Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2016 Forsætisráðuneytið

632/2016. Úrskurður frá 29. júlí 2016

Úrskurður

Hinn 29. júlí 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 632/2016 í máli nr. ÚNU 15060002.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 10. júní 2015 kærði A synjun Þingeyjarsveitar á aðgangi að starfslokasamningi sveitarfélagsins og B fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla dags. 25. febrúar 2015.

Upplýsingabeiðni kæranda til Þingeyjarsveitar, sem er ódagsett, var svarað af hálfu lögmanns sveitarfélagsins með bréfi dags. 29. maí 2015. Í bréfinu kemur fram að ekki sé unnt að verða við upplýsingabeiðninni þar sem starfslokasamningurinn varði bæði einka- og fjárhagsmálefni fráfarandi skólastjóra sem sveitarfélaginu sé ekki heimilt að veita aðgang að án samþykkis hennar. Í því sambandi er vísað til ákvæðis 5. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru málsins kemur fram að sveitarfélagið hafi í desember 2014 sameinað tvær starfsstöðvar Þingeyjarskóla og auglýst eftir nýjum skólastjóra í kjölfarið og gert starfslokasamning við fráfarandi skólastjóra. Starfslokasamningur sé einstaklingsbundinn samningur sem fjalli um föst kjör fráfarandi skólastjóra í ákveðinn tíma. Þau laun séu greidd með opinberum fjármunum og hafi almennir skattgreiðendur augljósa hagsmuni af aðgangi að umræddum gögnum. Fram kemur að kærandi telji óeðlilegt að stjórnvald geti ráðstafað almennum fjármunum að geðþótta.   

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 16. júní 2015, var Þingeyjarsveit kynnt kæran og veittur frestur til 1. júlí til að koma að umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Umsögn sveitarfélagsins barst þann dag ásamt afriti af umbeðnum gögnum.

Í umsögn Þingeyjarsveitar kemur fram að sveitarfélagið óski þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál staðfesti ákvörðun sveitarfélagsins um synjun afhendingar starfslokasamningsins. Fyrir liggi að fráfarandi skólastjóri sé ekki samþykk afhendingu hans. Einkahagsmunir fráfarandi skólastjóra um að halda efni samningsins leyndu séu ríkari en hagsmunir kæranda af aðgangi.   

Sveitarfélagið vísar til ákvæðis 5. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 og tiltekur að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi fallist á afhendingu ráðningasamninga og starfslokasamninga ef í þeim komi fram upplýsingar um föst kjör starfsmanna. Af því leiði að ef aðrar upplýsingar en föst kjör starfsmanna komi fram í samningi, s.s. launafjárhæðir eða greiðslur vegna sérstakra ástæðna, skuli slíkir samningar vera undanþegnir afhendingu. Í því sambandi er vísað til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 393/2011 frá 14. desember 2011.

Umsögn Þingeyjarsveitar var kynnt kæranda og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 22. júlí 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar beiðni um afhendingu á starfslokasamningi sem gerður var af Þingeyjarsveit við fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla 25. febrúar 2015. Samningurinn, sem er í ellefu liðum auk formála, kveður á um réttindi og skyldur aðila tímabilið 20. janúar 2015 til og með 31. júlí 2016.  

Í 4. mgr. 35. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að ákvæði eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 haldi gildi sínu til 1. janúar 2016 gagnvart sveitarfélögum með íbúa undir 1.000 við gildistöku laganna. Lögin tóku gildi 1. janúar 2013 og var Þingeyarsveit þá og er enn með færri en 1.000 íbúa. Kæra málsins barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál fyrir 1. janúar 2016 og verður leyst úr málinu á grundvelli eldri upplýsingalaga nr. 50/1996.

2.

Í 1. mgr. 3. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 kemur fram að stjórnvöldum sé „skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Í 5. gr. þeirra laga kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.

Eðli máls samkvæmt teljast upplýsingar um launakjör fyrrverandi skólastjóra Þingeyjarskóla til upplýsinga um fjárhagsmálefni hennar. Í því felst þó ekki sjálfkrafa að rétt sé á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga að halda þeim leyndum. Samkvæmt skýrri og fastmótaðri framkvæmd eldri upplýsingalaga, sem á sér m.a. stoð í athugasemdum sem fylgdu 5. gr. frumvarpsins að lögunum, hafa 3. og 5. gr. laganna verið skýrðar svo að sé óskað aðgangs að gögnum um laun opinberra starfsmanna skuli veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem nái til fastra launakjara þeirra, þ.á m. ráðningarsamningum og öðrum ákvörðunum og samningum sem kunni að liggja fyrir um föst laun þeirra. Rétturinn til aðgangs nær þannig til gagna sem geyma upplýsingar um allar fastar greiðslur sem starfsmaðurinn á rétt til. Hins vegar er vegna ákvæðis 1. málsliðar 5. gr. laganna óheimilt að veita aðgang að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um greidd heildarlaun opinbers starfsmanns hvort sem þau eru hærri en föst laun hans, t.d. sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri af einhverjum ástæðum, t.d. vegna launafrádráttar af sérstökum ástæðum. Má um framangreindar skýringar t.d. vísa til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. A-303/2009 er laut m.a. að afhendingu starfslokasamnings við fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins auk úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-393/2011, A-277/2008, A-214/2005 o.fl. svo og álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5103/2007.

3.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni umrædds samnings. Lýtur efni hans að því hvernig starfslokum skuli háttað, hverjar vinnuskyldur fyrrverandi skólastjóra skuli vera á tímabilinu 25. febrúar 2015 til og með 31. júlí 2016 ásamt upplýsingum um fyrirkomulag fastra launagreiðslna. Því er um að ræða upplýsingar sem almenningur á rétt til aðgangs að samkvæmt því sem rakið var hér að framan.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Þingeyjarskóla hafi verið óheimilt að synja kæranda um afhendingu starfslokasamnings við fyrrum skólastjóra Þingeyjarskóla.

Úrskurðarorð

Þingeyjarsveit ber að afhenda kæranda, A, starfslokasamning sem gerður var af Þingeyjarsveit við B fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla 25. febrúar 2015.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Friðgeir Björnsson                                                                                      Sigurveig Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta