Hoppa yfir valmynd
25. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 41/2018 - Úrskurður

 Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 41/2018

Föstudaginn 25. maí 2018

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. febrúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 12. janúar 2018, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 8. september 2017, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ. Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði, dags. 26. október 2017, með vísan til 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar en fyrir mistök var mál kæranda tekið aftur fyrir hjá fjölskylduþjónustunni á fundi þann 19. desember 2017. Umsókn kæranda var því synjað á ný með bréfi fjölskylduþjónustunnar, dags. 3. janúar 2018. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar tók áfrýjun kæranda fyrir á fundi þann 12. janúar 2018 og staðfesti synjunina. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 2. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 7. mars 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. mars 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn hans um fjárstuðning verði felld úr gildi og að fjölskylduþjónustunni verði gert að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar að nýju. Um ástæður þess að kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélaginu vísar kærandi til þess að hann stundi háskólanám en þar sem hann sé á vanskilaskrá eigi hann ekki rétt á námsláni frá Lánasjóði íslenskra námsmanna nema með því að fá ábyrgðarmann. Ómögulegt sé fyrir fyrrverandi fanga sem bíði gjaldþrots að fá ábyrgðarmenn til að skrifa upp á lán. Kærandi dvelji á [...] og geti ekki með góðu móti séð um sig né [barn sitt], sem sé reglulega hjá honum, án þess að hætta í námi og leita að vinnu. Það þyki kæranda miður, enda eigi hann möguleika á betra starfi í framtíðinni með áframhaldandi námi. Hann hafi gert athugasemdir við afgreiðslu fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar í erindi til fjölskylduráðs en þær hafi hvorki verið teknar til greina né því svarað hvernig niðurstaðan samræmdist athugasemdunum. Því hafi kærandi uppi sömu athugasemdir í kærumálinu.

Kærandi vísar til þess að dómstólar hafi skýrt ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að skylt sé að tryggja með lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Sá réttur sé tryggður í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Kærandi bendir á að umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum lagt áherslu á að þrátt fyrir að sveitarfélög hafi heimild til að setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar þá sé sú sjálfstjórn bundin þeirri takmörkun að þau ráði málefnum sínum eingöngu eftir því sem lög ákveði. Ákvæði í reglum einstakra sveitarfélaga geti ekki vikið til hliðar þeim atriðum sem Alþingi hafi mælt fyrir um og sveitarfélögum og nefndum beri að fara eftir gildandi lögum á hverjum tíma við úrlausn þeirra verkefna sem löggjafinn hafi falið þeim. Sveitarfélög geti ekki vikið til hliðar eða breytt þeim beinu reglum og skilyrðum sem löggjafinn hafi sett, meðal annars um það hverjir skuli njóta réttar til félagslegrar aðstoðar hjá sveitarfélaginu. Ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 40/1991 séu skýr um að sveitarfélag skuli veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum. Íbúum sveitarfélags sé tryggð tiltekin lágmarks aðstoð til að uppfylla þá skyldu sem leiði af 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Sveitarfélög geti þannig, þrátt fyrir svigrúm til að setja reglur um fjárhagsaðstoð, ekki sett ákvæði sem beinlínis séu í andstöðu við lög. Fortakslaust ákvæði 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ sé í andstöðu við lög, enda geti það ekki talist í samræmi við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, eins og dómstólar hafi skýrt ákvæðið. Það að gera ráð fyrir því að umsækjendur um fjárhagsaðstoð í lánshæfu námi geti fengið lán hjá LÍN geti ekki talist málefnaleg afgreiðsla. Í því samhengi vísar kærandi til niðurstöðu í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 6514/2011.Kærandi tekur fram að með setningu ákvæðis 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hafi Hafnarfjarðarbær komist að þeirri niðurstöðu að ekki skuli aðstoða þann hóp fólks sem sé hvað verst staddur í samfélaginu, þ.e. fyrrverandi fanga í námi sem ekki fái lán hjá LÍN vegna skuldastöðu sinnar, en sömu einstaklingar séu ólíklegir til að búa í eigin húsnæði eða hafa atvinnu. Kærandi bendir á að sveitarfélög séu grunneiningar félagsþjónustu hér á landi og þeim beri lögum samkvæmt að tryggja aðstoð við þá sem minnst megi sín. Með því að hafna umsókn hans um fjárhagsaðstoð með vísan til 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð víki sveitarfélagið frá lögbundnum skyldum sínum. Af þeim sökum krefst kærandi þess að synjunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að taka málið til efnislegrar meðferðar að nýju, án þess að litið verði til 15. gr. reglnanna.

Kærandi gerir athugasemd við meðferð málsins hjá Hafnarfjarðarbæ og telur að hún hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Endurtekin meðferð málsins hjá fjölskylduþjónustunni hafi eðli málsins samkvæmt haft í för með sér tafir á afgreiðslu málsins sem honum hafi ekki verið tilkynnt um. Kærandi óskar eftir því að úrskurðarnefndin taki athugasemd kæranda til skoðunar og láti í té álit sitt á henni.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar er greint frá því að kærandi hafi lagt inn beiðni um þjónustu hjá sveitarfélaginu í september 201[7]. Þar komi fram að kærandi hafi verið að ljúka afplánun fangelsisdóms og væri skráður í nám við Háskóla Íslands. Þar sem kærandi væri á vanskilaskrá vegna dómsmálsins gæti hann ekki fengið námslán nema með því að fá ábyrgðarmann, sem hann hefði ekki tök á. Kærandi hafi því óskað eftir fjárhagsaðstoð til að standa straum af kostnaði við bókakaup og því sem tengdist náminu.

Hafnarfjarðarbær vísar til 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fram komi að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samsvarandi ákvæði sé í 2. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Í samræmi við þau ákvæði sé umsækjendum um fjárhagsaðstoð til framfærslu gert skylt að leita sér að atvinnu, eigi þeir kost á því. Ekki sé gert ráð fyrir því að einstaklingar eigi val um það hvort þeir framfæri sig eða ekki, ef þeir eru til þess færir. Undantekning sé gerð ef í hlut eigi einstaklingur sem ekki hafi lokið grunnskóla eða framhaldsskóla, og markmiðið sé að efla viðkomandi til efnahagslega sjálfstæðs lífs, sbr. 17. gr. reglnanna. Samkvæmt 15. gr. reglnanna sé gengið út frá því að þeir sem stundi lánshæft nám framfæri sig og sína með einhverju móti á meðan á námi standi. Einstaklingar í lánshæfu námi eigi aftur á móti kost á fjárhagsaðstoð samkvæmt IV. kafla reglnanna þar sem fjallað sé um heimildir til fjárhagsaðstoðar vegna sérstakra aðstæðna, svo sem vegna sérfræðiaðstoðar, búslóðarmissis, kaupa á hjálpartækjum eða öðrum nauðsynjum og fleira.Hafnarfjarðarbær tekur fram að samkvæmt 1. og 2. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð sé skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Fjárhagsaðstoðin skuli veitt fólki í tímabundnum erfiðleikum og sé hugsuð sem stuðningur til að mæta grunnþörfum fólks. Að mati sveitarfélagsins sé beiðni kæranda um fjárhagsaðstoð vegna náms ekki þess eðlis að hún falli að þeirri skilgreiningu. Kærandi eigi fyrir höndum margra ára nám og gera verði ráð fyrir því að einstaklingar sem hefji langt háskólanám hafi áætlað með hvaða hætti þeir hyggist fjármagna nám sitt og hvað þeir ætli sér og sínum til framfærslu á námstímanum, svo sem með námslánum eða vinnu með skóla. Það sé vandséð að það geti verið hlutverk sveitarfélagsins að aðstoða í þeim tilvikum. Það hafi því verið niðurstaða fjölskylduráðs að kærandi yrði að leita annarra leiða til að fjármagna nám sitt og því hafi beiðni hans um fjárhagsaðstoð verið synjað.Hafnarfjarðarbær tekur undir athugasemdir kæranda um málsmeðferð hjá fjölskylduþjónustunni. Ekki hafi verið rétt staðið að málum þegar mál kæranda hafi verið lagt fyrir afgreiðslufund fjölskylduþjónustunnar í annað sinn í stað fjölskylduráðs. Þar komi til misskilningur starfsmanns en kærandi hafi verið beðinn afsökunar á því, sbr. dagál félagsráðgjafa frá 10. janúar 2018.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð með vísan til 15. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar gerir kærandi athugasemd við málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í kjölfar áfrýjunar hans til fjölskylduráðs, nánar tiltekið að mál hans hafi verið lagt aftur fyrir afgreiðslufund fjölskylduþjónustunnar í stað fjölskylduráðs. Undir rekstri málsins hefur Hafnarfjarðarbær viðurkennt að um mistök hafi verið að ræða og tekið fram að kærandi hafi verið beðinn afsökunar á þeim. Úrskurðarnefndin beinir því til sveitarfélagsins að vanda alla málsmeðferð og taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur meðal annars fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 6. mgr. ákvæðisins segir að fjárhagsaðstoð sé veitt á formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf eða virkniúrræði. Tilgangur aðstoðar sé að styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfsbjargar, gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar og stuðla að valdeflingu þeirra. Samkvæmt 2. gr. reglnanna er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Umsækjendum um aðstoð samkvæmt reglunum sé skylt að leita sér að atvinnu hér á landi og taka þeirri atvinnu sem bjóðist, nema aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því. Þá kemur fram að fjárhagsaðstoð skuli veitt fólki í tímabundnum erfiðleikum og að hún sé hugsuð sem stuðningur við einstakling eða fjölskyldur til að mæta grunnþörfum þeirra. Í 6. gr. reglna sveitarfélagsins er vísað til þess að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð skuli að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Enginn skuli njóta fjárhagsaðstoðar án þess að vera í samstarfi við félagsráðgjafa um lausn mála sinna. Samkvæmt 15. gr. reglnanna njóta einstaklingar, sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Líkt og áður greinir er sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Þrátt fyrir það verða reglur um mat þess að vera málefnalegar. Úrskurðarnefndin telur að ákvæði í 15. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð leiði í reynd til þess að ekki fari fram eiginlegt mat á aðstæðum umsækjenda og því hvort þeir geti séð sjálfum sér og fjölskyldum sínum farborða án aðstoðar. Þar sem löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila, með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja til dæmis verklagsreglu sem tekur til allra mála, sambærilegra sem ósambærilegra. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að það að útiloka kæranda með framangreindum hætti frá fjárhagsaðstoð og að teknu tilliti til 12. gr. laga nr. 40/1991, standist ekki fyrrgreindar grundvallarreglur íslensks réttar um rétt til félagslegrar aðstoðar. Með því að synja kæranda um fjárhagsaðstoð einungis á grundvelli ákvæðis 15. gr. framangreindra reglna og án þess að meta aðstæður hans sérstaklega og kanna hvort hann gæti framfært sjálfan sig, er skilyrðum laganna ekki fullnægt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 12. janúar 2018, um synjun á umsókn A, um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta