Hoppa yfir valmynd
24. júní 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjögur frumvörp félags- og vinnumarkaðsráðherra urðu að lögum um helgina

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd
Fjögur frumvörp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, urðu að lögum um helgina.

Breytingar á örorkulífeyriskerfinu

Frumvarp ráðherra vegna breytinga á örorkulífeyriskerfinu var samþykkt og sagði ráðherra af því tilefni að þáttaskil hefðu orðið, enda hefði ákall verið eftir því í ár og áratugi að kerfinu yrði breytt. Guðmundur Ingi kynnti breytingarnar í apríl undir yfirskriftinni „Öll með“ og lagði áherslu á að nýja kerfið yrði bæði einfaldara og réttlátara.

Breytingarnar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa. 

Nýja kerfið tekur gildi þann 1. september 2025 enda viðamikill undirbúningur sem þarf að eiga sér stað áður til að tryggja hnökralaus skipti á milli greiðslukerfa. 

Fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi

Frumvarp ráðherra um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi var sömuleiðis samþykkt en það var lagt fram í kjölfar sameiginlegra aðgerða ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára.

Breytingarnar fela í sér hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í þremur áföngum eða úr 600.000 kr. á mánuði í 900.000. kr. Fyrsta hækkunin er afturvirk frá og með 1. apríl sl. en sú síðasta tekur gildi þann 1. jan 2026.

Þá hækka hámarksgreiðslur vegna sorgarleyfis með sama hætti.

„Þetta eru mikilvægar breytingar sem ég er stoltur af og munu sannarlega skipta máli fyrir barnafjölskyldur,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk

Þá var frumvarp ráðherra um breytingar á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk sömuleiðis samþykkt um helgina. Nýju lögin skýra meðal annars hlutverk og verkferla í kringum réttindagæslumenn og persónulega talsmenn fatlaðs fólks og gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu.

„Við lögðum áhersla á að vilji hins fatlaða einstaklings myndi ráði för, eins og skýrt kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks,“ segir Guðmundur Ingi.

Eitt af markmiðum frumvarpsins var að styðja við frumvarp til laga um Mannréttindastofnun Íslands sem einnig var samþykkt á laugardag.

Samstarf og eftirlit á vinnumarkaði

Loks varð frumvarp ráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna samstarfs og eftirlits á vinnumarkaði að lögum um helgina. 

Með frumvarpinu voru lagðar til breytingar sem hafa það að markmiði að styrkja samvinnu stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins við að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Enn fremur er stefnt að því að styrkja eftirlit og samstarf þeirra aðila sem fara með opinbert eftirlit á vinnumarkaði.

„Með þessum breytingum sem nú hafa orðið að lögum styrkjum við stoðirnar þegar kemur að aðgerðum til að sporna gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Eins og dæmin sanna er brýnt að gera slíkt,“ segir ráðherra.

Framhald á stuðningsaðgerðum vegna Grindavíkur

Einnig má nefna að Alþingi samþykkti sömuleiðis um helgina frumvarp fjármálaráðherra um framhald á stuðningsaðgerðum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Með frumvarpinu var meðal annars framlengdur tímabundinn stuðningur til greiðslu launa til og með 31. ágúst nk.

Lögin taka til starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem getur ekki mætt til vinnu vegna þess að starfsstöð þess er staðsett í Grindavíkurbæ. Félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti í nóvember sl. fyrir frumvarpi um slíkan stuðning

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum