta lagi að líta til efnis beiðnanna. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera tiltölulega einfaldar og skýrt afmarkaðar. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla hverrar beiðni gefi ekki tilefni til umfangsmikillar málsmeðferðar og Vestmannaeyjabæ ætti hæglega að vera unnt að afgreiða hverja þeirra innan sjö daga. Á hinn bóginn verður að hafa hliðsjón af því að kærandi hefur á sama tímabili beint miklum fjölda beiðna um aðgang að gögnum til bæjarins. Samkvæmt upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ sendi kærandi alls 70 beiðnir um aðgang að gögnum á tímabilinu sem um ræðir, eða frá 1. mars 2018 til og með 17. maí 2018. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál getur kærandi við þessar aðstæður búist við því að afgreiðslutími hverrar beiðni verði lengri en ella, ekki síst þegar tekið er tillit til annarra verkefna sem sveitarfélögum eru falin með lögum.
Úrskurðarnefndin tekur fram að þrátt fyrir að sveitarfélög beri almennt ábyrgð á því að haga starfsmannahaldi sínu með þeim hætti að unnt sé að afgreiða mál sem þeim berast innan eðlilegra tímamarka verður ekki með sanngirni ætlast til þess að Vestmannaeyjabær ráði starfsfólk, eftir atvikum tímabundið, til að bregðast við slíkum fjölda erinda frá einum og sama aðilanum. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að talsverður hluti beiðnanna snúi að gögnum sem almenningi eru þegar aðgengileg á vef sveitarfélagsins. Ágreiningur aðila snýr því fremur að því hvort sveitarfélaginu kunni að vera skylt að aðstoða kæranda við að nálgast gögnin á grundvelli annarra laga, til að mynda laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, en beinlínis að rétti hans til aðgangs að þeim samkvæmt upplýsingalögum, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 674/2017.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið tilefni til að kæra meðferð beiðnanna sem hér um ræðir til nefndarinnar að liðnum 9-17 dögum frá því að þær voru póstlagðar til sveitarfélagsins. Þar sem ekki var um óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðnanna að ræða í ljósi aðstæðna, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, verður kærum kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Það athugast að Vestmannaeyjabær hefur ekki farið eftir þeirri reglu 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga að skýra kæranda frá ástæðum tafa á meðferð beiðnanna umfram sjö daga og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Því er beint til sveitarfélagsins að fylgja ákvæðinu við meðferð beiðna kæranda í framtíðinni.
Úrskurðarorð:
Kærum kæranda í málum ÚNU 18030005, ÚNU 18030006, ÚNU 18030009, ÚNU 18040005, ÚNU 18040012, ÚNU 18040013, ÚNU 18040014, ÚNU 18050001, ÚNU 18050002, ÚNU 18050006, ÚNU 18050007, ÚNU 18050008, ÚNU 18050010, ÚNU 18050011, ÚNU 18050013, ÚNU 18050014 og ÚNU 18050020 er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður
Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson