Hoppa yfir valmynd
2. maí 2022

Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi

Listkaupstefnan Market Art Fair fór fram í Stokkhólmi um nýliðna helgi. Sérstök áhersla var á Ísland sem meðal annars kom fram í sérútbúnum íslenskum þriggja rétta matseðli sem framreiddur var í opnunarkvöldverði listkaupstefnunnar, auk þess sem mikið úrval íslenskrar listar og viðburða tengdum íslenskum listamönnum var í boði alla helgina.

Market Art Fair er leiðandi listkaupstefna á Norðurlöndunum en þar koma saman gallerí frá öllum Norðurlöndunum sem valnefnd velur til þátttöku. Þar kynna galleríin sína helstu listamenn fyrir mikilvægum norrænum og alþjóðlegum listsöfnurum, sem fá tækifæri til að fjárfesta í listaverkunum á fyrsta degi kaupstefnunnar áður en dyrnar eru opnaðar öðrum þeim sem hafa áhuga á að berja verkin augum. Listkaupstefnan hefur skipað sér sess sem einn stærsti menningarviðburður ársins í Stokkhólmi og fjölmargir viðburðir eiga sér stað á meðan á henni stendur.

Það var Friðrik Sigurðsson, meistarakokkur utanríkisráðuneytisins, sem átti veg og vanda að opnunarkvöldverði Market Art Fair en sendiherra Íslands var gestgjafi. Á meðal gestanna 130 voru mikilvægir tengiliðir Market Art Fair og sendiráðsins; listsafnarar, galleristar frá þátttökugalleríunum 38 og listamenn á þeirra vegum. Bleikja frá Tungusilungi á Tálknafirði var í aðalhlutverki á hinum séríslenska matseðli, en grafið lamb, skyr, pönnukökur og íslenskur rabarbari komu einnig við sögu sem og íslenskt wasabi frá fyrirtækinu Nordic Wasabi. Gríðargóður rómur var gerður að matnum og hlaut kokkurinn lófatak og mikið hrós gesta fyrir.

Á listkaupstefnunni sjálfri var svo af nógu að taka fyrir áhugafólk um íslenska list. i8 Gallery sýndi verk eftir Örnu Óttarsdóttur, Ólaf Elíasson og Birgi Andrésson. Galleríð Larsen Warner frá Stokkhólmi sýndi verk eftir Shoplifter (Hrafnhildi Arnardóttur) og Borch Editions frá Kaupmannahöfn sýndi verk eftir Ragnar Kjartansson. Einnig var þar að finna verk eftir listamanninn Carl Boutard sem starfar á Íslandi og var það á vegum gallerísins Cecilia Hillström. Gestum bauðst jafnframt að skrá sig í skoðunarferð um sýninguna með sérstaka áherslu á verk íslenskra listamanna og var þátttaka góð.

Á meðal annarra viðburða á listkaupstefnunni voru pallborðsumræður um íslenska list þar sem Jonatan Habib Enqvist, rithöfundur og kúrator, stýrði samtali á milli Shoplifter og Egils Sæbjörnssonar. Var viðburðurinn þannig ofinn saman við aðra íslenska sýningu sem á sér stað í Stokkhólmi um þessar mundir, Object Species, eftir Egil Sæbjörnsson en sú sýning fer fram í mörgum hlutum sem dreifast um söfn, gallerí og sýningarrými í borginni. Þannig tók fjöldi gesta Market Art Fair einnig þátt í viðburði Egils Sæbjörnssonar í Moderna Museet þar sem meðal annars var boðið upp á kvikmyndaverk og tónlist.

Sendiráð Íslands hefur verið samstarfsaðili Market Art Fair um árabil og miðar samstarfið að því að auka hróður íslenskrar myndlistar í Svíþjóð og styðja við íslensk gallerí og íslenska myndlistarmenn taka þátt í listkaupstefnunni. Verkefnið var unnið í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Íslandsstofu og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar innan ramma verkefnisins Skapandi Íslands. Sérstakar þakkir fá Tungusilungur, Nordic Wasabi og Icelandair fyrir veitta aðstoð.

  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 2
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 3
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 4
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 5
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 6
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 7
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 8
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 9
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 10
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 11
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 12
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 13
  • Íslensk veisla fyrir öll skilningarvit á Market Art Fair í Stokkhólmi - mynd úr myndasafni númer 14

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta