Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2016 Forsætisráðuneytið

633/2016. Úrskurður frá 29. júlí 2016

Úrskurður

Hinn 29. júlí 2016 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 633/2016 í máli ÚNU 15070008.

Kæra og málsatvik

Með erindi dags. 14. júlí 2015 kærði A synjun Reykjanesbæjar á afhendingu samninga Thorsil ehf. við Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ. Í gagnabeiðni kæranda dags. 3. júní 2015 var óskað eftir afriti allra samninga sem bæjarfélagið hefði gert við Thorsil ehf. Í svari bæjarins dags. 30. júní 215 var beiðninni synjað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og þess að Thorsil ehf. hefði ekki samþykkt að samningarnir yrðu afhentir kæranda. Í kæru er tekið fram að gagnabeiðni kæranda styðjist við upplýsingalög nr. 140/2012 og lög um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006.

Málsmeðferð

Með bréfi dags. 17. júlí var Reykjanesbæ kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði í trúnaði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Reykjanesbæjar, dags. 8. ágúst 2015, kemur fram að synjun á beiðni kæranda hafi byggst á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila nema með samþykki þess sem í hlut á. Í samningunum væru ákvæði sem væru fjárhagsleg og geymdu viðkvæmar upplýsingar um rekstur fyrirtækisins. Gæti það skaðað mjög viðskiptalega hagsmuni Thorsil að ef upplýst væri um samninga félagsins við Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn. Thorsil hafi hafnað því að heimila Reykjanesbæ og Reykjaneshöfn að afhenda samningana. Með umsögn Reykjanesbæjar fylgdu eftirfarandi samningar:

  1. „Samningur um leyfisveitingar og gjaldtöku vegna fyrirhugaðs kísilvers Thorsils ehf. að Berghólabraut nr. 4 við Helguvíkurhöfn“ dags. 13. maí 2014.

  2. „Lóðar- og hafnarsamningur á milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf“ dags. 11. apríl 2014 ásamt viðaukum A og B við samninginn. Með samningnum fylgir Viðauki I við við samninginn, dags. 28. nóvember 2014 og Viðauki III við samninginn dags. 1. júlí 2015.

  3. „Samkomulag um skilmála fyrir lóðarleigusamning á milli Reykjanesshafnar, Reykjanesbæjar og Thorsil ehf“ dags. 21. október 2013.

Umsögn Reykjanesbæjar var kynnt kæranda með bréfi dags. 11. ágúst 2015 og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi dags. 20. júní 2016 fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við Reykjanesbæ að bærinn afhenti nefndinni „Viðauka II“ við „Lóðar- og hafnarsamning á milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf.“ og „Viðhengi nr. 1“ við „Samkomulag um skilmála fyrir lóðaleigusamning á milli Reykjaneshafnar, Reykjanesbæjar og Thorsil ehf.“ auk annarra fylgiskjala sem kunna að fylgja með samningunum og ekki hafi verið afhent nefndinni. Umbeðin gögn bárust nefndinni með tölvupósti dags. 29. júní.

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila en gert hefur verið. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Mál þetta lýtur að lögmæti synjunar Reykjanesbæjar á aðgangi kæranda að þremur samningum á milli bæjarfélagsins og einkahlutafélagsins Thorsil ehf.

Í kæru er vísað til upplýsingaréttar samkvæmt lögum um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 og til upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að eins og hér stendur á verði að telja umbeðna samninga fjalla um umhverfismál í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 þar sem samningarnir lúta að þeirri ráðstöfun Reykjanesbæjar að leigja lóð undir kísilmálmsmiðju í bænum ásamt skyldum ráðstöfunum tengdum leyfisveitingum og gjaldtöku. Að mati úrskurðarnefndarinnar er um að ræða samninga sem hafa eða hafa líklega áhrif á umhverfisþætti sem taldir eru upp í 1. og 2. tölul. 3. gr. laganna.

Upplýsingaréttur almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 sætir takmörkunum sem kveðið er á um í 6. gr. laga nr. 23/2006. Í 1. tölul. ákvæðisins kemur fram að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum á grundvelli laganna nái ekki til gagna sem undanþegin eru aðgangi skv. 4-6. gr. upplýsingalaga. Af athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga nr. 23/2006 má ráða að átt sé við upplýsingar sem undanþegnar voru upplýsingarétti á grundvelli eldri upplýsingalaga nr. 50/1996 en ákvæði 6. gr. laga nr. 23/2006 hefur ekki verið breytt í því skyni að vísa til undanþáguákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012. Hins vegar verður að líta svo á að ákvæðið taki til þeirra upplýsinga sem nú eru undanskildar upplýsingarétti skv. 6.-10. gr. laga nr. 140/2012.

Reykjanesbær byggir synjun sína á 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í málinu liggur fyrir að Thorsil ehf. leggst gegn afhendingu samninganna.

Við beitingu ákvæðis 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tl. 6. gr. laga nr. 23/2006, verður að hafa í huga að lögin gera ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni verði þær gerðar opinberar. Við matið verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að það muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Ennfremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu laga um upplýsingarétt um umhverfismál er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir almennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.

2.

Í samningi um leyfisveitingar og gjaldtöku vegna fyrirhugaðs kísilvers Thorsils ehf. að Berghólabraut nr. 4 við Helguvíkurhöfn dags. 13. maí 2014 er kveðið á um fyrirkomulag álagningar og innheimtu gatnagerðargjalda, fasteignaskatts auk gjalda vegna skipulags og byggingarleyfis. Ná samningarnir þannig fyrst og fremst til þess hvað kemur í hlut Reykjanesbæjar úr hendi Thorsils hf. fyrir það sem bærinn lætur félaginu í té vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda og þá hvernig opinberum hagsmunum er ráðstafað að þessu leyti. Í 4. kafla samningsins er tekið fram að samningsaðilar skuli halda fullkominn trúnað um efni samningsins. Til þess er þó að líta að Reykjanesbær er bundinn af ákvæðum upplýsingalaga og laga um upplýsingarétt um umhverfismál og getur ekki undanskilið gögn frá ákvæðum laganna með yfirlýsingu um trúnað.

Í samkomulagi um skilmála fyrir lóðarleigusamningi á milli Reykjaneshafnar, Reykjanesbæjar og Thorsil ehf. frá 21. október 2013 sem og í lóðar- og hafnarsamningi milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf. dags. 11. apríl 2014 ásamt viðaukum, er kveðið á um skilmála fyrir leigu á lóð í eigu hafnarinnar til Thorsil ehf. Samkvæmt 2. gr. hafnarreglugerðar fyrir Reykjaneshöfn nr. 982/2005 er Reykjanesbær eigandi Reykjaneshafnar og er því ljóst að báðir samningarnir lúta að ráðstöfun opinberra eigna eins og fyrr er getið.

Úrskurðarnefnd hefur yfirfarið umrædda samninga og telur ekki að þær upplýsingar sem þar koma fram varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Thorsils ehf. að leynd um efni samninganna skuli ganga framar lögbundnum rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt lögum um upplýsingarétt um umhverfismál. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafa samningarnir ekki geyma upplýsingar um viðskiptasambönd, viðskiptavini, kjör, álagningu eða afkomu Thorsil ehf. sem eru til þess fallnar að skaða hagsmuni félagsins verði aðgangur að þeim veittur. Er því ekki fallist á að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að samningunum vegna 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. tl. 6. gr. laga nr. 23/2006. Þá er til þess að líta að lögaðilar sem óska þess að fá ráðstafað til sín opinberum gæðum að vera undir það búnir að upplýsingalög gildi um slíkar ráðstafanir. Með hliðsjón af hinum ríka upplýsingarétti almennings þegar um er að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna er því fallist á rétt kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 23/2006 eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Reykjanesbæ ber að afhenda kæranda samningana „Samningur um leyfisveitingar og gjaldtöku vegna fyrirhugaðs kísilvers Thorsils ehf.“, dags. 13. maí 2014, „Samkomulag um skilmála fyrir lóðarleigusamning á milli Reykjaneshafnar, Reykjanesbæjar og Thorsil ehf.“, dags. 21. október 2013 auk viðhengis 1 við samninginn og „Lóðar- og hafnarsamning milli Reykjaneshafnar og Thorsil ehf.“ dags. 11. apríl 2014 ásamt viðaukum A og B og viðaukum nr. I, II og III við samninginn.

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta