Hoppa yfir valmynd
3. maí 2017 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar

F.v.: Allen Pope, framkvæmdastjóri IASC á Íslandi; Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís; Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra; Jón Haukur Ingimundarson, sviðsstjóri hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. - mynd

Skrifstofa Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar - IASC ( International Arctic Science Committee)var flutt til Akureyrar frá Þýskalandi í byrjun þessa árs og verður hún staðsett þar allt til 2021. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) umsýslu með rekstri skrifstofunnar en Rannís hefur átt aðild að IASC fyrir hönd Íslands frá upphafi.

Markmið Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar - IASC er að stuðla að samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og að veita ráðgjöf til stjórnvalda um málefni þeirra. Stofnunin leiðir saman opinberar rannsóknarstofnanir og -samtök frá 23 löndum og hefur skipað sér sess sem einn mikilvægasti alþjóðlegi samstarfsvettvangurinn um rannsóknir og vöktun á norðurslóðum. IASC hefur áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu og gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun upplýsinga frá vísindasamfélaginu til ráðsins um niðurstöður rannsókna á náttúru- og samfélagsbreytingum á norðurslóðum.

Mennta- og menningarmálaráðherra var viðstaddur móttöku á vegum IASC þann 21. apríl síðastliðinn og ávarpaði gesti. Ráðherra sagði við þetta tilefni: „Alþjóðastarf er að mínu mati ein af höfuð forsendum öflugrar framþróunar í rannsóknum, nýsköpun, menntun og menningu og er gríðarlega mikilvægt fyrir allt samfélagið og lykilatriði til að takast á við hnattrænar áskoranir nútíðar og framtíðar.“

Í máli ráðherra kom einnig fram að Norðurslóðamál verða ofarlega á baugi Akureyringa og Íslendinga alla næstu árin, m.a. mun Ísland taka við formennsku í Norðurskautsráðinu árið 2019 til 2021 og sem hluti af formennskunni er stefnt að því að halda vísindaviku norðurslóða á Akureyri vorið 2020. Akureyri sé að verða eins konar miðja norðurslóðarannsókna ekki bara hér heima heldur einnig á alþjóðavettvangi. Þar fari fram mikil rannsóknarvinna jafnt innan Háskólans á Akureyri, sem Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og annarra rannsóknarstofnanna sem þar eru staðsettar. Þá eru tvær skrifstofur Norðurskautsráðsins (PAME (Protection of the Arctic Marine Environment) og CAFF (Conservation of Arctic Fauna and Flora)) þegar staðsettar Á Akureyri, sem og Norðurslóðanet Íslands. Jafnréttisstofa og Fiskistofa gegni einnig lykilhlutverkum í störfum okkar á norðurslóðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta