Visit Iceland – upplýsingamiðlun til ferðamanna stórefld
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði í dag samning við Íslandsstofu og Ferðamálastofu um heildstæða landkynningar- og upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn undir merkjum Visit Iceland.
Markmiðið er að efla markaðs- og upplýsingavefinn visiticeland.com og gera hann að miðpunkti upplýsingamiðlunar til ferðamanna ásamt þeim samfélagsmiðlum og öðrum dreifileiðum sem vefurinn nýtir. Vefurinn er þegar einn af burðarásum í markaðsstarfi Íslands og sá vefur sem flestir ferðamenn eru líklegir til að hafa kynnt sér fyrir komuna til Íslands.
Öflug upplýsingagjöf til erlendra ferðamanna er mikilvægur liður í kynningu á áfangastaðnum Íslandi en hingað til hefur hún verið á höndum margra aðila og samstarf þeirra á milli verið takmarkað og boðleiðir ólíkar. Mikilvægt er að bæta úr þessu og koma á framfæri samræmdum skilaboðum til ferðamanna.
Með samvinnu Íslandsstofu og Ferðamálastofu verður unnið að því að efla eina sameiginlega vefgátt sem veitir góðar, tímanlegar og gagnlegar upplýsingar til erlendra ferðamanna á grunni sem stuðlar að sjálfbærri, arðsamri og samkeppnishæfri ferðaþjónustu í sátt við land og þjóð eins og kveðið er á um í Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030.
Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra:
„Með því að vinna saman að því að efla visiticeland.com bætum við upplýsingagjöf til ferðamanna svo um munar og byggjum hana á þörfum þeirra og forsendum. Við samræmum aðgerðir okkar og byggjum upp frekara samstarf að markaðssetningu og upplýsingagjöf til ferðamanna til framtíðar.“
Segjum ferðamönnum okkar eigin sögu
Til að kynna áfangastaðinn Ísland er nauðsynlegt að koma upplýsingum á framfæri við ferðamenn fyrir ferð hingað til lands, meðan á ferðinni stendur auk eftirfylgni þegar heim er komið svo deila megi minningum með öðrum. Leggja verður áherslu á að segja ítarlega frá landi og þjóð á forsendum Íslands. Með því er stuðlað að því að ferðamenn ferðist víðar um landið og njóti fjölbreytileika íslenskra áfangastaða. Með öflugri upplýsingasíðu er athygli ferðamanna dregin að því fjölbreytta úrvali þjónustu sem er í boði og þeim bent á að bóka beint hjá fyrirtækjunum.
Samningurinn er gerður til þriggja ára og tryggir verkefninu 45 m.kr. á ári. Jafnframt verður settur upp gagnagrunnur fyrir verkefnið, unnið verður að uppbyggingu stafrænnar miðlunar og framsetningu gönguleiða auk þess sem spjallmenni verður sett upp á síðunni.