Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2024 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2024 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

B ehf.

 

Uppsögn. Leiðréttingarkrafa. Launamismunun. Kyn. Kynþáttur. Þjóðernisuppruni. Fjölþætt mismunun. Ekki fallist á brot vegna launamismununar. Fallist á brot gegn banni við uppsögn.

A kærði ákvörðun B ehf. um að segja henni upp störfum í kjölfar þess að hún krafðist leiðréttingar á launum og kjörum sínum hjá B ehf. vegna mismununar á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna. Ekki var fallist á að A hefði leitt líkur að því að laun hennar og önnur kjör, sem leiðréttingarkrafa hennar laut að, hefðu verið ákvörðuð lægri fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 9. gr. og 15. gr. laga nr. 86/2018. Í samræmi við þá niðurstöðu var ekki heldur talið að sýnt hefði verið fram á að A hefði orðið fyrir fjölþættri mismunun. Hins vegar var fallist á að hún hefði leitt líkur að því að henni hefði verið sagt upp störfum sökum þess að hún hefði krafist leiðréttingar á kjörum sínum vegna mismununar á grundvelli laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, og laga nr. 86/2018, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Kom því í hlut kærða að sýna fram á að uppsögnin grundvallaðist ekki á leiðréttingarkröfu kæranda en að mati nefndarinnar hafði það ekki tekist hjá B ehf. Var því niðurstaða kærunefndar sú að A hefði verið sagt upp störfum sökum þess að hún hefði krafist leiðréttingar á grundvelli laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018. Var B ehf. gert að greiða A málskostnað.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 19. apríl 2024 er tekið fyrir mál nr. 6/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Upphaf málsins má rekja til þess að A kærði B ehf. til kæru­nefndar með kæru, dags. 1. nóvember 2021, fyrir að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Byggði kæran á því að kærði hefði brotið gegn fyrrnefndum lögum með því að segja kæranda upp störfum þar sem hún hefði krafist leiðréttingar á kjörum sínum á þeim grundvelli að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns og kynþáttar, sbr. 20. gr. laga nr. 150/2020 og 13. gr. laga nr. 86/2018. Þá hélt hún því fram að kærði hefði brotið gegn öðrum ákvæðum laganna með því að mismuna henni á grundvelli kyns og/eða kynþáttar með því að veita henni ekki kauprétt við úthlutun slíkra réttinda árið 2010, þrátt fyrir að aðrir starfsmenn sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum og hún hefðu fengið kauprétt, með því að veita henni lægri kauprétt en þeim starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum við úthlutun kauprétta árið 2015 og með því að greiða henni lægri laun en þeim sem gegndu jafn verðmætum eða minna verðmætum störfum hjá kærða en voru jafnframt með minni starfsreynslu. Jafnframt krafðist kærandi þess að kærði greiddi henni kostnað af því að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði 30. desember 2022 í máli nr. 18/2021 að kæranda hefði verið sagt upp störfum sökum þess að hún hefði krafist leiðréttingar á kjörum sínum vegna mismununar á grundvelli laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, og laga nr. 86/2018, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Að öðru leyti hefðu ekki verið leiddar líkur að broti á ákvæðum laganna. Var kærða gert að greiða kæranda málskostnað.
  3. Með úrskurði 19. september 2023 í máli nr. 15/2023 afturkallaði kærunefndin fyrrnefndan úrskurð með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í úrskurðinum var tekið fram að fyrir lægi að kærandi hefði ekki verið upplýst um tiltekin gögn sem hafði verið aflað við meðferð málsins sem kærði hafði óskað eftir trúnaði um, sbr. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 151/2020, og sem niðurstaðan í málinu var að einhverju leyti byggð á. Var því talið að ekki yrði hjá því komist að telja að ekki hefði verið nægilega gætt að andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, fyrir kærunefndinni við meðferð umrædds máls. Í samræmi við það var talið að úrskurðurinn væri ógildanlegur og málið tekið til meðferðar að nýju fyrir kærunefndinni á grundvelli fyrrnefndrar kæru frá 1. nóvember 2021.
  4. Hinn 20. september 2023 var kæranda veittur kostur á að senda inn frekari athuga­semdir og gögn. Athugasemdir kæranda eru dags. 4. október, 29. nóvember, 7. og 29. desember 2023, og 17. og 22. janúar 2024. Athugasemdir kærða eru dags. 14. nóvember, 5. og 28. desember 2023 og 10. og 22. janúar 2024. Að öðru leyti verður í úrskurði þessum byggt á þeim gögnum sem lágu fyrir í máli nr. 18/2021 og máli nr. 15/2023.

    MÁLAVEXTIR

     

  5. Kærandi starfaði hjá B ehf. frá 2007 til ársins 2021 en hjá forverum fyrirtækisins frá árinu 2000. Að loknu háskólanámi á árinu 2013 gegndi hún stöðu framkvæmdastjóra markaðsmála hjá félaginu. Kæranda var úthlutað kauprétti í lok árs 2015 og á árinu 2020 skrifaði hún undir endurbættan kaupréttarsamning. Hinn 11. febrúar 2021 fékk kærandi greiðslu fyrir kaupréttinn. Með bréfi til stjórnar kærða, dags. 22. júlí 2021, krafðist hún skaða- og miskabóta vegna þeirrar mismununar sem hún taldi sig hafa orðið fyrir á grundvelli kyns og/eða kynþáttar, bæði varðandi laun og við úthlutun kaupréttar á árinu 2010, þar sem hún hafi verið sniðgengin, og vegna kaupréttarúthlutunar á árinu 2015. Bréfi kæranda var svarað 19. ágúst 2021 þar sem kröfum hennar var hafnað. Kærandi sendi í kjölfarið annað bréf, dags. 1. september 2021, þar sem fyrri kröfur voru ítrekaðar en því var svarað með sama hætti af hálfu kærða tveimur dögum síðar, eða 3. september 2021. Síðast greindan dag afhenti forstjóri kærða kæranda bréf þar sem henni var sagt upp störfum hjá kærða.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Kærandi heldur því fram að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018 með því að hafa í fyrsta lagi ekki veitt kæranda kauprétt við úthlutun kauprétta árið 2010, í öðru lagi með því að veita henni lægri kauprétt en starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum við úthlutun kauprétta árið 2015 og í þriðja lagi með því að greiða henni lægri laun en en þeim sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum hjá kærða. Þá telur kærandi að uppsögn hennar hafi verið í andstöðu við ákvæði 20. gr. laga nr. 150/2020 og 13. gr. laga nr. 86/2018 þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að segja upp starfsmanni af þeim sökum að viðkomandi leitar réttar síns á grundvelli laganna. Bendir kærandi á að í uppsagnarbréfi til hennar sé viðurkennt að ástæða upp­sagnarinnar sé krafa hennar um leiðréttingu á mismunun sem hún taldi sig hafa orðið fyrir.
  7. Kærandi telur sig hafa orðið fyrir fjölþættri mismunun þar sem ástæða mismununar sé bæði kyn hennar og þjóðernisuppruni sem og kynþáttur, sbr. 3. tölul. 2. gr. laga nr. 150/2020 og 15. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018. Telur hún að kyn hennar og þjóðernisuppruni sem og kynþáttur hafi hvert um sig og í sameiningu haft áhrif við ákvörðun um laun hennar og við úthlutun kauprétta af hálfu fyrirtækisins. Engar málefnalegar skýringar séu fyrir hendi sem réttlæti mismunun við ákvörðun launa eða úthlutun kauprétta til starfsmanna.
  8. Kærandi tekur fram að hún sé fædd í X árið 1974 og hafi starfað hjá kærða og forverum kærða í rúm 20 ár, eða frá árinu 2000 og allt þar til henni var sagt upp 3. september 2021. Hún hafi lokið meistaraprófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands á árinu 2013 en frá þeim tíma hafi hún gegnt starfi framkvæmdastjóra markaðsmála hjá fyrirtækinu (CMO) og verið einn lykilstjórnenda þess. Bendir hún á að starfs­lýsing hennar í því starfi beri þessi merki að á henni hafi hvílt ríkar skyldur og mikil ábyrgð. Hafi hún sinnt stjórnun og samskiptum við fjölda verktaka sem hafi sinnt markaðsmálum fyrirtækisins í samstarfi við markaðsdeildina. Þá bendir hún á að hún hafi tekið þátt í að byggja upp samstarfs- og tengslanet sem hafi átt sinn þátt í því að fyrirtækið hlaut viðurkenningar. Hafi hún verið í hópi stjórnenda sem hafi tekið á móti þessum viðurkenningum og talað á alþjóðlegum ráðstefnum fyrir hönd kærða, sem sé til marks um mikilvægi hennar sem starfsmanns og stjórnanda fyrirtækisins. Auk framangreinds hafi hún setið í stjórnum alþjóðlegra fyrirtækja fyrir hönd fyrirtækisins og þannig tekið þátt í að efla ímynd kærða á alþjóðamarkaði.
  9. Kærandi tekur fram að hún hafi staðið sig afburðavel í starfi og megi m.a. rekja góðan árangur fyrirtæki­sins beint til starfa hennar á sviði markaðsmála. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við störf hennar. Hún hafi ásamt teymi sínu byggt upp vörumerkið B á heimsvísu en hugbúnaður fyrirtækisins sé seldur um allan heim. Bendir kærandi á að eftir að hún hafi ein tekið yfir markaðsstarf fyrirtækisins hafi virði þess aukist úr 30 milljónum evra árið 2015 í um 130 milljónir evra árið 2021. Augljóst sé að vel unnið markaðsstarf hafi átt stóran þátt í þeirri velgengni fyrirtækisins og þar með hafi vinnuframlag hennar skipt sköpum. Hafi það því verið verulegt áfall þegar hún komst að því fyrir tilviljun að vinnuframlag hennar hafi ekki verið metið að verðleikum og að henni hafi verið mismunað í starfi sínu hjá kærða.
  10. Kærandi telur að rekja megi upphaf þeirrar mismununar, sem hún telur sig hafa orðið fyrir, til ársins 2010 þegar gerðir voru kaupréttarsamningar við marga lykil­starfsmenn en ekki hana. Hafi hún fyrst fengið upplýsingar um þessa kaup­réttarsamninga við sölu fyrirtækisins árið 2015, þegar ágreiningur um þá fór fyrir dómstóla, og í ljós kom að umræddir starfsmenn hefðu hagnast talsvert á sölunni. Bendir kærandi á að engu breyti í þessu sambandi að nýir eigendur hafi síðar tekið við rekstri fyrirtækisins enda um sama atvinnurekanda að ræða í skilningi jafnréttislaga, auk þess sem hvorki kærandi né aðrir starfsmenn hafi skipt um vinnustað. Bendir kærandi á að meðal starfs­manna sem fengu kauprétt hafi verið starfs­menn sem voru lægra settir en hún og með minni starfsreynslu. Hafi kærandi upp­lýsingar um að verðmæti þessara kauprétta hafi verið á bilinu 15–100 milljónir króna fyrir hvern starfsmann.
  11. Kærandi bendir á að núverandi forstjóri fyrirtækisins hafi tekið við starfinu eftir að framangreindir kaupréttarsamningar voru gerðir. Þegar hann hafi verið upplýstur um að kærandi hafi ekki fengið úthlutað kauprétti hafi hann lagt til að hún myndi vinna áfram hjá fyrirtækinu en að komið yrði til móts við hana með því að leiðrétta laun hennar. Hafi kærandi því talið að vilji stæði til þess að tryggja að hún myndi í framtíðinni njóta sanngjarnra launa og kaupréttar til samræmis við stöðu sína hjá fyrirtækinu og starfsframlag. Sú hafi því miður ekki orðið raunin en for­stjórinn hafi mótmælt því að framangreint samtal hafi átt sér stað eftir að kærandi hafði uppi kröfur um leiðréttingu launakjara vegna mismununar.
  12. Kærandi tekur fram að gerðir hafi verið kaupréttarsamningar við stjórnendur fyrirtækisins á árinu 2015, þ.m.t. við hana. Sökum þagnarskyldu hafi ekki komið í ljós fyrr en síðar að sá kaupréttur var töluvert lægri en samkvæmt þeim samningum sem voru gerðir við aðra starfsmenn, hvort sem þeir voru jafn hátt eða lægra settir en hún innan fyrirtækisins. Hún hafi á árinu 2020 skrifað undir endurbættan kaup­réttarsamning og hafi henni þá verið tjáð að samningurinn væri gerður í því skyni að hún fengi meira í sinn hlut við sölu kaupréttarins. Hafi hún þannig átt von á því að fá betri kauprétt eða í það minnsta jafn góðan og aðrir starfsmenn í sambærilegum og jafn verðmætum störfum, einkum vegna þeirrar mismununar sem hún hafði þurft að þola við gerð fyrri kaupréttarsamninga. Sú trú hennar hafi m.a. verið byggð á því að forstjóra fyrir­tækisins hafi verið fullkunnugt um að gengið hefði verið fram hjá henni við gerð fyrri samninga.
  13. Kærandi tekur fram að 13. febrúar 2021 hafi hún fengið greidda tiltekna fjárhæð fyrir sinn kauprétt sem sé mun lægri en starfsmaður sem gegndi sambærilegu starfi fékk greidda. Fjárhæðin sé hins vegar sú sama eða svipuð og lægra settir starfsmenn fengu greidda. Sem dæmi hafi samstarfskona kæranda, sem starfi sem rekstrar­stjóri, fengið tvöfalt hærri greiðslu fyrir sinn kauprétt. Sú hafi gegnt sambærilegu starfi og kærandi að því er varðar ábyrgð og mikilvægi þótt sjálf verkefnin kunni að hafa verið ólík. Óumdeilt sé að um sé að ræða tvo af lykilstarfsmönnum fyrirtækisins og því vandséð að tvöfaldur munur á kauprétti eigi sér nokkrar málefnalegar skýringar, sér í lagi ef litið er til starfsreynslu og framlags til uppbyggingar fyrirtækisins þar sem kærandi hafði starfað tólf árum lengur. Þannig megi færa rök fyrir því að mismunur á kaupréttum hefði frekar átt að vera á hinn veginn.
  14. Kærandi heldur því fram að hún hafi þurft að þola skert launakjör miðað við starfs­menn í sambærilegum og jafn verðmætum störfum. Kærandi hafi þannig grun um að jafnsettir eða lægra settir starfsmenn innan fyrirtækisins með minni starfsreynslu hafi haft hærri laun en hún. Þessir starfsmenn séu flestir íslenskir karlar en hún sé kona af erlend­um uppruna. Að auki bendir kærandi á að ársreikningur félagsins frá árinu 2020 og staðgreiðsluskrá Skattsins renni stoðum undir staðhæfingar hennar, bæði varðandi óútskýrðan launamun og mismunun við greiðslu samkvæmt kaupréttar­samn­ingnum. Þannig virðist hlutdeild kæranda í heildarkaupréttum aðeins vera sem nemur 1,64%.
  15. Kærandi tekur fram að í ljósi alls framangreinds hafi hún ákveðið að óska eftir leiðréttingu vegna þeirrar mismununar sem hún taldi sig hafa orðið fyrir. Hafi hún viljað leggja sitt af mörkum til að leysa málið í sátt við sína yfirmenn, enda að öðru leyti mjög ánægð í starfi. Kærandi hafi því í júlí 2021 óskað eftir samtali við sinn næsta yfir­mann, forstjóra fyrirtækisins, til þess að fara yfir málið. Að mati kæranda var samtalið algjörlega árangurslaust. Hafi forstjórinn ekki boðist til að taka málið lengra, s.s. með því að rannsaka mögulegt launamisrétti og misrétti vegna úthlutun­ar kaupréttar, heldur einungis vísað til ábyrgðar stjórnar fyrir­tækisins. Tekur kær­andi fram að þá hafi forstjórinn sagt „að það kynni að vera að mögulega mætu eigendur fyrirtækisins konur ekki að jöfnu við karla og mögulega gilti það sama um fólk frá [Z]“. Kærandi hafi því ekki séð annan kost en að senda formlegt bréf til stjórnar kærða í því skyni að leita réttar síns.
  16. Kærandi tekur fram að í bréfi hennar til stjórnar kærða, dags. 22. júlí 2021, hafi hún krafist þess að hlutur hennar yrði leiðréttur með greiðslu skaða- og miskabóta, sbr. 16. gr. laga nr. 86/2018. Þá hafi hún óskað eftir upplýsingum frá kærða sem varpað gætu ljósi á það tjón sem hún hefði orðið fyrir vegna mismununar og að farið yrði með málið sem trúnaðarmál eftir því sem kostur væri, til samræmis við stefnu fyrirtækisins sjálfs í þeim efnum. Í svarbréfi kærða 19. ágúst 2021 hafi kröfum kær­anda verið hafnað án sérstaks rökstuðnings eða framlagningar gagna. Einu rökin hafi verið athugasemdir við lagalegan grundvöll og að framkvæmd hefði verið launa­greining sem ekki hefði leitt í ljós að kæranda hefði verið mismunað launalega séð.
  17. Kærandi bendir á að á fundi framkvæmdastjórnar kærða 25. ágúst 2021, sem kærandi hafi setið, hafi for­stjóri fjallað um kröfur kæranda þrátt fyrir að málið hafi ekki verið á dagskrá fundarins. Öðrum framkvæmdastjórum hafi verið brugðið við það en einn þeirra hafi yfirgefið fundinn. Kærandi telur þessa háttsemi forstjórans hafa í senn verið meið­andi og tilgangslausa, enda málið algjörlega óviðkomandi öðrum stjórnendum sem ekkert höfðu með launakjör eða úthlutun kauprétta til kæranda að gera. Hafi kær­andi verið miður sín eftir þetta atvik enda taldi hún að kröfur hennar myndu fara í eðlilegan farveg innan fyrirtækisins og að leyst yrði úr málinu á málefnalegan hátt en henni ekki refsað fyrir að gera athugasemdir og krefjast leiðréttingar á þeirri mismunun sem hún taldi sig hafa orðið fyrir. Þrátt fyrir það hefði hún haldið áfram að sinna starfi sínu af fullum heilindum og alúð eins og hún var vön. Hafi hún jafnframt sent forstjóranum og mannauðsstjóranum tölvuskeyti 30. ágúst 2021 þar sem hún hafi tekið fram að hún gæti að svo stöddu ekki skrifað undir nýjan kaupréttarsamning en áréttað ánægju sína í starfi og að hún vildi gjarnan vinna áfram hjá fyrirtækinu.
  18. Kærandi tekur fram að hún hafi ítrekað kröfur sínar með bréfi, dags. 1. september 2021, og óskað sérstaklega eftir að sér yrðu veittar upplýsingar til að kanna rétt­mæti þeirra fullyrðinga sem fram komu í bréfi kærða 19. ágúst 2021. Í ljósi full­yrð­inga um að launagreining hefði verið framkvæmd var jafnframt óskað eftir gögnum því til stuðnings, m.a. upplýsingum um með hvaða starfsmönnum kærandi hefði verið flokkuð, svo unnt væri að leggja mat á mögulegt launamisrétti. Einnig hafi verið óskað eftir upplýsingum sem lutu að úthlutun kauprétta. Þá hafi verið gerðar athugasemdir við viðbrögð forstjórans við kröfum kæranda, nánar tiltekið að hann hefði brotið trúnað gagnvart henni með því að ræða málið á fundi framkvæmda­stjórnar. Bréfi kæranda hafi verið svarað með bréfi, dags. 3. september 2021, þar sem fyrri svör kærða voru ítrekuð. Sama dag hafi kæranda verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu með bréfi sem henni var afhent af forstjóra fyrirtækisins. Í uppsagnarbréfinu sé vísað til bréfsins frá 22. júlí 2021 og því alfarið hafnað að kröfur kæranda hafi átt við rök að styðjast og því haldið fram að fullyrðingarnar hafi verið meiðandi í garð fyrirtækisins.
  19. Kærandi tekur fram að hún hafni alfarið staðhæfingum fyrirtækisins um að kröfur hennar um leiðréttingu vegna mismununar sem hún telur sig hafa orðið fyrir hafi verið meiðandi í garð þess. Þá breyti slíkar staðhæfingar engu um stað­reyndir málsins, kæranda hafi verið sagt upp af þeirri ástæðu að hún leitaði réttar síns, hvort sem fyrirsvarsmönnum fannst það réttlætanlegt eða ekki. Þegar af þeirri ástæðu sé uppsögnin ólögmæt, sbr. 20. gr. laga nr. 150/2020 og 13. gr. laga nr. 86/2018.
  20. Kærandi tekur fram að uppsögnin hafi valdið henni mikilli vanlíðan en hún hefði starfað í langan tíma hjá fyrirtækinu með góðum árangri og eigi þar marga góða vini. Þá hafi hún gætt þess að fjalla ekkert um málið opinberlega og því megi enga meiðandi umfjöllun um fyrirtækið rekja til kæranda. Upplýsingar í bréfi henn­ar frá 22. júlí 2021 séu lýsingar hennar á eigin upplifun sem hún hafði áður borið undir sinn næsta yfirmann. Forstjóri fyrirtækisins hafi aftur á móti ákveðið að taka málið upp og ræða á fundi stjórnenda sem hefðu ekkert haft um málið að segja. Engin stoð sé fyrir þeim röksemdum félagsins að háttsemi hennar hafi valdið því að forsendur hafi brostið fyrir áframhaldandi starfi. Kærandi hafi leitað til félagsins og óskað eftir leiðréttingu á mismunun sem henni hafi verið heimilt og kærði geti ekki valið að líta á erindi hennar sem trúnaðarbrest og nýtt það svo sem ástæðu uppsagnar.
  21. Kærandi tekur fram að kærði hafi ekki bent á nein gögn eða aðrar fullnægjandi forsendur fyrir því að lögmæt og eðlileg erindi hennar hafi falið í sér trúnaðarbrest. Hafi þannig enginn forsendubrestur verið til staðar og ónauðsynlegt að segja henni upp störfum. Í þessu sambandi bendir kærandi á að henni hafi ekki verið sagt upp störfum strax eftir meintan trúnaðarbrest heldur hafi liðið um sex vikur frá því að formlegt erindi vegna málsins var sent af hálfu lögmanns kæranda til stjórnar þar til henni var sagt upp störfum. Kærandi hafi notið trausts samstarfsmanna sinna og sinnt starfi sínu af fullum heilindum fram á síðasta dag. Kærði hafi ekki dregið það í efa eða bent á nokkuð varðandi frammistöðu kæranda sem gæti réttlætt upp­sögn hennar.
  22. Kærandi bendir á að ef fallist yrði á málatilbúnað kærða hvað uppsögnina varðar væri nokkuð ljóst að atvinnurekendur kæmust fram hjá lögum með því að snúa ábyrgð þess sem kvartar yfir mismunun upp á hann sjálfan. Starfsmaður sem telur sig hafa orðið fyrir mismunun í kjörum verði að hafa heimild til þess að bera upp slík erindi um möguleg lögbrot. Hafi vinnuveitandi ákveðið að fara með slík erindi fyrst og fremst sem alvarlegar ásakanir sé réttur starfsfólks að engu orðinn og lagaákvæði sem tryggja réttindi þess þýðingarlaus. Slík túlkun gangi gegn lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018.
  23. Kærandi bendir á að við mat á því hvort henni hafi verið mismunað beri að miða við framkvæmdastjóra hjá kærða eða stjórnendur á svokölluðu „C-level“, enda séu framkvæmdastjórar jafn hátt settir samkvæmt skipuriti kærða og störfin flokkuð saman við innleiðingu jafnlaunakerfis. Það gefi skýrt til kynna að um jafn verðmæt störf sé að ræða í skilningi jafnréttislaga. Jafnlaunavottun sé ekki fullnægjandi sönnun þess að starfsfólki sé ekki mismunað í launum, enda fyrirtækjum í sjálfsvald sett hvernig störf eru skilgreind við innleiðingu kerfisins. Kærandi hafi verið eina konan af erlendum uppruna í hópi framkvæmdastjóra en kærða sé óheimilt að greiða henni lægri laun en karlkyns framkvæmdastjórum og/eða framkvæmda­stjórum af íslenskum uppruna sem hafa heimilisfesti hér á landi. Kærandi telur verulegan launamun meðal framkvæmdastjóra óumdeildan og að fjárhæðin sem hún fékk greidda samkvæmt kaupréttar­samningi sé svipuð og lægra settir karlkyns starfsmenn af íslenskum uppruna fengu greidda.
  24. Kærandi tekur fram að ekki verði dregnar aðrar ályktanir af starfslýsingum sem liggi fyrir í málinu en að starf kæranda hafi a.m.k. verið jafn verðmætt og störf annarra framkvæmdastjóra, ef ekki verðmætara, jafnvel þótt verkefni framkvæmdastjóra hafi verið þau sömu. Hún hafi haft flest verkefni á sínum herðum og borið mikla ábyrgð. Mestar menntunarkröfur hafi verið gerðar til hennar starfs, sem endurspegli verðmæti þess, þar sem framhaldsmenntun á sviði markaðsfræða hafi verið krafa. Ekki hafi verið gerðar sambærilegar kröfur í starfslýsingum annarra framkvæmdastjóra en samkvæmt upplýsingum á vefsíðu kærða hafi nokkrir framkvæmdastjórar kærða aðeins lokið grunnnámi í háskóla en ekki framhaldsnámi. Tæknistjóri hafi til að mynda ekki menntun sem snúi beinlínis að því sviði sem hann stýri, þ.e. tölvunarfræði, og ekki verði séð að sambærileg krafa hafi verið gerð til hans til að sinna sínu starfi og gerð hafi verið til hennar. Starfsaldur þeirra tveggja sé svipaður og enginn eðlismunur á stjórnunarábyrgð þeirra hvað varðar mannaforráð. Þótt hann hafi haft mannaforráð yfir fleiri starfsmönnum hafi millistjórnendur sinnt teymisstjórn á sviði hans en kærandi hafi sinnt stjórnun og samskiptum við fjölda verktaka, sem sé mjög krefjandi og ekki síður mikilvægt. Ekkert réttlæti margfaldan launamun meðal þeirra en hann virðist hafa haft hátt í þreföld árslaun kæranda miðað við staðgreiðsluskrá Skattsins.
  25. Kærandi tekur fram að það sé ljóst að hún hafi átt lykilþátt í velgengni kærða en markaðsstarf sé grundvöllur tekjuöflunar kærða. Mikilvægi markaðsstarfsins hafi margsinnis verið viðurkennt á opinberum vettvangi, m.a. af forstjóra félagsins. Af ummælum hans sé ljóst að starf kæranda hafi í öllu falli ekki verið minna verðmætt en annarra framkvæmdastjóra, enda vörusala helsta tekjulind kærða.
  26. Kærandi tekur fram að hún hafi ekki aðrar upplýsingar um laun fyrrum samstarfsfólks síns en opinberar upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Skattsins, sem gefi með skýrum hætti til kynna gífurlegan launamun þar sem hallar á kæranda. Sá munur verði augljóslega ekki skýrður af því að framkvæmdastjórar hafi verið í öðrum störfum eða setið í stjórnum nema að mjög takmörkuðu leyti. Kæranda sé í öllu falli ekki kunnugt um að framkvæmdastjórar hafi gegnt slíkum störfum í nokkrum mæli, enda gerð krafa um að framkvæmdastjórar kærða leggi tíma sinn og metnað í starfið. Þær þrjár konur sem voru í framkvæmdastjórn hafi haft mun lægri laun en a.m.k. tveir karlkyns framkvæmdastjórar.
  27. Kærandi telur nauðsynlegt að kærunefnd leggi heildstætt mat á það hvort störf framkvæmdastjóra kærða séu jafn verðmæt í skilningi jafnréttislaga með samanburði m.t.t. eðlis og fjölda verkefna, ábyrgðar, mannaforráða, mikilvægis starfa fyrir árangur fyrirtækisins o.s.frv. Að mati kæranda leiðir slíkt mat í ljós að störf framkvæmdastjóra kærða hafi verið sambærileg og jafn verðmæt. Engin málefnaleg sjónarmið sem snúa að menntun, starfsreynslu, ábyrgð eða öðrum þáttum geti réttlætt launamun milli kæranda og annarra framkvæmdastjóra. Afar fá störf séu nákvæmlega eins en kunni að vera jafn verðmæt. Þannig sinni fulltrúar á lögmannsstofum gjarnan sambærilegum störfum þó að verkefnin séu ekki þau sömu og sama megi segja um störf kennara í skólum.
  28. Kærandi tekur fram að það feli í sér mismunun í sjálfu sér að lægra settir starfs­menn hafi sambærileg eða jafn há laun og kærandi og kærunefndin verði að taka skýra afstöðu til þess hvort kæranda hafi verið mismunað með þessum hætti. Hún bendir á að þrír lægra settir starfsmenn, karlar af íslenskum uppruna, hafi haft hærri laun en hún árið 2020. Hafi kærunefnd ekki aflað fullnægjandi gagna frá kærða um kaupréttar­samninga lægra settra starfsmanna.
  29. Kærandi bendir á að samantekt á meðallaunum framkvæmdastjóra samkvæmt launakönnun sem kærði hefur lagt fram hafi litla eða enga þýðingu í málinu þar sem aðeins sé um hluta hennar að ræða og því ómögulegt að vita á hvaða forsendum hún byggi. Hins vegar styðji könnunin frekar við kröfur kæranda en kærða. Ljóst sé að hið kærða fyrirtæki hafi ekki sambærilega launauppbyggingu og komi fram í niðurstöðu könnunarinnar en samkvæmt henni ættu mannauðsstjóri og fram­kvæmdastjóri tæknisviðs, sem dæmi, að hafa sömu eða mjög svipuð laun. Í tilviki kærða sé kona í stöðu mannauðsstjóra en karl í starfi framkvæmdastjóra tæknisviðs og karlinn með margfalt hærri laun en konan. Launamunur samkvæmt könnuninni sé jafnframt margfalt minni en launamunur meðal framkvæmdastjóra kærða.
  30. Kærandi telur að hún hafi leitt sterkar líkur að því að hún hafi orðið fyrir mismunun við úthlutun kauprétta og við ákvörðun launa á grundvelli kyns og/eða kynþáttar og þjóðernisuppruna, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018, þar sem kærði hafi viðurkennt að framkvæmdastjórar fengju mishá laun og misháa kauprétti. Beri kærði sönnunarbyrði fyrir því að málefnalegar ástæður geti réttlætt þann mismun. Þá sönnunarbyrði hafi kærði ekki axlað þrátt fyrir margra mánaða málsmeðferð og fjölda tækifæra til að leggja fram gögn í því skyni. Hvorki hafi verið aflað gagna um laun og kjör þess framkvæmdastjóra sem hafði færri undirmenn en kærandi né tiltekins lægra setts starfsmanns, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar þar um. Áréttar kærandi mikilvægi þess að niðurstaða málsins byggi á framlögðum gögnum og staðreyndum, en ekki yfirlýsingum hins kærða fyrirtækis sem ekki fái stoð í gögnum málsins. Sjónarmið kærða sem lúti að ólíku markaðssvæði eigi ekki við í því sambandi.
  31. Að lokum tekur kærandi fram að þar sem hún krefjist þess að allar ákvarðanir kærða, sem hún telur hafa falið í sér mismunun gagnvart sér, séu metnar í heild verði að miða við að kærufrestur til nefndarinnar hafi fyrst byrjað að líða við upp­sögn hennar úr starfi, dags. 3. september 2021, en þann dag hafi kæranda orðið ljóst að fyrirtækið myndi ekki leitast við að leiðrétta kjör hennar eða bæta fyrir það ójafn­rétti sem hún hafði þurft að þola. Í þessu sambandi bendir kærandi á orðalag 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 þar sem segir að kærufrestur byrji að líða þegar því ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  32. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, í sam­skiptum sínum við kæranda. Jafnframt mótmælir kærði þeirri fullyrðingu kæranda að henni hafi verið sagt upp störfum sökum þess að hún leitaði réttar síns og að það hafi verið viðurkennt í uppsagnarbréfinu. Þá mótmælir kærði því að honum verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi.
  33. Kærði hafnar málavaxtalýsingu kæranda og því að fyrrverandi forstjóri kærða hafi látið þau ummæli falla sem eftir honum eru höfð í kæru. Hið rétta sé að hann hafi ekki getað fullyrt eitt eða neitt um hug stjórnarmanna kærða varðandi mismunun í garð kæranda á þeim grundvelli að hún væri kona eða frá Afríku þar sem hann þekkti ekki afstöðu þeirra.
  34. Kærði hafnar því að kærandi hafi lagt fram kvörtun eða óskað eftir því að fram­kvæmdastjóri kæmi málinu í farveg innan félagsins. Hafi hún eingöngu spurst fyrir um þessi atriði. Fyrsta erindið frá kæranda varðandi meinta mismunun hafi verið bréf sem sent var stjórn félagsins þar sem hún krafðist skaðabóta vegna mis­mununar í starfi. Hafi kærandi kosið að senda bréf til erlendra stjórnarmanna félagsins en ekki til starfsmannastjóra eða síns yfirmanns. Þá hafi yfirskrift bréfsins verið krafa um skaðabætur vegna mismununar í starfi hjá kærða. Hafi tilgangur bréfs kæranda til stjórnarmanna kærða því ekki verið að leita eftir upplýsingum vegna gruns um mögulega mismunun eða kvarta undan mismunun, heldur sækja skaðabætur vegna meintrar mismununar á grundvelli kyns og kynþáttar.
  35. Kærði tekur fram að ástæða uppsagnarinnar komi með skýrum hætti fram í upp­sagnarbréfinu, dags. 3. september 2021. Að mati kærða hafi ýmsar meiðandi fullyrðingar verið settar fram í bréfi kæranda til stjórnar, dags. 22. júlí 2021. Í fyrsta lagi að forstjóri kærða hafi hvatt kæranda til að starfa áfram hjá kærða þrátt fyrir órétt­læti tengt úthlutun kauprétta á árinu 2010, sem sé ekki rétt enda hafi hann aldrei rætt við hana um fyrrnefnda kauprétti. Í öðru lagi hafi verið fullyrt að forstjórinn hafi ítrekað brotið gegn kæranda á grundvelli kyns og kynþáttar og vísað í því sambandi til löggjafar sem banni mismunun og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Í þriðja lagi að forstjórinn hafi brotið gegn kæranda með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, sbr. samtal um kauprétti veitta á árinu 2010.
  36. Bendir kærði á að framangreindar fullyrðingar hafi verið settar fram gagnvart stjórn kærða án fyrirvara. Kærði hafi upplýst í uppsagnarbréfi að hann þekkti laga­skyldur sínar og réttindi kæranda en að kærði teldi fyrrgreind lög ekki veita kær­anda heimild til að bera upp á yfirmenn sína ósannindi og meiðandi fullyrðingar um ásetningsbrot á lögum á grundvelli kyns og kynþáttar kæranda. Undir slíkum meiðandi fullyrðingum, án fyrirvara eða gagna þeim til stuðnings, hafi kærði ekki getað setið.
  37. Kærði tekur fram að kærandi hafi verið framkvæmdastjóri hjá félagi sem starfi á alþjóðlegum markaði. Að halda slíkum ásetningsbrotum fram hafi haft þær afleið­ingar að nauðsynlegur trúnaður hafi ekki lengur verið til staðar milli aðila. Var því að mati kærða ekki mögulegt að reka félagið áfram með kæranda í starfi. Uppsögn kæranda hafi þannig ekki átt sér stað vegna þess að hún kvartaði undan því að á sér hefði verið brotið heldur vegna fyrrgreindra fullyrðinga um samtöl sem ekki áttu sér stað og um ásetningsbrot á jafnréttislögum og stjórnarskrá, án fyrir­vara eða undirliggjandi gagna. Séu þannig aðrar ástæður að baki uppsögninni en kvörtun vegna mismununar, krafa um leiðréttingu eða krafa um skaðabætur.
  38. Tekur kærði fram að hann byggi á því að orðum fylgi ábyrgð. Uppsagnarvernd í lögum nr. 86/2018 og nr. 150/2020 gefi starfsmönnum ekki heimild til þess að full­yrða hvað sem er án fyrirvara eða undirliggjandi gagna. Að mati kærða verði að gera þær kröfur til starfsmanna að þeir gæti í slíkum tilvikum hófs í orðavali og fullyrðingum, sérstaklega þegar ekki eru fyrir hendi gögn eða upplýsingar sem styðja það. Gagnkvæmt traust og virðing á milli vinnuveitanda og starfs­manns sé grundvöllur þess að gæfuríkt samstarf geti átt sér stað. Brjóti annar aðilinn það traust og virðingu með meiðandi og órökstuddum fullyrðingum gegn æru og persónu annars manns geti slíkt haft afleiðingar. Í tilviki kæranda hafði það þær afleiðingar að henni var sagt upp störfum. Telur kærði þannig einsýnt að uppsögn kæranda hafi hvorki brotið gegn 20. gr. laga nr. 150/2020 né 13. gr. laga nr. 86/2018.
  39. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018 með þeim hætti að mismuna kæranda í kjörum með því að veita kæranda ekki kauprétt árið 2010, með því að veita kæranda lægri kauprétt en öðrum árið 2015 og með því að greiða kæranda lægri laun en öðrum starfsmönnum í sambærilegri stöðu. Kærði áréttar að ekki sé hægt að líta til allra þeirra atriða sem kærandi telur fela í sér mismunun sem viðvarandi brot og að uppsögnin sé upphafsdagur kærufrests. Um sé að ræða aðgreind tilfelli og því séu kærufrestir varðandi úthlutun kauprétta á árunum 2010 og 2015 löngu liðnir.
  40. Kærði tekur í fyrsta lagi fram að það að veita kæranda ekki kauprétt árið 2010 geti ekki haft í för með sér brot á lögum nr. 150/2020 og nr. 86/2018 sem tóku gildi annars vegar 6. janúar 2021 og hins vegar 1. september 2018. Í öðru lagi telur kærði að fullyrðingar kæranda, um að starfsmenn sem gegndu sambærilegum störfum og hún eða voru lægra settir hafi fengið kauprétt, séu alfarið órökstuddar. Í þriðja lagi bend­ir kærði á að hafi kærandi átt rétt til úthlutunar kaupréttar árið 2010, sem hann hafi enga vitneskju um, þá sé allur réttur hennar til slíks fallinn niður fyrir fyrningu og tómlæti, enda yfir áratugur liðinn frá því að umræddum kaupréttum virðist hafa verið úthlutað. Geti því ekki verið um brot á framangreindum lögum að ræða. Í fjórða lagi sé kærufrestur til kærunefndar jafnréttismála sex mánuðir frá því að ætlað brot lá fyrir. Nefndin geti, þegar sérstaklega stendur á, ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt sá frestur sé liðinn en þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. Að mati kærða sé augljóst af kæru að kærandi hafði vitneskju um meint brot mun fyrr en einu ári áður en kæra var send til nefndarinnar. Beri því að vísa þessum hluta kærunnar frá á þeim grundvelli. Í fimmta lagi telur kærði rétt að hafna kröfu kæranda á grundvelli aðildarskorts þar sem hann hafi ekki veitt neinum starfsmanni félagsins kauprétt árið 2010 og geti því ekki hafa brotið gegn kæranda. Hið rétta sé að félagið C ehf., annar lögaðili en kærði, hafi veitt ákveðnum einstaklingum réttindi á þessum tíma. Kærði geti ekki svarað fyrir þann lögaðila eða þær ástæður sem lágu að baki úthlutun réttinda á þeim tíma.
  41. Varðandi það að kaupréttur kæranda á árinu 2015 hafi verið lægri en hjá öðrum starfsmönnum sem gegndu sambærilegum störfum vísar kærði í fyrsta lagi til sömu raka varðandi gildistöku laga nr. 150/2020 og nr. 86/2018 og tíunduð voru hér að framan. Tekur kærði fram að það ætti að hafa í för með sér að hafna beri þessari kröfu kæranda. Í öðru lagi bendir kærði á umfjöllun í kæru þar sem fram komi að hinn 13. febrúar 2021 hafi kærandi fengið greiðslu sem samsvaraði tæpum 56 milljónum króna vegna kaupréttar sem hún átti í hlutum félagsins. Umrædd greiðsla muni þó hafa átt sér stað tveimur dögum fyrr, þ.e. 11. febrúar 2021. Þá komi fram í kæru að samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi fengið sé sú fjárhæð mun lægri en starfsmaður fékk sem gegndi sambærilegu starfi og hún, en kærandi muni hafa fengið þessar upplýsingar frá þeim starfsmanni sem hún vísi til í sömu viku og greiðsla hafi farið fram. Kæra sé dagsett 1. nóvember 2021 eða átta mánuðum og 16 dögum eftir að meint vitneskja barst kæranda. Með vísan til þess að kærufrestur til kærunefndar jafnréttismála sé sex mánuðir frá því að ætlað brot lá fyrir krefst kærði þess að þessum hluta kærunnar verði vísað frá nefndinni.
  42. Kærði tekur í þriðja lagi fram að með undirritun „Settlement Notice“, dags. 11. febrúar 2021, hafi kærandi lýst því yfir að hún ætti engar frekari kröfur en kæmu fram í því skjali á hendur kærða vegna kaupréttarins. Kærandi hafi lýst því yfir að hún myndi engar kröfur setja fram á hendur félaginu, hluthöfum þess eða neinum öðrum sem byggðar væru á umræddum kauprétti og hún hafi afsalað sér öllum mögulegum kröfum samkvæmt umræddu skjali. Með vísan til þess krefst kærði þess að kærunefnd vísi kröfu þessari frá, enda sé ljóst að hafi einhvern tíma verið til staðar krafa á grundvelli meintrar mismununar vegna umrædds kaupréttar hafi kærandi afsalað sér henni.
  43. Bendir kærði á að í gegnum tíðina hafi úthlutun kauprétta, bæði hérlendis og erlendis, verið með allt öðrum hætti en ákvörðun og greiðsla launa. Ástæðan sé til að mynda sú að samnings­samband um fjárhæð launa og launakjör er að jafnaði við næsta yfirmann, í tilviki framkvæmdastjóra við forstjóra, sem yfirmann daglegs rekstrar. Því sé aftur á móti oft á annan veg farið þegar komi að kaupréttum. Kaupréttir séu yfirleitt veittir á grundvelli ákvarðana stjórnar sem oft á tíðum fari þar eftir ákvörðunum hluthafafunda. Kaupréttir séu þannig ekki kjör í skilningi þess orðs, enda þurfi kaupréttir ekki að hafa í för með sér skattskyld verðmæti fyrir starfsmenn öfugt við greiðslu launa, kaupauka o.s.frv. Telur kærði með vísan til framangreinds að úthlutun kauprétta falli þannig ekki undir það að vera kjör samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 86/2018 og 10. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2020. Beri því að vísa kröfum kæranda hvað þetta varðar frá ella hafna þeim að öllu leyti.
  44. Kærði tekur fram að telji kærunefndin að úthlutun kauprétta feli í sér kjör samkvæmt fyrrgreindum lagagreinum sé ekki um hefðbundin laun að ræða. Slík ákvörðun sé meira á borði stjórnar og hluthafa heldur en forstjóra félags, enda hafi forstjóri að jafnaði enga heimild til úthlutunar kauprétta án aðkomu stjórnar eða hluthafa. Þá ráði önnur sjónarmið för við úthlutun kauprétta en ákvörðun um fjárhæð launa. Þannig sé úthlutun kauprétta oft hvatning til stjórnenda og/eða annarra starfsmanna til að auka verðmæti félaga, oft áður en þau eru sett í sölumeðferð eða skráð á markað. Úthlutun kauprétta eigi sér þá oft stað með þeim formerkjum að það starfsfólk fái hæstu kaupréttina sem stjórn og hluthafar telja, í samstarfi við forstjóra, að sinni „verðmætustu“ störfunum fyrir félagið, þ.e. þeim störfum sem þeir telja að geti haft mikið með aukningu verðmætis félagsins að gera.
  45. Kærði tekur í fjórða lagi fram að grundvöllur kröfu kæranda sé að komið hafi verið fram við hana með öðrum hætti en starfsmenn kærða í sambærilegri stöðu. Af því tilefni leggur kærði áherslu á að enginn starfsmaður kærða hafi verið í sambærilegri stöðu og kærandi. Kærandi hafi starfað sem framkvæmdastjóri markaðsmála (CMO). Enginn annar framkvæmdastjóri markaðsmála hafi verið starfandi hjá kærða og enginn í hliðsettu starfi. Kærði tekur fram að þó að framkvæmdastjórar kærða, sem stjórni mismunandi sviðum, hafi allir verið í svokölluðu „C-level, Job Family 1“ verði að líta til annarra þátta við ákvörðun kjara, enda óumdeilt út frá starfslýsingum framkvæmdastjóra að eðli og ábyrgð starfa þeirra sé ólíkt. Áréttar kærði að það að starfsmenn beri starfsheitið framkvæmdastjóri þýði ekki að þeir sinni sömu störfum.
  46. Kærði tekur fram að ekkert annað starf hjá fyrirtækinu sé sambærilegt að ábyrgð, inntaki eða ytri búnaði og það starf sem kærandi gegndi. Hafi kærði ekki heldur aðhafst neitt sem gæti hafa bent til þess að starfi kæranda væri ætlað nokkurt jafnræði við önnur störf varðandi ytri ásýnd. Áréttar kærði að enginn starfsmaður hjá honum hafi gegnt sambærilegu starfi og kærandi. Því sé hafnað að allir framkvæmdastjórar hjá stórum fyrirtækjum séu í sambærilegri stöðu samkvæmt lögum og að það sé þannig lagaskylda að þeir fái allir sömu kjör. Kærandi hafi verið með hæstu launin í þeirri deild félagsins sem hún var í forstöðu fyrir, auk þess sem engum öðrum innan sviðsins hafi verið úthlutað kaupréttum. Eingöngu vegna þessa beri að hafna kröfum hennar.
  47. Kærði bendir á að það liggi í hlutarins eðli og ætti að segja sig sjálft að framkvæmdastjórar mismunandi sviða innan stórra fyrirtækja gegni ekki sama starfi í skilningi laga. Það ætti einnig að vera ljóst að umrædd störf séu ekki sambærileg heldur byggi á heildstæðu mati á viðkomandi starfi. Ábyrgð framkvæmdastjóra, menntun þeirra og reynsla sé mismunandi. Sum þessara starfa séu þess eðlis að þau séu mikilvægari og verðmætari fyrir fyrirtæki en önnur, sem geti endurspeglast í launakjörum, auk þess sem ábyrgð og umfang starfs vaxi almennt í réttu hlutfalli við mannaforráð. Því til stuðnings vísar kærði til tiltekinnar launakönnunar frá september 2022 þar sem fram komi laun stjórnenda hjá 48 stórum fyrirtækjum á Íslandi. Af henni sé ljóst að æðstu stjórnendur markaðsmála séu að jafnaði lægst launaðir af öllum stjórnendum og muni þar til að mynda 21% gagnvart stjórnanda fjármála, 18% gagnvart þróunarstjóra og 16% gagnvart starfsmannastjóra. Bendir kærði á að það sýni grundvallarmun á röksemdum aðila að kærandi telji störf framkvæmdastjóra samanburðarhæf við störf fulltrúa á lögmannsstofu og störf kennara en kærði telji svo ekki vera.

     

  48. Kærði mótmælir því að starf kæranda hafi verið umfangsmeira en annarra framkvæmdastjóra, enda segi fjöldi punkta í starfslýsingu ekkert um umfang starfs og ábyrgð. Þvert á það sem kærandi haldi fram séu ekki mestar menntunarkröfur gerðar til framkvæmdastjóra markaðsmála en þar að auki hafi sú menntun sem kærandi bjó yfir áður en hún hóf störf hjá kærða ekki gagnast með beinum hætti í starfi. Því fari fjarri að kærandi hafi umfram aðra starfsmenn, hvort sem er í framkvæmdastjórn eða ekki, tekið þátt í ráðstefnum og tekið við viðurkenningum fyrir hönd kærða. Sú stjórnarseta sem kærandi vísi til hafi enga þýðingu. Þá sé það einsdæmi að kærði hafi veitt kæranda fjárhagslegan stuðning til að afla sér aukinnar menntunar í starfi hjá kærða.
  49. Kærði leggur áherslu á að hann reki hugbúnaðarhús þar sem hjarta starfseminnar sé hugbúnaðargerð en ekki markaðsmál eða auglýsingagerð. Þannig sé markaðs­starf ekki grundvöllur að tekjuöflun kærða heldur stuðningsstarf við sölustarf og vöruþróun. Markaðsstarf kærða sé síðan að stórum hluta til unnið annars staðar en á skrifstofum kærða, með samstarfsaðilum eða „partners“ sem í dag séu um 400 talsins.
  50. Kærði tekur fram að tæknistjóri, sem kærandi ber sig saman við, sé því lykil­stjórnandi kærða sem sinni rekstri og nýsköpun sem sé forsenda starfseminnar og grundvöllur hennar en án hennar væri engin þörf fyrir markaðsstarf. Hann sé með mun meiri reynslu og ábyrgð en kærandi hafi verið með. Kærandi hafi verið yfir fimm manna deild en tæknistjóri stýri 140 manna sviði sem sjái um að hanna og þróa vörur kærða, vörur sem séu grundvöllur félagsins, auk þess að eiga í samskipt­um við fjölda verktaka í sínu starfi, líkt og átt hafi við um kæranda. Samanburður kæranda á menntun hennar og tæknistjóra sé illskiljanlegur. Hann sé með kandídatsgráðu (Cand.Sci.) í verkfræði sem hafi gefið réttinn til að nota starfsheitið verkfræðingur eins og á við um þá sem taka BS- og MS-gráðu í verkfræði í dag. Sé því rangt að hann sé ekki með menntun sem samsvarar meistaraprófi. Að auki við þá gráðu sé hann með BS-gráðu í tölvunarfræði og hafi lokið meistaranámi í hagfræði að frátalinni lokaritgerð.
  51. Kærði tekur fram að í fyrirtækjum hafi lengi verið litið svo á að framkvæmdastjóri fjármála (CFO) sé næstur á eftir forstjóra og því næst komi framkvæmdastjóri rekstrar (COO). Í tæknifyrirtækjum, líkt og hjá kærða, sé tæknistjóri (CTO) oft talinn sinna mikilvægasta starfinu þar á eftir. Að auki sé það þannig að þeir sem veljist í forsvar fyrir félag þegar komi að sölumeðferð fái oft hærri kauprétt en aðrir. Þannig hafi það verið í tilfelli kærða við úthlutun kauprétta árið 2015, enda hafi vinna við sölumeðferð verið mjög umfangsmikil fyrir ákveðna starfsmenn kærða. Þeir starfsmenn sem sinntu framan­greindum störfum hjá kærða og voru í forsvari fyrir félagið þegar kom að sölumeðferð þess hafi fengið hæstu kaupréttina árið 2015. Það hafi þó hvorki komið kyni né kynþætti við heldur snúið alfarið að stöðu þeirra innan félagsins.
  52. Kærði bendir á að kærandi, sem ekki var í forsvari fyrir kærða í söluferli líkt og framangreindir aðilar, hafi til að mynda fengið jafn háan kauprétt og fram­kvæmdastjóri mannauðsmála (CHRO), sem er kona, og hærri kauprétt en fram­kvæmdastjóri ráðgjafarsviðs (CCO), sem er karl. Ráðgjafarsvið sé umfangs­meira innan fyrirtækisins en markaðssvið. Munurinn sem var á úthlutun kauprétta hafi þannig á engan hátt verið tengdur kyni eða kynþætti heldur ráðist af starfi hvers og eins og „verðmæti“ þess innan félagsins. Því sé þess vegna alfarið mótmælt að munur sem var á fjölda hluta sem tengdist kauprétti kæranda annars vegar og annarra í stjórnendateymi félagsins hins vegar hafi falið í sér brot á lögum nr. 86/2018 og lögum nr. 150/2020.
  53. Kærði áréttar að enginn starfsmaður hjá fyrirtækinu hafi gegnt sambærilegu starfi og kærandi. Kærandi hafi verið með hæstu launin í þeirri deild félagsins sem hún veitti forstöðu. Þó að hún hafi verið flokkuð í hóp með svokölluðum „C-level“ stjórnendum þýði það ekki að allir í þeim hópi eigi að hafa sömu laun. Bendir kærði á að þeir sem beri titilinn framkvæmdastjóri hafi ekki sömu laun. Sýni jafnlauna­vottunin sem kærði undirgekkst að munur á launakjörum þeirra sem féllu undir flokkinn „C-level“ stjórnendur hafi ekki falið í sér frávik. Bendir kærði á að ábyrgð og umfang starfs framkvæmdastjóra vex almennt í réttu hlutfalli við fjölda starfsmanna en það sé óumdeilt í fyrirtækjarekstri. Fjöldi undirverktaka starfi fyrir alla framkvæmdastjóra kærða, þ.m.t. tæknistjóra eins og áður hafi komið fram.
  54. Kærði bendir á að sá starfsmaður sem kærandi telur að kærunefnd eigi að afla gagna um þar sem hann sé framkvæmdastjóri með færri undirmenn starfi fyrir erlendan lögaðila, sé búsettur í öðru ríki, fái greidd laun í öðrum gjaldmiðli og greiði þar skatta. Erlendir lögaðilar eigi ekki undir valdsvið nefndarinnar eða íslensk lög. Jafnréttislögin nái hvorki yfir landamæri við mat á störfum né geti atvinnurekandi talist brotlegur við þau vegna þess hvernig annar atvinnurekandi hagar sínum rekstri.
  55. Kærði áréttar að tilgangur þeirra laga sem kærandi byggi meintan rétt sinn á sé ekki að ná þeirri niðurstöðu að allir sem séu flokkaðir í hóp með svokölluðum C-level stjórnendum eigi að hafa sömu laun. Þannig sé einsýnt að það sé ekki þannig í fyrirtækjum á Íslandi að allir þeir sem beri titilinn framkvæmdastjóri hafi sömu laun, þvert á móti. Ábyrgð framkvæmdastjóra, menntun þeirra og reynsla sé mismunandi. Sumar stöður séu mikilvægari og verðmætari fyrir fyrirtæki en aðrar en slíkt geti endurspeglast í launakjörum. Hafi kærandi launalega séð verið í miðjum framkvæmda­stjórahópi kærða. Hún hafi bæði verið með hærri og lægri laun en karlar og konur í þeim hópi. Því sé þess vegna alfarið mótmælt að kyn eða kynþáttur hafi haft nokkuð að gera með launafjárhæðir hjá framkvæmdastjórum kærða. Bendir kærði á að það að starfsmenn kunni að hafa frekari laun og tekjur, fjármagnstekjur, eignir o.fl. en þeir fá frá kærða sé nokkuð sem hafi ekki áhrif á þetta mál, enda laun og kjör frá kærða einum til skoðunar.
  56. Kærði telur að hann hafi ekki brotið á kæranda á grundvelli kyns eða kynþáttar. Telur kærði rétt að nefna að þegar núverandi forstjóri félagsins hóf störf hafi kær­andi ekki verið yfirmaður hjá félaginu. Hún hafi þannig ekki verið yfirmaður þegar C ehf. veitti ákveðnum einstaklingum réttindi árið 2010. Kærandi hafi sýnt áhuga á því að fá framgang innan félagsins og félagið og forstjórinn stutt hana til frekara náms í þeim tilgangi. Hafi kærandi til að mynda fengið greiðslu frá félaginu vegna hvers og eins áfanga sem hún lauk hjá Háskóla Íslands, sem sé einsdæmi í rekstri kærða. Eftir að kærandi hafi lokið náminu hafi hún fljótlega verið ráðin sem einn af framkvæmdastjórum félagsins, ekki vegna kyns eða kynþáttar, heldur vegna þess að félagið hafi borið til hennar traust. Sinnti hún starfi fram­kvæmdastjóra markaðsmála hjá félaginu allt til þess tíma sem henni var sagt upp.
  57. Kærði áréttar að hann hafi gert mjög vel við kæranda. Hefði kærandi getað fengið framangreindar upplýsingar ef hún hefði leitast eftir því sem hún hafi ekki gert. Þess í stað hafi kærandi, sem hafi haft heildartekjur að fjárhæð rétt tæpar 90 milljónir króna hjá kærða árið 2021, sent bréf til erlendra stjórnarmanna félagsins, fulltrúa eigenda, og ásakað forstjóra félagsins og félagið sjálft um ásetningsbrot á jafnréttislögum og stjórnarskrá, án nokkurra fyrirvara eða gagna þeim til stuðnings. Slíkt njóti ekki verndar jafnréttislaga. Telur kærði miður að kærandi hafi kosið að fara þessa leið.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  58. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að segja kæranda upp störfum sökum þess að hún krafðist leiðréttingar á kjörum sínum á þeim grundvelli að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 86/2018, við ákvörðun um laun og önnur kjör í starfi sínu hjá kærða. Nánar tiltekið beindist leiðréttingarkrafan að því í fyrsta lagi að kærði hafi ekki veitt kæranda kauprétt við úthlutun slíkra réttinda árið 2010 þrátt fyrir að öðrum starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum og hún hafi verið úthlutað kauprétti, í öðru lagi að kærði hafi veitt henni lægri kauprétt en þeim starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum og hún við úthlutun kauprétta árið 2015 og í þriðja lagi að kærði hafi greitt henni lægri laun en þeim sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum hjá kærða. Telur kærandi sig hafa orðið fyrir fjölþættri mismunun, sbr. 16. gr. laga nr. 150/2020, þar sem kyn hennar, þjóðernisuppruni og kynþáttur hafi hvert um sig og í sameiningu haft áhrif á ákvörðun um laun hennar og við úthlutun kauprétta af hálfu kærða. Þá krefst kærandi þess að kærði greiði henni kostnað af því að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála.
  59. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  60. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tæki­færum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Almennt ákvæði um launajafnrétti er í 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. skulu konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Í 2. mgr. ákvæðisins er tekið fram að með jöfnum launum sé átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skuli þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Í 16. gr. laga nr. 150/2020 er fjallað um almennt bann við mismunun og í 1. mgr. kemur fram að hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort sem hún er bein eða óbein, sé óheimil og að jafnframt sé fjölþætt mismunun óheimil.
  61. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mis­muna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 2. mgr. 18. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að hann njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf á grundvelli kyns. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni.
  62. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekanda óheimilt að segja einstaklingi upp störfum sökum þess að hann hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laganna. Samkvæmt sönnunarreglu 3. mgr. 20. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að gengið hafi verið gegn ákvæðinu. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á að uppsögn grundvallist ekki á leið­réttingarkröfu einstaklings. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kær­anda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á laun og önnur kjör í starfi því sem um ræðir og að henni hafi verið sagt upp störfum á grundvelli leiðréttingarkröfu.
  63. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, kemur fram að lögin gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernis­uppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyn­einkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnu­markaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Í 7. gr. laganna er fjallað um almennt bann við mismunun og í 1. mgr. kemur fram að hvers kyns mis­munun á vinnumarkaði, hvort sem hún er bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. sé óheimil og að jafnframt sé fjölþætt mismunun óheimil. Í 9. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekanda sé óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. í tengslum við laun og önnur kjör, enda sinni þeir sömu eða jafn verðmætum störfum.
  64. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekanda óheimilt að segja starfs­mönnum upp störfum sökum þess að þeir hafi kvartað undan eða kært mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna. Í 15. gr. laganna kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kynþáttur og/eða þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á laun og önnur kjör í því starfi sem um ræðir og að henni hafi verið sagt upp störfum á grundvelli leiðréttingar­kröfu. Er því um að ræða sambærilega sönnunarreglu og í 2. mgr. 18. gr. og 3. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020.
  65. Í máli þessu heldur kærandi því fram að krafa hennar um skaða- og miskabætur, sem hún beindi til stjórnar kærða, hafi verið krafa um leiðréttingu á þeim kjörum sem hún hafi farið á mis við vegna mismununar á grundvelli kyns, kynþáttar og þjóðernisuppruna. Nánar tiltekið er leiðréttingarkrafan þrískipt. Í fyrsta lagi hafi henni ekki verið út­hlutað kauprétti árið 2010 þrátt fyrir að öðrum starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum og hún hafi verið úthlutað kauprétti. Í öðru lagi hafi henni á árinu 2015 verið úthlutað lægri kauprétti en öðrum starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum. Í þriðja lagi hafi henni verið greidd lægri laun en öðrum starfsmönnum sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum eða voru lægra settir en kærandi sem framkvæmdastjóri. Fallist verður á að krafa kæranda um skaða- og miskabætur geti talist krafa um leiðréttingu í skilningi 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 86/2018 þótt hún hafi verið sett fram með þessum hætti. Þá verður að telja að um sé að ræða kröfu um leiðréttingu á launum og kjörum vegna mismununar í skilningi 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 9. og 10. tölul. 2. gr. laganna og 9. gr. laga nr. 86/2018, sbr. 5. og 6. tölul. 3. gr. laganna. Samkvæmt því verður að telja að úthlutun kaupréttar teljist til kjara í skilningi framangreindra laga. Þá liggur fyrir að fyrrnefnd þrjú atriði lágu leiðréttingarkröfu kæranda til grundvallar og koma í samræmi við það öll til skoðunar við efnislegt mat á kröfum hennar um leiðréttingu á kjörum vegna mismununar. Verður því ekki fallist á frávísun á einstökum þáttum leiðréttingarkröfunnar sökum þess að kærufrestur til nefndarinnar hafi samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 verið liðinn.
  66. Fyrir liggur að kærandi fékk ekki úthlutað kauprétti árið 2010 en annar lögaðili, C ehf., stóð að þeirri úthlutun. Nánar tiltekið er um að ræða samninga C ehf. við tiltekna starfsmenn um kauprétt sem gerðir voru um ellefu árum áður en krafa um leiðréttingu kom fram og sem komu til greiðslu um sex árum fyrir leiðréttingarkröfuna eða 2015 þegar kæranda varð fyrst kunnugt um þá. Rétt er að benda á að fyrrnefnd atvik gerðust í tíð laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem voru felld úr gildi 6. janúar 2021 þegar gildi tóku lög nr. 150/2020 sama efnis varðandi þau álitaefni sem hér um ræðir, en lög nr. 86/2018 höfðu ekki tekið gildi á þessum tíma og getur kærandi því ekki byggt á þeim varðandi þennan hluta hér fyrir nefndinni. Í ljósi þess hversu langur tími leið frá því að kæranda varð kunnugt um fyrrnefnda samninga og þar til leiðrétt­ingarkrafan var sett fram verður ekki fallist á að kærandi geti byggt leiðréttingar­kröfu sína á því að henni hafi ekki verið úthlutað kauprétti á árinu 2010.
  67. Fyrir liggur að kaupréttarsamningur var gerður við kæranda á árinu 2015 sem var endurskoðaður í lok árs 2020. Sá samningur kom til framkvæmda 11. febrúar 2021. Lög nr. 86/2018 voru ekki í gildi við gerð upphaflega samningsins en voru það við endurskoðun samningsins og við uppgjör samkvæmt honum. Í ljósi þessa og þess að leið­réttingarkrafa kæranda kom fram með bréfi, dags. 22. júlí 2021, kemur þessi samningur til skoðunar fyrir kærunefndinni í tengslum við leið­réttingarkröfu kæranda, bæði á grundvelli laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018. Tekið skal fram að ekki verður fallist á að kærandi hafi afsalað sér kærurétti til kærunefndar með undirritun „Settlement Notice“, dags. 11. febrúar 2021, enda óheimilt að afsala sér þeim réttindum sem kveðið er á um í lögum, sbr. 23. gr. laga nr. 150/2020 og 14. gr. laga nr. 86/2018.
  68. Kærandi vísar til þess að hún hafi fengið lægri kauprétt en íslenskir karlar sem gegndu sambærilegum og jafn verðmætum störfum og hún, auk þess sem íslensk samstarfskona hennar, sem var í sambærilegu og jafn verðmætu starfi og hún, hafi fengið tvöfalt hærri kauprétt. Kærði hefur á hinn bóginn bent á að enginn starfsmaður hafi verið í sambærilegu og jafn verðmætu starfi og kærandi, hvorki varðandi ábyrgð, inntak, ytri búnað né ytri ásýnd. Sé ábyrgð og starfssvið framkvæmdastjóra hjá kærða mismunandi og sum störf metin mikil­vægari en önnur og taki kaupréttarsamningar mið af því, en kaupréttir einstakra framkvæmdastjóra séu ákveðnir af stjórn og hluthöfum. Þá bendir kærði á að þeir sem fengu hæsta kaupréttinn árið 2015 hafi verið þeir framkvæmdastjórar sem voru í forsvari fyrir kærða þegar kom að sölumeðferð hans. Kærandi hafi til að mynda fengið jafn háan kauprétt og framkvæmdastjóri mannauðsmála, sem er kona, en hærri kauprétt en framkvæmdastjóri ráðgjafarsviðs, sem er karl, jafnvel þótt ráðgjafarsvið sé umfangsmeira innan kærða en markaðssvið. Þetta hafi verið mat stjórnar.
  69. Kærandi, sem var eina konan af erlendum uppruna í framkvæmdastjórahópi kærða, telur engin málefnaleg sjónarmið sem snúa að menntun, starfsreynslu, ábyrgð eða öðrum þáttum geta réttlætt launamun milli hennar og annarra framkvæmdastjóra. Starf hennar hafi a.m.k. verið jafn verðmætt og störf annarra framkvæmdastjóra, ef ekki verðmætara, m.a. með vísan til starfsaldurs og mannaforráða, sem og þess að mestar menntunarkröfur hafi verið gerðar til hennar starfs. Kærði hefur lýst því að ákvörðun um mismunandi laun innan framkvæmdastjórahópsins hafi verið byggð á heildstæðu mati á mikilvægi eða verðmæti starfanna sem og á ábyrgð, menntun, reynslu og mannaforráðum. Þannig hafi störf framkvæmdastjóra hvorki verið þau sömu né jafn verðmæt. Kærandi hafi bæði verið með hærri og lægri laun en karlar og konur í hópi framkvæmdastjóra og því hafi hvorki kyn, kynþáttur né þjóðernis­uppruni haft nokkuð með launafjárhæðir hjá framkvæmdastjórum kærða að gera.
  70. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 86/2018 ber atvinnurekanda að tryggja jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf óháð kyni, kynþætti og þjóðernisuppruna. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk og skulu þau viðmið að sama skapi sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Er atvinnu­rekanda því óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna í tengslum við laun og önnur kjör, enda sinni þeir sömu eða jafn verðmætum störfum. Eins og kemur fram í athugasemdum með þessum ákvæðum í frumvörpum þeim sem urðu að framangreindum lögum er þeim ætlað að tryggja sömu laun og kjör fyrir sömu störf sem og fyrir ólík störf sem metin eru jafn verðmæt og jafngild. Geta ólík störf, eins og lík störf, verið jafn verðmæt en það hvort störf eru jafn verðmæt verður að byggjast á heildstæðu mati.
  71. Samkvæmt skipuriti því sem liggur fyrir í málinu er sjö framkvæmdastjórum kærða, sem eru yfir ólíkum sviðum eða deildum, raðað hliðsett undir forstjóra. Starfs­lýsingar sex þessara starfa sem og hæfniskröfur liggja einnig fyrir í málinu. Við yfirferð á þeim er ljóst að þær eru mjög mismunandi enda verkefnin ólík jafnframt sem ólíkar hæfniskröfur eru gerðar til þessara starfa, þ.m.t. til menntunar og reynslu. Þá fylgir þessum störfum mismunandi ábyrgð og mannaforráð, auk þess sem hvert og eitt svið er misstórt. Er inntak þessara starfa því ólíkt. Samkvæmt því og að öðru leyti heildstæðu hlutlægu mati á hæfni, kröfum, ábyrgð og hlutverki sem gerðar eru til þessara ólíku starfa hjá kærða verður að telja að hvorki sé um sömu störfin að ræða né að þau séu jafn verðmæt í skilningi 1. mgr. 6. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 86/2018. Þrátt fyrir að störfin hafi verið flokkuð saman við innleiðingu jafnlaunakerfis kærða er ekki þar með sagt að þau séu jafn verðmæt, enda þarf mat á verðmæti starfa ávallt að vera heildstætt. Þá eru verkefni framkvæmdastjóranna ólík, eins og áður segir, og gerðar ólíkar kröfur til þeirra hvað varðar ábyrgð, þ.m.t. faglega ábyrgð, verkefnastjórnun og mannaforráð, sem og hæfni sem felst í menntun og reynslu. Það að starfstitill þessara starfa sé sá sami og að þessum störfum sé raðað hliðsett á skipuriti hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu enda leiðir það ekki eitt og sér til þess að störfin teljist þau sömu eða jafn verðmæt í framangreindum skilningi. Þá skiptir ekki heldur máli að sex af sjö starfslýsingum hafi legið fyrir við úrlausn málsins.
  72. Í málinu liggur fyrir staðfesting á greiðslu kauprétta 11. febrúar 2021 til sex framkvæmdastjóra kærða af sjö og forstjóra og fjárhæð þeirra. Af gögnum málsins má ráða að þau viðmið sem kærði lagði til grundvallar ákvörðun um kauprétti voru að þeir starfsmenn sem taldir voru sinna mikilvægustu störfunum innan fyrir­tækisins og voru valdir til að vera í forsvari fyrir kærða við umfangsmikla sölumeðferð hans fengu hærri kauprétt en aðrir. Um var að ræða starfsmenn sem sinntu störfum framkvæmdastjóra fjármála (CFO), framkvæmdastjóra rekstrar (COO) og tæknistjóra (CTO). Þá liggur fyrir að ákvörðun um kauprétti þeirra framkvæmdastjóra sem eftir stóðu voru með ýmsum hætti, þ.m.t. eins og kaupréttur sá sem kæranda var úthlutað eða hærri eða lægri og óháð kyni. Að þessu virtu og heildstæðu mati á þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og umræddum störfum verður að mati kærunefndar ekki séð að þau viðmið sem lágu til grundvallar ákvörðun kærða um kauprétt starfsmanna hafi falið í sér mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Verður því ekki annað séð en að málefna­legar ástæður sem ekki tengjast kyni, kynþætti eða þjóðernisuppruna hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða á kauprétti kæranda.
  73. Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá kærða um laun sex af sjö starfsmönnum sem gegndu störfum framkvæmdastjóra hjá kærða auk nokkurra annarra starfsmanna. Samkvæmt þessum gögnum er enginn í hópi framkvæmdastjóra á sömu launum en kærandi var um miðbik, þ.e. þrír voru með hærri laun en hún og tveir lægri og ýmist karlar eða konur. Á sama hátt fengu framkvæmdastjórar greiddan ökutækjastyrk að mismunandi fjárhæð. Verður ekki betur séð en að launasetning kærða byggi á heildstæðu og málefnalegu mati á verðmæti starfa framkvæmdastjóra, þar sem rökrétt verður að teljast að laun starfsmanns hækki til að mynda eftir því sem fagleg ábyrgð eykst innan kærða. Að öllu framangreindu virtu og heildstæðu mati á þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu og þeim störfum sem um er að ræða verður að mati kærunefndar ekki séð að þau viðmið sem lágu til grundvallar ákvörðun kærða um laun framkvæmdastjóra hafi falið í sér mismunun á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna. Verður því ekki annað séð en að málefnalegar ástæður sem ekki tengjast kyni, kynþætti eða þjóðernisuppruna hafi legið til grundvallar ákvörðun um laun kæranda.
  74. Kærandi heldur því fram að henni hafi verið sagt upp störfum þar sem hún krafðist leiðréttingar með bréfi 22. júlí 2021 á grundvelli laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018. Fullyrðingum kæranda um að umrætt bréf hafi leitt til uppsagnar hennar hefur ekki verið andmælt af hálfu kærða. Með vísan til þessa verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að henni hafi verið sagt upp störfum sökum þess að hún hafi krafist leiðréttingar á grundvelli laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna, og laga nr. 86/2018, sbr. 13. gr. laganna. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki verið grundvölluð á leiðréttingarkröfu kæranda.
  75. Kærði hefur haldið því fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna fram­setningar á umræddri leiðréttingarkröfu í bréfi til stjórnar, dags. 22. júlí 2021, sem fólst í kröfu um skaða- og miskabætur með fyrirvaralausum fullyrðingum sem ekki hafi verið studdar gögnum og að í því hafi falist trúnaðarbrot. Þannig hafi komið fram í uppsagnarbréfinu, dags. 3. september 2021, að uppsögnin væri byggð á meið­andi og órökstuddum fullyrðingum kæranda, án fyrirvara eða gagna, um ítrekuð, alvarleg og að einhverju leyti ásetningsbrot yfirmanna á lögum og stjórnarskrá. Var sérstaklega vísað til þess að þegar slíkar fullyrðingar væru settar fram af fram­kvæmdastjóra alþjóðlegs félags gagnvart yfirmönnum sínum væri ekki lengur til staðar sá trúnaður sem þyrfti að vera til þess að mögulegt væri að starfa áfram náið saman.
  76. Ekki verður fallist á að það að kærandi beindi erindi sínu til stjórnar kærða um leiðréttingu á grundvelli laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018 hafi eitt og sér falið í sér trúnaðarbrot. Þá verður ekki fram hjá því litið að kæranda var beinlínis sagt upp störfum vegna umræddrar leiðréttingarkröfu, jafnvel þótt krafan hafi að mati kærða leitt til trúnaðarbrots í ljósi framsetningar á henni. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að uppsögnin hafi ekki grundvallast á leiðréttingarkröfu kæranda, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 13. gr. og 15. gr. laga nr. 86/2018. Skiptir ekki máli í þessu sambandi að efnisleg niðurstaða nefndarinnar sé sú að hafna réttmæti leiðréttingarkröfu kæranda að því er laun og önnur kjör varðar, þar sem starfsmaður sem telur sig misrétti beittan að því leyti má ekki gjalda þess að leita réttar síns með kröfu um leiðréttingu. Þá er ekki fallist á með kærða að framsetning kröfu og athugasemda kæranda í málinu, þótt sérstök hafi verið, hafi þýðingu í þessu sambandi.
  77. Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki annað séð en að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við ákvörðun um kauprétt á árinu 2015 og laun til handa kæranda þegar hún gegndi starfi fram­kvæmdastjóra hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Samkvæmt því er ekki fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að laun hennar og önnur kjör, þ.e. úthlutun kauprétta, hafi verið ákvörðuð lægri fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 9. gr. og 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærandi hafi orðið fyrir fjölþættri mismunun, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018. Ágreiningur um hvort samtöl áttu sér stað milli kæranda og forstjóra kærða og hvers efnis þau voru hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu.
  78. Hins vegar verður fallist á með kæranda að henni hafi verið sagt upp störfum sökum þess að hún krafðist leiðréttingar á kjörum sínum vegna mismununar á grundvelli laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 20. gr., og laga nr. 86/2018, sbr. 1. mgr. 13. gr. Í sam­ræmi við þá niðurstöðu og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 verður fallist á kröfu kær­anda um að kærði greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi að fjárhæð 200.000 krónur.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B ehf., braut hvorki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, né lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun launa kæranda, A, og annarra kjara.

Kærði braut gegn 1. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 86/2018 við uppsögn kæranda úr starfi framkvæmdastjóra hjá kærða.

Kærði greiði kæranda 200.000 krónur í málskostnað.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta