Breytingar á lögum um lífeyrismál í tengslum við lífskjarasamninginn 2019-2022
Alþingi samþykkti 15. júní frumvarp sem breytir lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Breytingin felur í sér lögfestingu þriggja atriða úr stuðningsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við lífskjarasamninga frá árinu 2019. Ber þar fyrst að nefna að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%. Í öðru lagi hækkar lágmarkstryggingavernd úr 1,4% á ári að meðaltali í 1,8% á ári að meðaltali, eða úr 56% í 72% yfir 40 ára inngreiðslutíma. Í þriðja lagi er lífeyrissjóðum heimilt að bjóða upp á tilgreinda séreign, séreignarsparnað sem er hluti af lágmarkstryggingavernd, og getur numið allt að 3,5% iðgjaldshluta. Með tilgreindri séreign eykst fjölbreytni lífeyrissparnaðar og möguleikar sjóðfélaga á að ávaxta lífeyri sinn með sem hentugustum hætti.
Með samþykkt frumvarpsins var lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð breytt þannig að nýta má tilgreinda séreign til kaupa á fyrstu fasteign að uppfylltum ákveðnum skilyrðum auk þess sem sjóðfélagar sem ekki hafa verið eig¬endur að íbúðar¬hús¬næði í fimm ár geta talist fyrstu kaupendur og nýtt heimildir laganna.
Loks felur samþykkt frumvarpsins í sér jöfnun á rétti fólks til greiðslna frá almannatryggingum þar sem breyting er gerð á þeim greiðslum frá lífeyrissjóðum sem koma til skerðingar greiðslum frá almannatryggingum.