Börn og foreldrar verja æ meiri tíma saman
Nýbirtir Félagsvísar sýna afgerandi þróun þess efnis að börn og foreldrar verja æ meiri tíma saman. Árið 2014 sögðust 63% barna á aldrinum 14 – 15 ára verja tíma sínum oft eða nær alltaf með foreldrum sínum um helgar samanborið við tæplega 37% barna árið 2006.
Sama þróun sést þar sem spurt var um tengsl við foreldra utan skóla, virka daga. Árið 2014 sagðist helmingur barna á aldrinum 14 til fimmtán ára vera oft eða nær alltaf í tengslum við foreldra sína utan skóla á virkum dögum samanborið við tæp 33% árið 2006.
Margt fleiraira áhugavert um lífsvenjur barna má lesa út úr könnuninni. Til dæmis stundaði mun hærra hlutfall barna á aldrinum 14 – 15 ára íþróttir reglulega árið 2014 (39%) en gerði það árið 2006 (31,8%).
Börnum sem segjast reykja eina sígarettu á dag eða fleiri hefur fækkað til stórra muna á síðust árum. Árið 2006 sögðust 12% 15 ára barna reykja eina eða fleiri sígarettur á dag en þetta hlutfall var komið niður í 2,5% árið 2015.
Ölvun meðal barna er einnig orðin mun fátíðari en áður. Árið 2006 sögðust 26% 15 ára barna hafa orðið ölvuð síðustu 30 daga en árið 2015 var hlutfallið komið niður í 4,6%.
Þegar spurt var um hassneyslu sögðust 9% 15 ára barna hafa notað hass einu sinni eða oftar um ævina þegar um það var spurt árið 2006, á móti 3,3% barna á sama aldri árið 2015.