Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Vilníus
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem hefst í Vilníus á morgun og stendur fram á miðvikudag.
Á fundinum verða málefni Úkraínu í brennidepli og mun Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, taka þátt í stofnfundi NATO-Úkraínuráðsins.
Nýjar varnaráætlanir bandalagsins verða einnig til umfjöllunar sem og markmið um framlög til varnarmála. Leiðtogafundurinn í Vilníus er sá fyrsti sem Finnland tekur þátt í sem fullgilt bandalagsríki.