Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fitch Ratings staðfestir óbreytta A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með neikvæðum horfum

Fitch Ratings birti í dag mat á lánshæfi ríkissjóðs. Langtímaeinkunnir í innlendri og erlendri mynt eru óbreyttar og standa í A. Horfur eru neikvæðar.

Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli m.a. mjög háa landsframleiðslu á mann, góða stjórnarhætti, hátt þróunarstig og góða umgjörð viðskiptalífsins sem eru sambærilegri við lönd með „AAA“ og „AA“ lánshæfiseinkunn. Miklar eignir lífeyrissjóða og umtalsverðar innstæður ýta undir sveigjanleika en smæð hagkerfisins og takmarkaður fjölbreytileiki útflutnings draga lánshæfiseinkunnina niður.

Neikvæðar horfur endurspegla áhrif heimsfaraldursins á hagkerfið og opinber fjármál þar sem halli ríkissjóðs hefur aukist verulega og útlit er fyrir að skuldir hins opinbera hækki hratt á næstu árum frá því sem var. Sem lítið opið hagkerfi með mikið vægi ferðaþjónustu og hrávöru í útflutningi er Ísland verulega útsett fyrir áhrifum faraldursins.

Ísland hefur mikinn sveigjanleika til að fjármagna halla á ríkisfjármálum vegna viðbragða við áhrifum heimsfaraldursins á næstu árum. Efnahagslífið hefur sýnt meiri seiglu en Fitch gerði upphaflega ráð fyrir. Bráðabirgðatölur Hagstofunnar benda til þess að samdráttur VLF hafi verið um 6,6% á síðasta ári, sem er talsvert minna en 8% samdráttur sem Fitch spáði í síðustu skýrslu sem kom út í október 2020. Sterk eiginfjárstaða heimila og stuðningsaðgerðir stjórnvalda stuðluðu að viðsnúningi í einkaneyslu á síðari árshelmingi 2020.

Fitch Ratings bendir á að þingkosningar í ár gætu leitt til fjármálastefnu sem felur í sér að opinberar skuldir lækki hægar, en að mati fyrirtækisins styðja breið pólitísk samstaða um að byggja upp viðnámsþrótt í opinberum fjármálum og mikil lækkun skuldahlutfalls árin 2011-2019 við trúverðugleika í opinberum fjármálum til lengri tíma litið.

Aukið traust á því að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu taki að lækka á ný þegar heimsfaraldurinn tekur að hjaðna og viðvarandi efnahagsbati sem byggist t.d. á því að útflutningsgreinar, sér í lagi ferðaþjónusta, hafi staðið af sér áfallið, gætu leitt til hærri lánshæfiseinkunnar.

Vísbendingar um að stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum muni ekki takast að stöðva hækkun skuldahlutfalls, veikari hagvaxtarhorfur til dæmis vegna hægari bata útflutningsgreina, viðvarandi leiðrétting á fasteignamarkaði og veruleg skaðleg áhrif á bankageirann eða verulegt fjármagnsútflæði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagslegan stöðugleika, gætu leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta