Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 355/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 355/2019

Þriðjudaginn 5. nóvember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. ágúst 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. ágúst 2019, um að fella niður bótarétt hennar í þrjá mánuði og innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 28. nóvember 2018 og tilgreindi að hún gæti hafið störf þann 11. desember 2018. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2019, var kæranda tilkynnt að umsóknin væri samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda var henni gert að sæta tveggja mánaða biðtíma á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Með bréfi, dags. 10. maí 2019, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hún hefði verið stödd erlendis í febrúar 2019 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar bárust Vinnumálastofnun samdægurs en farseðlar bárust ekki. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. júní 2019, voru greiðslur til kæranda stöðvaðar þar sem óvíst var hvort hún uppfyllti almenn skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þann 30. júlí 2019 barst Vinnumálastofnun farseðlar kæranda en samkvæmt þeim hafði kærandi dvalið erlendis frá 3. janúar til 17. mars 2019.

Þann 29. ágúst 2019 var kæranda tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar um að bótaréttur hennar yrði felldur niður frá og með þeim degi í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna, sökum þess að kærandi hefði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um dvöl sína erlendis. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 78.092 kr. að meðtöldu 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 2. september 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 26. september 2019, og með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hún hafi tilkynnt Vinnumálastofnun að hún væri erlendis frá 3. janúar til 14. janúar 2019 en vegna veikinda í fjölskyldunni hafi hún breytt farmiða og ætlað að vera þar til í byrjun febrúar en hafi komið aftur til Íslands 17. mars 2019.

Kærandi hafi fengið fyrstu greiðslu atvinnuleysisbóta um mánaðamótin mars/apríl og aðra greiðslu um mánaðamótin apríl/maí. Þann 11. maí 2019 hafi kærandi fengið tilkynningu um að hún þyrfti að senda inn farmiða sinn frá febrúar 2019 en þar sem kærandi hafði breytt farmiða í mars hafi rafræni farmiðinn breyst líka. Kærandi hafi verið tekjulaus síðan þá. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun farmiðann frá því í mars en ekkert svar né breyting á umsókn hafi orðið þannig hún hafi sent tölvupóst. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi krafist þess að kærandi sendi inn farmiðann vegna febrúar. Kærandi hafi útskýrt enn og aftur að þetta væri sama ferðin en hún hafi lengt hana fram í mars. Kærandi hafi síðan fengið tilkynningu um að hún þyrfti að bíða í þrjá mánuði í viðbót til að fá greitt aftur. Hún haldi því áfram að vera tekjulaus út árið.

Þetta séu mistök Vinnumálastofnunar að átta sig ekki á því að þetta sé farmiði vegna sömu ferðar. Ekki nóg með það heldur vilji Vinnumálastofnun að kærandi endurgreiði 70.000 kr. Kærandi vilji fá greitt svo að hún geti borgað reikningana sína og kveðst hún ekki með neinu móti geta beðið í þrjá mánuði í viðbót.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til þess að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Þar segi meðal annars í c-lið ákvæðisins að það sé skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Á vef Vinnumálastofnunar komi þessar upplýsingar fram undir liðnum „réttindi og skyldur - upplýsingaskylda“. Þar segi: „Ekki er heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um U2-vottorð.“ Einnig sé vakin athygli á þessu í umsóknarferli á “Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þá sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða.

Óumdeilt sé að kærandi hafi verið stödd erlendis frá 3. janúar til 17. mars 2019, á sama tíma og hún hafi verið skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Stofnuninni hafi borist tilkynning um að hún yrði stödd erlendis frá 3. janúar til 14. janúar 2019 en kæranda hafi láðst að tilkynna um framlengingu á för sinni. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt um dvöl sína frá 15. janúar til 17. mars 2019 líkt og henni hafi verið skylt hafi hún ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á því tímabili og fengið þar af leiðandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eftir greiðslum beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verða á högum sínum, þar á meðal ferðir sínar utanlands. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um framlengingu á ferð sinni líkt og henni bar. Kærandi hafi tilkynnt um tíu daga ferð til stofnunarinnar en eftir að eftirlit stofnunarinnar hafi óskað eftir upplýsingum frá kæranda hafi komið í ljós að hún hefði dvalið erlendis í tæpa þrjá mánuði. Þetta hafi bein og veruleg áhrif á rétt kæranda til atvinnuleysisbóta.

Að öllu framangreindu virtu sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er hafi bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga og skuli hún því sæta viðurlögum samkvæmt 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hefði áður sætt biðtíma nemi biðtíminn nú þremur mánuðum, sbr. 61. gr. laganna. Þá beri kæranda einnig að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún hefði verið stödd erlendis og þegið greiðslur atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnulesyisbætur sem ofgreiddar hafa verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Skuld kæranda muni verða innheimt samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 17. mars 2019 að upphæð 67.906 kr. eða samtals 78.092 kr. með 15% álagi. Henni beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur og staddur hér á landi.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 28. nóvember 2018 og var umsóknin samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 13. febrúar 2019 en henni gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Óumdeilt er að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu 3. janúar til 17. mars 2019 og tilkynnti hún Vinnumálastofnun um fyrirhugaða dvöl erlendis frá 3. janúar til 14. janúar 2019 en ekki framlengingu ferðarinnar. Af hálfu kæranda hefur komið fram að vegna veikinda sem hafi komið upp í fjölskyldunni hafi hún þurft að vera lengur erlendis. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur sæki um greiðslur bóta með rafrænni umsókn sé þeim kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi þeirra og skyldur.

Í tölvupósti Vinnumálastofnunar 6. desember 2018 var kærandi upplýst um að þar sem fram kæmi í umsókn hennar að hún gæti hafið störf frá og með 11. desember 2018 myndi umsóknin miðast við þá dagsetningu. Í tölvupóstinum var kæranda einnig bent á að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldur sínar, að henni bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um framlengingu ferðarinnar erlendis.

Réttindi og skyldur atvinnuleitenda samkvæmt lögum nr. 54/2006 stofnast almennt frá og með umsóknardegi, enda eru atvinnuleysisbætur almennt greiddar frá umsóknardegi samkvæmt 29. gr. laganna. Í tilviki kæranda tilgreindi hún í umsókn um atvinnuleysisbætur að hún gæti hafið störf 11. desember 2018 og því hefði hún fengið greiðslur frá þeim tíma ef hún hefði ekki þurft að sæta tveggja mánaða biðtíma. Á því tímabili sem atvinnuleitandi fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum ber honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, þar á meðal ferðir sínar erlendis. Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hún tilkynnti ekki um framlengingu ferðar sinnar erlendis.

Í 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segir að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57.-59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr., skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir. Líkt og að framan greinir var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laganna. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. febrúar 2019. Að því virtu og þar sem kærandi hafði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur er hún var erlendis. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilinu 1. mars til 17. mars 2019, uppfyllti hún ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera búsett og stödd hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um framlengingu ferðar sinnar erlendis og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. ágúst 2019, um að fella niður bótarétt A í þrjá mánuði og innheimta ofgreiddar bætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta