Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 31/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 15. október 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 31/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 10. október 2014. Á fundi Vinnumálastofnunar þann 31. október 2014 var umsókn hans samþykkt og bótaréttur kæranda metinn 72%. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 25. mars 2015. Kærandi telur sig eiga rétt á fullum bótum. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Í kæru segir að kærandi hafi unnið sjálfstætt undanfarin ár og greitt sér laun miðað við innkomu. Þegar hann sé án atvinnu hafi honum verið meinað um fullar bætur á þeim forsendum að hann hafi ekki þénað nóg. Hann hafi reynt í lengstu lög að afla sér verkefna til þess að þurfa ekki að sækja um bætur. Þá spyr hann hvaða lög segi til um svona framkomu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. maí 2015, segir að áður en kærandi hafi sótt um bætur hafi hann verið sjálfstætt starfandi í skilningi b liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Um útreikning bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklinga fari eftir 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá því endurgjaldi sem viðkomandi reikni sér vegna vinnu sinnar. Nái reiknað endurgjald atvinnuleitanda ekki lágmarksviðmiðum ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta sé reiknað endurgjald  lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra.

Bótaréttur kæranda byggi á vinnu hans sem sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. b lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Starf kæranda falli undir tekjuflokk D2 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum skv. 3. málsl. 1. mgr. 50. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Við útreikning á bótarétti kæranda hafi verið valdir þeir tólf mánuðir á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar sem hafi gefið kæranda hæsta mögulega bótarétt, sbr. 2. mgr. 19. gr. og 3. mgr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á tímabilinu ágúst 2012 til desember 2012 hafi kærandi reiknað sér 350.000 kr. í laun og þá hafi viðmiðunartekjur ríkisskattsstjóra fyrir tekjuflokk D2 verið 304.000 kr. Kærandi hafi því greitt sér meira en 100% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í þessa fimm mánuði og því gefi vinna hans á því tímabili honum 42% bótarétt. Þá hafi kærandi reiknað sér 200.000 kr. í laun á tímabilinu janúar til febrúar 2013 og þá hafi viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra verið 319.000 kr. Laun kæranda á því tímabili hafi verið 62,7% af viðmiðunarfjárhæðinni og þessir tveir mánuðir gefið kæranda 10,5% bótarétt. Kærandi hafi reiknað sér 159.000 kr. á tímabilinu frá maí 2014 til september 2014 og þá hafi viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra verið 338.000 kr. Laun kæranda hafi því verið 47% af viðmiðunarfjárhæðinni og þessir fimm mánuðir gefið kæranda 19,6% bótarétt. Bótaréttur kæranda nemi því samtals 72%.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. maí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

2. Niðurstaða

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 31. október 2014 og bótaréttur kæranda var metinn 72%. Ágreiningur máls þessa lýtur að bótahlutfallinu.

Kæranda var tilkynnt um bótahlutfallið með greiðsluseðli Vinnumálastofnunar, dags. 3. nóvember 2014. Ljóst er því að þriggja mánaða kærufrestur var liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 27. mars 2015, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar í hinni kærðu ákvörðun í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af gögnum málsins verður ráðið að kæranda hafi ekki verið leiðbeint um framangreinda kæruheimild fyrr en þann 25. mars 2015. Með hliðsjón af framangreindu verður kæra tekin til efnislegrar meðferðar.

Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur, sbr. b lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en ákvæðið hljóðar svo:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur: Hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.“

Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í 19. gr. laganna er fjallað um ávinnslutímabil sömu aðila. Í 1. mgr. 19. gr. segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Þá segir svo í 3. mgr. 24. gr. laganna:

„Við útreikninga á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. þegar kemur til geymdrar atvinnuleysistryggingar skal líta til þeirra tólf mánaða sem hinn tryggði starfaði á innlendum vinnumarkaði í hæsta starfshlutfalli á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar enda leiði ekki annað af lögum þessum. Á sama hátt fyrir sjálfstætt starfandi einstakling skal líta til þeirra tólf mánaða sem hinn tryggði greiddi staðgreiðsluskatt af hæsta reiknaða endurgjaldi á síðustu 36 mánuðum fyrir móttöku umsóknar.“

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt skal endurgjald fyrir vinnu manns sem reiknar sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Fjármálaráðherra gefur út viðmiðunarfjárhæðir fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra féll starfsemi kæranda undir flokk D2.

Kærandi greiddi mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem nam lægri fjárhæð en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra á síðustu tólf mánuðum áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Tryggingahlutfall hans ákvarðast því af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við útreikning á bótarétti kæranda valdi Vinnumálastofnun þá tólf mánuði á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar sem gáfu kæranda hæsta mögulega bótarétt, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 24. gr. laganna.

Á tímabilinu ágúst 2012 til desember 2012 reiknaði kærandi sér 350.000 kr. í laun samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun og þá voru viðmiðunartekjur ríkisskattsstjóra fyrir tekjuflokk D2 304.000 kr. Kærandi greiddi sér meira en 100% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í þessa fimm mánuði og því gaf vinna hans á því tímabili honum 42% bótarétt. Þá reiknaði kærandi sér 200.000 kr. í laun á tímabilinu janúar 2013 til febrúar 2013 og viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra var 319.000 kr. Laun kæranda á því tímabili voru því 62,7% af viðmiðunarfjárhæðinni og þessir tveir mánuðir gáfu kæranda 10,5% bótarétt. Kærandi reiknaði sér 159.000 kr. í laun á tímabilinu frá maí 2014 til september 2014 og þá var viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra 338.000 kr. Laun kæranda voru 47% af viðmiðunarfjárhæðinni og þessir fimm mánuðir gáfu kæranda 19,6% bótarétt. Bótaréttur kæranda nemur því samtals 72%.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, þar sem kærandi var reiknaður með 72% bótarétt, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta