Nr. 337/2017 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 29. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 337/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17030042
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 21. mars 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd frá […], synja honum um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Bretlandi og synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga og dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 78. gr. sömu laga.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi vegna aðstæðna hans í […] verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 1. nóvember 2016 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi hefur tvisvar áður sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, annars vegar árið 2012 og hins vegar árið 2014. Í fyrra skiptið dró hann umsókn sína til baka en í síðara skiptið var umsókn kæranda synjað um efnismeðferð og hann í kjölfarið sendur til Bretlands.
Þann 15. mars 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 21. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 26. apríl 2017.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í fyrsta viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 11. nóvember 2016 kvað kærandi að hann hafi haft dvalarleyfi í Bretlandi en það sé nú útrunnið. Hinn 16. desember 2016 barst Útlendingastofnun bréf frá kæranda þar sem hann lýsti óánægju sinni með dvalarstað sinn í Víðinesi og óskaði eftir því að hann yrði færður í annað búsetuúrræði sem allra fyrst. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun 3. janúar 2017 ásamt talsmanni sínum. Í viðtalinu neitaði kærandi að tjá sig þar sem Útlendingastofnun varð ekki við beiðni hans um að flytja hann í nýtt búsetuúrræði. Kæranda var þá kynnt að ákvörðun í máli hans yrði byggð á fyrirliggjandi gögnum málsins ásamt greinargerð hans. Hann hafi verið sáttur við það og skrifað undir endurrit viðtalsins.
Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna hans í […] ekki til efnismeðferðar hér á landi með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kærandi njóti stöðu flóttamanns í Bretlandi og hafi verið veitt ótímabundið leyfi til dvalar þar í landi, sbr. svar frá breskum yfirvöldum. Þá var kæranda synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna á Bretlandi þar sem kærandi sem ríkisborgari […] gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna á Bretlandi. Það var því niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi sé ekki flóttamaður og skuli synjað um hæli á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Jafnframt skuli synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga sem og dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið skv. 78. gr. laga um útlendinga. Þá skuli honum vísað frá landinu eins fljótt og verða megi. Komist var að þessari niðurstöðu að virtum ákvæðum 42. gr. laga um útlendinga.
Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga frestaði kæra réttaráhrifum ákvörðunar.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið til Íslands 1. nóvember 2016 og sótt um alþjóðlega vernd þann sama dag. Samhliða umsókn sinni hafi kærandi afhent Útlendingastofnun ítarlega skriflega greinargerð og afrit af […] vegabréfi sínu. Umsókn kæranda sem nú sé til skoðunar sé ekki sú fyrsta sem hann hafi lagt fram hér á landi. Mikilvægt sé að íslensk stjórnvöld greini á milli umsóknanna og taki tillit til hrakninga kæranda eftir að hann hafi verið sendur frá Íslandi 29. apríl 2015. Strax við komuna til Englands frá Íslandi hafi kærandi verið handtekinn og hnepptur í varðhald. Eftir að kæranda hafi orðið það ljóst að dvöl hans í varðhaldi yrði löng og hann myndi ekki fá að njóta þeirrar verndar í Bretlandi sem bresk yfirvöld segi að hann njóti, hafi hann ákveðið sjálfviljugur að fara til heimaríkis síns þann 7. nóvember 2015. Kærandi hafi dvalið í […] alla tíð síðan, […], og hafi reynt að byggja upp líf sitt. Kærandi kveði að allan þann tíma hafi hann orðið fyrir stöðugum ofsóknum af hendi […] stjórnvalda allt þar til hann hafi flúið til Íslands að nýju þann 1. nóvember 2016. Þá hafi sú vernd sem kærandi hafi hlotið á Englandi verið veitt honum undir fölsku nafni en raunverulegu auðkenni sínu til sönnunar hafi kærandi framvísað […] vegabréfi.
Í greinargerð kæranda er undirstrikað að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja um efnismeðferð umsókna um alþjóðlega vernd en ekki skyldu, sbr. skýrt orðalag laganna um að taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar nema að tilgreindir stafliðir eigi við. Meginregla laganna sé því að allar umsóknir skuli teknar til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við en rétt þyki að beita þeim þröngt í samræmi við almennar lögskýringarreglur.
Aðalkrafa kæranda byggi einkum á því að undantekningarregla a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í málinu. Í fyrsta lagi hafi kærandi upplýst að við hælisumsókn sína í Bretlandi árið 2004 hafi hann gefið upp rangt nafn, rangan fæðingardag og rangt ríkisfang. Því til sönnunar hafi kærandi lagt fram […] vegabréf sitt. Þegar kærandi hafi sótt um vernd í Bretlandi 2004 hafi hann í raun verið að flýja ofsóknir í heimaríki sínu en hafi kosið að gefa breskum stjórnvöldum rangar upplýsingar til þess að auka líkur sínar á vernd. Í öðru lagi megi sjá í gögnum málsins að kærandi hafi yfirgefið Bretland sjálfviljugur árið 2015 og dvalið í heimaríki sínu í 12 mánuði áður en hann hafi komið beint aftur til Íslands. Með því að snúa sjálfviljugur til […] hafi kærandi ekki lengur talist flóttamaður í skilningi Flóttamannasamningsins, þ.e.a.s. þar til honum hafi orðið ljóst að hann yrði að flýja ofsóknir […] yfirvalda að nýju. Hafi kærandi í þetta sinn leitað eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi. Í þessu sambandi sé bent á 4. tölul. c-liðar 1. gr. Flóttamannasamningsins þar sem fram komi að samningurinn hætti að gilda um hvern þann mann sem setjist sjálfviljugur að á ný í landi því sem hann hafi yfirgefið vegna ótta við ofsóknir. Í ljósi þessa njóti kærandi líklegast ekki verndar í Bretlandi sem ríkisborgari […]. Í málinu liggi ekki ljóst fyrir hvort kærandi hafi notið verndar sem ríkisborgari […] á einhverjum tímapunkti en ekkert í fyrirliggjandi gögnum bendi til þess og þá verði ekki talið að þau gögn sem borist hafi frá breskum stjórnvöldum svari þeirri spurningu. Hafi verndin verið til staðar megi telja ljóst að kærandi hafi líklegast tapað henni endanlega með því að setjast sjálfviljugur aftur að í […] og megi því vera ljóst að sú niðurstaða Útlendingastofnunar að fella mál kæranda undir a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé ótæk. Miðað við framangreint og það að kæranda hafi verið settur í varðhald þegar hann hafi verið sendur héðan til Bretlands árið 2015 sé ljóst að kærandi njóti líklegast ekki lengur virkrar alþjóðlegrar verndar í Bretlandi. Beri því íslenskum stjórnvöldum að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Telji kærunefnd að a-liður 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við í málinu bendir kærandi á ákvæði 2. og 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og þá skyldu nefndarinnar að taka þau sjónarmið sem þar komi fram til athugunar við meðferð málsins.
Telji kæruefnd að kærandi njóti enn verndar í Bretlandi telji kærandi augljóst að taka eigi mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í slíkum tilvikum beri stjórnvöldum skylda til að taka umsókn um vernd til efnismeðferðar, líkt og orðalag ákvæðisins gefi til kynna. Athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga um útlendinga gefi leiðbeiningar um vilja löggjafans til að víkka út gildissvið 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í hinum eldri lögum. Sé það enda í samræmi við meginreglu nýju laganna um að allar umsóknir um alþjóðlega vernd skuli teknar til efnismeðferðar. Byggt sé á því í málinu að fyrir hendi séu sérstakar ástæður sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
Fram kemur í greinargerð að þeir sem öðlist alþjóðlega vernd í Bretlandi fái aðeins aðstoð frá breskum yfirvöldum í 28 daga eftir að vernd hafi verið veitt. Reglan sé algjörlega óháð því hvort viðkomandi hafi tryggt sér nýtt húsnæði, vinnu eða rétt til bóta annars staðar frá eða ekki. Að öllu jöfnu sé nýjum flóttamönnum veitt dvalarleyfi til fimm ára í landinu. Að þeim tíma liðnum geti þeir sótt um ótímabundin leyfi til dvalar í Bretlandi að uppfylltum nokkrum skilyrðum. Tímafrek skriffinnska við þessa endurnýjun setji marga flóttamenn í vanda þegar komi að atvinnu eða rétti þeirra til nauðsynlegrar þjónustu, jafnvel á vegum hins opinbera. Ári eftir að hafa öðlast ótímabundið dvalarleyfi í Bretlandi geti flóttamenn sótt um breskt ríkisfang að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og gegn greiðslu. Reynist flóttamönnum sem komið hafi ólöglega inn í Bretland erfitt að uppfylla skilyrði breskra stjórnvalda fyrir ríkisborgararétti, þ.e. skilyrðinu um „good character“. Bresk stjórnvöld vinni ekki eftir neinni stefnu við aðlögum flóttamanna inn í þarlent samfélag og lifi flóttamenn því oft við fátækt og félagslega útilokun. Þá séu verulegar takmarkanir á fjölskyldusameiningu í Bretlandi og hafi framkvæmdin verið gagnrýnd af dómstólum og eftirlitsaðilum stjórnvalda. Bresk stjórnvöld veiti flóttamönnum afar litla aðstoð við að komast inn á atvinnumarkaðinn. Þá sé aðgangur flóttamanna að heilsugæslu takmarkaður í Bretlandi og sérfræðiþjónusta ýmiss konar reynist gloppótt.
Vísað er til þess í greinargerð er fram komi í alþjóðlegum skýrslum um hatursáróður og vernd minnihlutahópa í Bretlandi. Alvarlegum hatursglæpum hafi fjölgað eftir ákvörðun breskra stjórnvalda um að ganga úr Evrópusambandinu. Í skýrslu Amnesty International frá 21. febrúar 2017 sé greint frá mannréttindabrotum í landinu gagnvart flóttamönnum og innflytjendum, sbr. löggjöf sem heimili leigusölum að vísa þessum einstaklingum úr leiguíbúðum, lélegri frammistöðu breskra stjórnvalda við að taka við umsækjendum um alþjóðlega vernd, ótæpilegri beitingu varðhalds o.s.frv.
Varðandi rannsókn og rökstuðning Útlendingastofnunar er í greinargerð bent á það misræmi sem finna megi í ákvörðun stofnunarinnar. Í upphafi hennar sé kærandi talinn vera […], fæddur […] og ríkisborgari […]. Neðst á blaðsíðu fimm og efst á blaðsíðu sex í ákvörðuninni sé erfitt að skilja rökstuðninginn öðruvísi en svo að kærandi teljist vera […], fæddur […] og ríkisborgari […]. Í ákvörðunarorðinu sé hins vegar aftur vísað til kæranda sem […]. Með jafn mikilvægt atriði og þetta ætti ekki að vera til of mikils mælst að ætlast til þess að Útlendingastofnun gæti samræmis og skýrleika í rökstuðningi sínum. Með tilliti til 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsókn stjórnvalds og 22. gr. sömu laga um efni rökstuðnings verði að gera þá kröfu að Útlendingastofnun rannsaki mál og rökstyðji ákvarðanir sínar nægjanlega. Stórlega skorti á það í tilfelli kæranda.
Samkvæmt svari breskra yfirvalda hafi […] fengið stöðu flóttamanns og ótímabundið leyfi til dvalar þann 17. september 2004. Þar sem bresk stjórnvöld hafi ekki samþykkt móttöku á kæranda með berum orðum liggi hvorki fyrir upplýsingar um stöðu hans í Bretlandi né hvort bresk stjórnvöld telji sig bera skyldu til að taka á móti honum. Hafa þurfi í huga að umrætt leyfi til dvalar sé ekki varanlegt og geti fallið úr gildi, yfirgefi handhafi leyfis Bretland samfellt í tvö ár. Engar upplýsingar liggi fyrir um það hvort kærandi hafi yfirgefið Bretland í tvö ár samfellt eftir að leyfi til dvalar hafi verið gefið út og engar upplýsingar liggi fyrir um það hvort Útlendingastofnun hafi rannsakað gildi dvalarleyfis og stöðu kæranda í Bretlandi. Talið sé að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga um að við ákvörðun skuli stjórnvald rannsaka mál í þaula. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Byggt sé á því, verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda í málinu, að við ákvarðanatöku í máli kæranda hafi svo gróflega verið brotið gegn framangreindri reglu að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina og taka umsókn kæranda til meðferðar hjá Útlendingastofnun að nýju.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Kærandi kvaðst, þegar hann sótti um alþjóðlega vernd hjá lögreglu, vera […] ríkisborgari. Hann var ekki með vegabréf meðferðis en framvísaði minnislykli sem á voru upplýsingar af upplýsingablaði í vegabréfi hans en þar kom fram að hann heiti […], sé fæddur […] og væri […] ríkisborgari. Þegar kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2012 kvaðst hann heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […]. Þegar hann sótti um vernd hér á landi árið 2014 kvaðst hann heita […], vera fæddur […] og vera […] ríkisborgari. Fyrir liggur í málinu staðfesting frá breskum yfirvöldum þess efnis að […] hafi verið veitt staða flóttamanns þar í landi og ótímabundið dvalarleyfi. Kærunefnd telur ljóst að um sama mann sé að ræða og verður því við úrlausn málsins lagt til grundvallar að kæranda hafi verið veitt staða flóttamanns í Bretlandi og sé þar með ótímabundið dvalarleyfi.
Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá […] og vísa honum frá landinu.
Í 1. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kæranda veitt réttarstaða flóttamanns í Bretlandi. Liggur þannig fyrir að kærandi hefur hlotið virka alþjóðlega vernd í Bretlandi og eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.
Í 2. mgr. 36. gr. laganna segir að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður því að leggja mat á hvort aðstæður í Bretlandi brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. mannréttindasáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Bretlandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Freedom in the World 2016 – United Kingdom (Freedom House, 15. apríl 2017)
- 2016 Country Reports on Human Rights Practices – United Kingdom (United States Department of State, 3. mars 2017)
- Amnesty International Report 2016/17 – United Kingdom (Amnesty International, 21. febrúar 2017)
- Asylum Information Database Country Report: United Kingdom (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2017)
- UNHCR Global Strategy Beyond Detention 2014-2019. National Action Plan United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland (The UN Refugee Agency, desember 2015)
- Upplýsingar af heimasíðu sem bresk yfirvöld halda úti: www.gov.uk.
Einstaklingar sem hljóta alþjóðlega vernd í Bretlandi fá alla jafna fimm ára dvalarleyfi. Að þeim tíma liðnum geta þeir sótt um ótímabundið dvalarleyfi (e. indefinite leave to remain) en samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er umsóknarferlið tiltölulega einfalt. Þá geta þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Bretlandi sótt um ríkisborgararétt að ákveðnum skilyrðum uppfyllum og gegn gjaldi, hafi þeir haft ótímabundið dvalarleyfi í landinu í eitt ár hið minnsta. Þótt einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd geti verið sviptir verndinni, m.a. ef þeir hafa dvalið utan Bretlands í meira en tvö ár, liggur fyrir í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér að afturköllun verndar gerist ekki sjálfkrafa við þær aðstæður heldur sé hvert mál skoðað sérstaklega.
Þeir sem hljóta alþjóðlega vernd í Bretlandi eiga rétt á því að stunda atvinnu, sækja um bætur hjá ríkinu og kaupa eða taka á leigu félagslegt húsnæði. Þá eiga þeir sama rétt til heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum og breskir ríkisborgarar en þó getur aðgangur að heilbrigðisþjónustu í einhverjum tilvikum reynst erfiður.
Til stuðnings kröfu sinni hefur kærandi m.a. fært fram sjónarmið um að þær aðstæður sem hann megi búast við í Bretlandi falli undir ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að senda hann til landsins í ljósi ákvæða 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Kærandi byggir á því aðstæður þær sem hann eigi von á í Bretlandi séu ómannúðlegar og vanvirðandi þar sem hann njóti ekki lengur verndar í Bretlandi og hans gæti beðið varðhaldsvist. Þá sé móttöku og aðlögun flóttamanna í Bretlandi verulega ábótavant. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að kærandi sé með alþjóðlega vernd í Bretlandi og hafi hlotið ótímabundið dvalarleyfi þar í landi þann 17. september 2004. Ekkert í framangreindum skýrslum bendir til þess að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Bretlandi séu settir í varðhald þar í landi án ástæðu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmálans feli ekki í sér kröfu til aðildarríkja sáttmálans til þess að sjá öllum flóttamönnum fyrir heimili eða fjárhagslegri aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) þann 2. apríl 2013. Af fyrrnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að aðstæður kæranda sem einstaklings með alþjóðlega vernd, að því leyti sem þær lúta að skorti á fjárhagslegum stuðningi frá yfirvöldum í Bretlandi, verða ekki taldar til ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefnd hefur jafnframt lagt mat á aðstæður kæranda í Bretlandi að öðru leyti og er það niðurstaða nefndarinnar að þær verði ekki felldar undir ákvæði 3. gr. sáttmálans.
Athugun kærunefndar á aðstæðum þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Bretlandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður þeirra í Bretlandi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda brjóti í bága við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði hann sendur þangað. Þá benda gögn til þess að telji kærandi sig í hættu eða öryggi hans ógnað í Bretlandi geti hann leitað til lögregluyfirvalda í landinu. Það er því niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Bretlands feli ekki í sér brot á 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Að mati kærunefndar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.
Þá er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 1. nóvember 2016.
Fyrir liggur að kæranda hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns í Bretlandi, sbr. svar breskra stjórnvalda við fyrirspurn Útlendingastofnunar. Að mati kærunefndar eru ekki forsendur til að leggja annað til grundvallar en að kærandi njóti enn verndar í landinu, en í svari breskra stjórnvalda við fyrirspurn Útlendingastofnunar kemur fram að honum hafi verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi og að hann hafi fengið ótímabundið dvalarleyfi. Ekkert kemur fram hjá breskum stjórnvöldum um að leyfi kæranda hafi verið fellt niður eða vernd hans afturkölluð með einhverjum hætti. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd frá […] og senda hann til Bretlands með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt fjallað um rétt kæranda til þess að fá alþjóðlega vernd vegna aðstæðna í Bretlandi og komist að þeirri niðurstöðu að hann, sem ríkisborgari […], gæti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Bretlandi þar sem hann hafði hlotið stöðu flóttamanns. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga, eða vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. sömu laga.
Í 74. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í lokamálslið 1. mgr. 74. gr. laganna segir að ákvæðinu skuli ekki beitt nema skorið hafi verið úr um með efnismeðferð að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar. Kærunefnd telur ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu Útlendingastofnunar að kærandi geti ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd vegna aðstæðna sinna í Bretlandi þar sem hann er ekki ríkisborgari þess lands. Kærunefnd telur þó að slík umfjöllun hafi verið óþörf í þessu máli þar sem aðstæður kæranda í Bretlandi geta ekki haft áhrif á tilkall hans til réttarstöðu flóttamanns. Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd ekki skilyrði að lögum til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða til handa kæranda skv. 74. gr. sömu laga.
Í greinargerð kæranda er byggt á því að Útlendingastofnun hafi ekki fullnægt skyldum sínum skv. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga sökum misræmis í ákvörðun stofnunarinnar. Í upphafi ákvörðunar stofnunarinnar sé kærandi talinn vera […], ríkisborgari […]. Síðar sé hann álitinn vera […] ríkisborgari […]. Í ákvörðunarorðinu sé hann svo á ný talinn vera […].
Til að sanna á sér deili hefur kærandi lagt fram afrit af […] vegabréfi þar sem fram kemur að hann heiti […] og sé fæddur […]. Þá voru tekin afrit af fingraförum kæranda við komu hans til landsins þann 1. nóvember 2016 og þá kvaðst kærandi heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […]. Í upplýsingum um stöðu kæranda í Bretlandi sem Útlendingastofnun óskaði eftir frá breskum yfirvöldum og fékk send þann 15. febrúar 2017 kemur fram að kærandi sé skráður þar í landi sem […]. Í svarinu kemur þó fram að hann hafi einnig gengið undir nafninu […] í Bretlandi ásamt öðrum nöfnum. Þykir því ljóst að […] og kærandi, […], séu sami maðurinn og að honum hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Bretlandi. Er það mat kærunefndar að það sé skýrt í ákvörðun Útlendingastofnunar hver kærandi sé og gerir nefndin ekki athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar á auðkenni kæranda. Að mati kærunefndar er ljóst að um einn og sama einstakling er að ræða í ákvörðun stofnunarinnar þrátt fyrir að mismunandi nöfn komi fram í texta ákvörðunarinnar. Kærandi hefur gefið upp misvísandi nöfn bæði hér á landi og í Bretlandi, en hann hefur á báðum stöðum gefið upp nöfnin […] og […]. Eins og áður hefur verið tekið fram telur kærunefnd ljóst að um sama einstakling sé að ræða. Þá er það jafnframt mat kærunefndar að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat á því hvort rétt væri að synja kæranda um efnismeðferð og helstu málsatvikum sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Kærunefnd ítrekar það sem áður hefur komið fram að ekkert í gögnum málsins bendir til þess að vernd kæranda eða ótímabundna dvalarleyfi hans hafi fallið úr gildi eða verið fellt niður. Telur kærunefnd því ekki tilefni til að gera athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar í málinu. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rannsókn og rökstuðningi niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar þannig að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Varakröfu kæranda er því hafnað.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir