Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Kanada funda í Vestmannaeyjum
Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Kanada komu til Vestmannaeyja í kvöld. Árlegur sumarfundur norrænna forsætisráðherra fer fram þar á morgun en Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, er sérstakur gestur fundarins.
Dagskráin hófst í kvöld þar sem forsætisráðherrar Íslands, Kanada, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hittust á fundi í Ráðhúsi Vestmanneyja til að ræða stöðuna í Rússlandi í kjölfar nýjustu atburða.
Fyrr í kvöld átti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tvíhliða fund með Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Þar ræddu þau m.a. um samvinnu og samstarf landanna á sviði stjórnmála, menningar og viðskipta. Forsætisráðherrarnir ræddu einnig um málefni innflytjenda og flóttafólks, umhverfismál og græna orku. Þá ræddu þau stöðuna í alþjóðamálum.
Fyrr í dag átti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tvíhliða fund með Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands. Orpo tók við embætti sl. þriðjudag og er ferð hans til Íslands fyrsta heimsókn hans til erlends ríkis. Á fundinum var m.a. rætt um tvíhliða samskipti Íslands og Finnlands, stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu, umhverfismál og málefni norðurslóða.