Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 16/2013

Hinn 26. júní 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 16/2013:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 142/2009

íslenska ríkið

gegn

Impregilo SpA.


og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 1. júlí 2013 óskaði Garðar Valdimarsson hrl., fyrir hönd Impregilo SpA, eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 142/2009 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 25. febrúar 2010. Með bréfi dags. 20. september 2013 sendi Guðrún Margrét Árnadóttir hrl., fyrir hönd íslenska ríkisins, skriflega greinargerð um viðhorf gagnaðila til endurupptökubeiðni. Í kjölfarið gerði endurupptökubeiðandi nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum með bréfi dags. 7. nóvember 2013. Gagnaðila voru kynntar þær athugasemdir.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa í máli þessu Björn L. Bergsson, Eyvindur G. Gunnarsson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Endurupptökubeiðandi höfðaði mál á hendur gagnaðila 30. janúar 2008 og krafði um greiðslu 1.230.708.381 krónu auk vaxta. Með fjárkröfu sinni krafði endurupptökubeiðandi, sem annast hafði umfangsmiklar verktakaframkvæmdir við gerð Kárahnjúkavirkjunar, um endurgreiðslu á staðgreiðslu skatta af launum erlendra manna, sem störfuðu í þágu endurupptökubeiðanda við framkvæmdirnar á vegum tveggja portúgalskra starfsmannaleiga. Skattayfirvöld höfðu gert endurupptökubeiðanda að standa skil á þeim til gagnaðila þrátt fyrir mótmæli endurupptökubeiðanda sem taldi skylduna hvíla á starfsmannaleigunum.

Með dómi Hæstaréttar 20. september 2007 í máli nr. 523/2006 var leyst úr ágreiningi aðila um skyldu endurupptökubeiðanda til að skila staðgreiðslu vegna launagreiðslna til starfsmanna starfsmannaleiganna. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að starfsmenn erlendu starfsmannaleiganna væru skattskyldir hér á landi og starfsmannaleigurnar teldust almennt vera launagreiðendur hinna útleigðu starfsmanna. Því hafi starfsmannaleigunum almennt borið skylda til að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þessara starfsmanna. Endurupptökubeiðandi hefði á hinn bóginn með samningum við starfsmannaleigurnar og Alþýðusamband Íslands gengist undir beina skyldu til að greiða starfsmönnunum þeirra þann mun, sem kynni að vera á launum hvers erlends starfsmanns samkvæmt kjarasamningi og launum samkvæmt ráðningarsamningi við starfsmannaleiguna. Úr því álitaefni hefði verið leyst með dómi Hæstaréttar í máli nr. 267/2006 sem kveðinn var upp 7. desember 2006. Endurupptökubeiðandi teldist þannig launagreiðandi að því er varðaði greiðslu á þeirri fjárhæð sem nam mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum. Af þeim mun væri honum skylt að standa skil á staðgreiðslu skatta. Með dómi í máli nr. 523/2006 felldi Hæstiréttur við svo búið úr gildi niðurstöðu yfirskattanefndar um að endurupptökubeiðanda væri skylt að greiða staðgreiðslu vegna launa starfsmanna tveggja starfsmannaleiga.

Að fenginni þessari dómsniðurstöðu freistaði endurupptökubeiðandi þess að fá endurgreitt fé, sem hann taldi sig hafa verið knúinn til að standa skil á án skyldu. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðanda bæri endurgreiðsla og féllst á dómkröfu hans. Gagnaðili skaut málinu til Hæstaréttar og krafðist meðal annars að hinum áfrýjaða dómi yrði hrundið og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum endurupptökubeiðanda.

Frávísunarkrafa gagnaðila byggði á því að vísa bæri málinu frá þar sem endurupptökubeiðandi hefði ekki sundurgreint kröfu sína þannig að fyrir lægi hvað af greiddri staðgreiðslu opinberra gjalda stafaði af þeim hluta launa sem erlendu starfsmannaleigurnar hefðu greitt og hvað af launum endurupptökubeiðandi hefði borið ábyrgð á vegna nefnds samnings við Alþýðusamband Íslands. Hæstiréttur taldi gagnaðila hafa leitt rök að því að töluverður munur hafi verið á íslenskum og erlendum launakjörum starfsmanna á virkjunarsvæðinu. Það gat að mati réttarins ekki bent til annars en að sá munur á staðgreiðsluskilum, sem af því leiddi, væri innifalinn í kröfugerð endurupptökubeiðanda sem rétturinn taldi hann ábyrgan fyrir en ekki starfsmannaleigurnar. Fjárhæð þessa munar lá ekki fyrir í málinu en endurupptökubeiðandi gæti óháð öllu öðru aldrei átt réttmæta kröfu til þess að fá þær fjárhæðir endurgreiddar. Það sama ætti einnig við um þann hluta kröfu endurupptökubeiðanda sem lyti að tryggingagjaldi.

Hæstiréttur fjallaði um málsástæðu endurupptökubeiðanda sem laut að því að hann ætti kröfu um greiðslu fjárins á grundvelli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda með síðari breytingum. Endurupptökubeiðandi byggði á því að hann hefði verið knúinn til að greiða hina umþrættu staðgreiðslu umfram skyldu. Þetta hafi verið opinber gjöld og því sé gagnaðila skylt að endurgreiða það sem oftekið var. Hæstiréttur féllst ekki á málatilbúnað endurupptökubeiðanda í þessum efnum. Þetta fé sem endurupptökubeiðanda var gert að greiða vegna staðgreiðslu af launum starfsmanna starfsamannaleiganna var að mati Hæstaréttar ekki oftekið í þeim skilningi að gagnaðili hafi ekki átt rétt á því eða að hann hafi fengið meira en honum bar. Með greiðslum endurupptökubeiðenda hefði skattskyldu þeirra launamanna, sem áttu í hlut, verið fullnægt með réttum fjárhæðum. Því hefði ekkert verið oftekið en jafnframt taldi Hæstiréttur að framhjá því yrði ekki litið að endurupptökubeiðandi hefði ekki verið í hlutverki gjaldanda þegar hann innti féð af hendi, heldur hafði hann milligöngu við að uppfylla skattskyldu, sem hvíldi á öðrum. Gilti í þeim efnum einu hvort skilaskylda fjárins hvíldi á endurupptökubeiðanda sjálfum eða öðrum. Hæstiréttur taldi á hinn bóginn að lögin um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda gætu átt við um þann hluta kröfugerðar endurupptökubeiðanda sem lyti að kröfu um endurgreiðslu tryggingagjalds enda sé það gjald lagt á launagreiðanda. Þar sem ekkert lægi hins vegar fyrir um hvernig greiðsluskylda þessa gjalds skiptist milli endurupptökubeiðanda og hinna portúgölsku starfsmannaleiga né heldur hvernig endurgreiðslukrafa hans skiptist milli staðgreiðslu og tryggingagjalds taldi Hæstiréttur ekki unnt að leggja efnisdóm á þennan þátt málsins.

Hæstiréttur féllst hins vegar á með endurupptökubeiðanda að gagnaðili hafi með ólögmætum hætti brotið rétt á honum með því að knýja hann til að hafa milligöngu um staðgreiðsluskil af launum starfsmanna starfsmannaleiganna að undanteknum þeim hluta launanna, sem stafaði af mun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum. Hæstiréttur taldi ekki vafa undirorpið að hinir erlendu starfsmenn hefðu verið skattskyldir hérlendis þó líkur væru að því leiddar að starfsmannaleigurnar hefðu ekki haldið eftir af launum starfsmanna sinna þeim íslensku sköttum, sem þeim bar að greiða. Það að ætla endurupptökubeiðanda að gera það hefði bakað gagnaðila skaðabótaskyldu að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Hæstiréttur vék því næst að tjónstakmörkunarskyldu tjónþola að skaðabótarétti, þ.e. að tjónþola væri skylt að gera það sem sanngjarnt væri að ætlast til af honum til að takmarka tjón sitt. Í þeim tilgangi gæti hann þurft að grípa til beinna ráðstafana til að takmarka tjónið. Endurupptökubeiðandi hafi á löngu tímabili innt af hendi greiðslur til erlendu starfsmannaleiganna fyrir veitta þjónustu, en ekkert lægi fyrir um að hann hafi haldið eftir af greiðslum fé til að mæta staðgreiðslu af launum starfsmanna. Hann hafi ekki gert neinn reka að því að gæta hagsmuna sinna gagnvart starfsmannaleigunum eða stuðla að því, þrátt fyrir að vera í aðstöðu til þess, að þær héldu eftir fé við útborgun af launum starfsmannanna þannig að þeir, sem skattskyldan hvíldi á, myndu endanlega bera skattinn. Engin skýring væri fram komin á því hvers vegna hann lét þetta undir höfuð leggjast þrátt fyrir náið samstarf við starfsmannaleigurnar og að öll gögn og upplýsingar sem þurfti til að rétt skattskil gætu á endanum átt sér stað væru handhæg. Að þessari aðstöðu bjó endurupptökubeiðandi óháð því að honum væri með órétti gert að hafa milligöngu um staðgreiðslu skattanna. Hæstiréttur taldi hann hafa haft öll færi á að gæta hagsmuna sinna en hafi ekki gert það sem með sanngirni mátti ætlast til af honum til að halda sér skaðlausum. Ófullnægjandi væri að treysta á það eitt að geta sótt féð til baka frá gagnaðila. Þar sem endurupptökubeiðandi hefði með þessum máta vanrækt tjónstakmörkunarskyldu sína hefði hann fyrirgert rétti til bóta vegna skila á staðgreiðslu af launum starfsmanna starfsmannaleiganna samkvæmt erlendum ráðningarkjörum. Var  gagnaðili sýknaður af þessari endurkröfu en öðrum þáttum í kröfugerð endurupptökubeiðanda var vísað frá dómi.

Í framhaldi af dómi Hæstaréttar sendi endurupptökubeiðandi kvörtun til eftirlitsstofnunar EFTA er byggði á því að Ísland hefði brotið gegn 36. og 37. gr. Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið með því að skilyrða skráningu starfsmannaleiga frá öðrum löndum evrópska efnahagssvæðisins á launagreiðendaskrá hérlendis við að viðkomandi þyrfti að hafa útibú á Íslandi. Jafnframt að þeir sem keyptu þjónustu af slíkum starfsmannaleigum hérlendis væru skyldugir til að halda eftir staðgreiðslu af launum útleigðra starfsmanna þeirra. Endurupptökubeiðandi hafði undir rekstri dómsmáls nr. 523/2006 æskt þess að Hæstiréttur beindi fimm spurningum til EFTA-dómstólsins varðandi ofangreind atriði en Hæstiréttur hafi synjað því. Eftirlitsstofnun EFTA gaf út rökstutt álit 10. apríl 2013 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að reglur á Íslandi í ofangreindum efnum væru andstæðar 36. gr. í Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Stofnunin gaf út fréttatilkynningu þar sem fram kom að Ísland yrði að heimila starfsmannaleigum frá öðrum EES-ríkjum að veita þjónustu á Íslandi án þess að skilyrða það við skráningu á Íslandi. Veitti stofnunin Íslandi tveggja mánaða frest til að bregðast við í samræmi við þessa niðurstöðu. Embætti ríkisskattstjóra brást við og gaf út ákvarðandi bréf nr. 001/2013. Þar var fyrst gerð grein fyrir því að samkvæmt lögum nr. 139/2005 um starfsmannaleigur væri ekki gerð krafa um staðfestu hérlendis eigi starfsmannaleiga heimilisfesti innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í EFTA-ríki. Þá var fjallað um skráningu erlendra starfsmannaleiga sem hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, í EFTA-ríki eða í Færeyjum og því slegið föstu að slíkar þjónustur geti fengið útgefna kennitölu hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra að uppfylltum skilgreindum skilyrðum. Þegar kennitala hefði svo verið gefin út geti viðkomandi starfsmannaleiga skráð sig á launagreiðendaskrá í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þegar ríkisskattstjóri hafði birt ofangreint bréf ritaði endurupptökubeiðandi bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 5. júní 2013 og óskaði fundar til að ræða möguleika þess að honum yrði bætt tjón sem af staðgreiðsluskilum hefði hlotist sem hann skilgreindi sem 1.230.708.381 krónu. Með bréfi dagsettu 20. júní 2013 svaraði ráðuneytið bréfi endurupptökubeiðanda og hafnaði ósk hans um fund að svo stöddu. Synjun þessi var sett fram á þeim forsendum að bótagreiðslur af þeirri stærðargráðu sem nefndar væru gætu ekki orðið tilefni samningaviðræðna af hálfu ríkisins nema hafið væri yfir allan vafa að bótaskylda væri fyrir hendi og tjónþoli hefði með sannanlegum hætti sýnt fram á raunverulegt tjón.

Í kjölfar þessarar synjunar var óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar nr. 142/2009.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um endurupptöku séu uppfyllt.

Fyrir liggi rökstutt álit eftirlitsstofnunar EFTA um að synjun skattyfirvalda að skrá portúgölsku starfsmannaleigurnar á launagreiðendaskrá hafi falið í sér brot á svonefndum þjónustufrelsisákvæðum Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Stofnunin hafi einnig metið það sem brot á samningnum að gera endurupptökubeiðanda ábyrgan fyrir staðgreiðslu portúgölsku starfsmannanna. Með lögum nr. 169/2007 um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem tóku gildi 21. desember 2007, var 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987 breytt. Eftirlitsstofnun EFTA taldi í áliti sínu að sú breyting fæli í sér brot á 36. gr. samningsins. Þetta brot hafi íslenska ríkið viðurkennt með lagabreytingum með því að fá lög nr. 45/2013 samþykkt og útgáfu ákvarðandi bréfs nr. 001/2013. Breytingar þessar hafi falið í sér að fyrirtæki frá öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins gætu skráð sig á launagreiðandaskrá án þess að stofnsetja félag eða útibúi hérlendis. Þessi gögn telur endurupptökubeiðandi falla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Að mati endurupptökubeiðanda eru sterkar líkur til að Hæstiréttur hefði ekki  fellt dóm í þá veru sem raun ber vitni nema sökum þeirrar breytingar sem þá hafði verið gerð á 4. mgr. 7. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda með breytingarlögum nr. 169/2007. Að sama skapi séu sterkar líkur á því að ef álit eftirlitsstofnunar EFTA um að tilvitnað lagaákvæði færi í bága við þjónustufrelsisákvæði Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefði legið fyrir þá hefði Hæstiréttur ekki komist að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðandi yrði að bera tjón sitt sjálfur. Þá byggir endurupptökubeiðandi jafnframt á því að Hæstiréttur hafi synjað að horfa til EES-reglna við úrlausn ágreinings málsaðila. Rétturinn hafi synjað ósk endurupptökubeiðanda þess efnis að spurningum yrði beint til EFTA-dómstólsins í hæstaréttarmáli nr. 523/2006. Þetta hvoru tveggja hafi leitt til þess að endurupptökubeiðandi hefði farið á mis við að njóta hagræðis af 3. gr. Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem endurupptökubeiðandi telur fela í sér að réttarleg úrræði vegna brota á EES-reglum verði að vera að minnsta kosti jafngóð og úrræðin vegna brota á innlendum reglum. Af þeim sökum hafi endurupptökubeiðandi ekki notið sama réttar og íslenskir aðilar.

Endurupptökubeiðandi telur þá niðurstöðu Hæstaréttar ranga að hann hafi haft færi á að gæta réttar síns og getað haldið sér skaðlausum ef hann hefði gert það sem með sanngirni mátti ætlast til af honum. Þetta hefði Hæstarétti mátt vera ljóst ef hann hefði skoðað betur þau gögn sem lágu fyrir réttinum. Málsatvik hefðu því ekki verið leidd réttilega í ljós í dómi Hæstaréttar í máli nr. 142/2009 án þess að endurupptökubeiðanda sé þar um að kenna, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá telur endurupptökubeiðandi að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd þannig að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt þar sem hann hefði leitt í ljós með sönnunarfærslu fyrir dómi að fjárhæð sú er hann greiddi vegna staðgreiðslu opinberra gjalda erlendu starfsmannanna hafi verið á eigin kostnað. Með vísan til þeirrar sönnunar telur endurupptökubeiðandi að hann hafi átt að njóta réttinda samkvæmt lögum nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þrátt fyrir þetta hefði Hæstiréttur ranglega komist að þeirri niðurstöðu að endurupptökubeiðandi væri milligöngumaður um greiðslur þessar og nyti því ekki réttarstöðu gjaldanda í skilningi laganna.

Í dómi sínum hefði Hæstiréttur vísað frá héraðsdómi meintri dómkröfu um endurgreiðslu tryggingargjalds en slík krafa hefði ekki verið höfð uppi í málinu af hálfu endurupptökubeiðanda og því ekki hluti dómkröfu hans. Taldi endurupptökubeiðandi a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála eiga við í þessum efnum líka.

Hæstiréttur hefði jafnframt í dómi sínum brotið gegn meginreglu réttarfars með því að byggja niðurstöðu sína á málsástæðu um að endurupptökubeiðandi hefði átt að takmarka tjón sitt með því að gæta hagsmuna sinna og halda eftir af því fé sem hann greiddi portúgölsku starfsmannaleigunum sem næmi staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna þeirra. Slíkri málsástæðu hefði ekki verið hreyft af hálfu gagnaðila við meðferð málsins fyrir dómi, hvorki í greinargerð né munnlegum málflutningi. Telur endurupptökubeiðandi c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála vera fullnægt í þessum efnum.

Loks byggir endurupptökubeiðandi á því að fjárhæð endurkröfu hans gegn ríkinu sýni að stórfelldir hagsmunir í skilningi c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu í húfi.

IV.      Viðhorf gagnaðila

Með bréfi dags. 20. september 2013 var sjónarmiðum gagnaðila komið á framfæri. Fyrir hönd gagnaðila er lagst gegn endurupptöku.

Af hálfu gagnaðila er rakið að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 523/2006 hefði að mati gagnaðila þrennu verið slegið föstu. Portúgalskir starfsmenn starfsmannaleiganna bæru ótakmarkaða skattskyldu hérlendis frá fyrsta degi, endurupptökubeiðandi væri almennt ekki launagreiðandi þeirra í skilningi laga um staðgreiðslu opinberra gjalda en væri hins vegar slíkur að því er varðaði greiðslu á þeirri fjárhæð sem næmi mismun á íslenskum lágmarkslaunum og portúgölskum launum í samræmi við samning við starfsmannaleigurnar og Alþýðusambands Íslands. Af þeim mun væri endurupptökubeiðanda skylt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Benti gagnaðili á að endurupptökubeiðandi liti framhjá þessum atriðum í endurupptökubeiðni sinni og því líka að árangurslaust hefði verið skorað á hann að leggja fram gögn um launasamanburð í þessum efnum undir rekstri hæstaréttarmáls nr. 142/2009. Af þessum sökum hefði Hæstiréttur slegið því föstu að gagnaðili hafi leitt að því nægum líkum að verulegur munur væri á hinum erlendu launum og íslenskum lágmarkslaunum en staðgreiðslu af þeim mismun bæri endurupptökubeiðandi ábyrgð á óháð öllu öðru. Hann gæti því ekki átt réttmæta kröfu á endurgreiðslu þeirra fjárhæða.

Gagnaðili mótmælti því að skilyrðum laga til endurupptöku væri fullnægt en fullnægja þyrfti öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Því var sérstaklega mótmælt að ákvæði laga nr. 169/2007 sem fólu í sér breytingu á 4. mgr. 7. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda sem og álit eftirlitsstofnunar EFTA á þeirri lagabreytingu hefðu nokkra þýðingu í málinu enda lögin sett eftir að atvik dómsmálsins gerðust og dómur Hæstaréttar því ekki reistur á þeim. Það væri þannig ekkert sem styddi það að málsatvik hefðu ekki verið réttilega leidd í ljós fyrir Hæstrarétti þannig að fullnægt væri skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Gagnaðili áréttaði að endurupptökubeiðandi hefði enga grein gert fyrir þeim launamun sem hann sjálfur væri ábyrgur fyrir að skila staðgreiðslu opinberra gjalda af en þau gögn væru ekki í vörslum annarra en hans sjálfs. Því var mótmælt sem haldlausu að möguleikar endurupptökubeiðanda til að takmarka tjón sitt hefðu ekki verið til umfjöllunar fyrir dómi. Í þessum efnum var vísað til þess að endurupptökubeiðandi sjálfur hefði rökstutt kröfur, byggðar á skaðabótagrundvelli, á því að hann ætti ekki kost á að fá kröfu sína greidda frá starfsmannaleigunum eða starfsmönnunum sjálfum. Þeim málatilbúnaði hefði verið mótmælt af hálfu gagnaðila meðal annars með vísan til samninga endurpptökubeiðanda við starsfmannaleigurnar, ákvarðana endurupptökubeiðanda sjálfs um uppgjör álagningar á starfsmenn og að ósannað væri að kröfurnar stöfuðu af öðru en staðgreiðsluskyldu hans sjálfs, ósannað væri að hann hefði orðið fyrir tjóni og fleira.

Gagnaðili mótmælti því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós fyrir Hæstarétti. Þannig væri það úr lausu lofti gripið að einhverju varði að endurupptökubeiðandi hafi innt greiðslur af hendi vegna hlutaðeigandi launamanna á eigin kostnað. Greiðslurnar hefðu byggt á upplýsingum frá honum sjálfum og ekkert annað hefði legið fyrir en að skattskyldu launamannanna hefði verið fullnægt réttilega þar með. Ekkert hafi verið oftekið í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Þá hafi niðurstaða Hæstaréttar byggt á lögskýringu í þessum efnum.

Að mati gagnaðila hafi engum nýjum gögnum verið teflt fram sem veiti sterkar líkur til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. sé því ekki fullnægt. Ekki fái staðist að álit eftirlitsstofnunar EFTA, er laut að ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda sem ekki hafði öðlast gildi þegar málsatvik hæstaréttarmáls nr. 142/2009 áttu sér stað, teljist nýtt gagn í þessum skilningi.

Þá standist ekki að endurupptökubeiðandi geti óskað endurupptöku á grundvelli málsástæðna sem hann hafði ekki uppi í málinu þegar það var til meðferðar fyrir dómi. Þannig virðist endurupptökubeiðandi byggja á málsástæðum varðandi EES-reglur sem ekki var byggt á í dómsmálinu. Gagnaðili vísaði í þeim efnum til úrlausnar Hæstaréttar vegna endurupptökubeiðni á hæstaréttarmáli nr. 317/1995 þar sem tekið var fram að reglur um endurupptöku geti ekki orðið grundvöllur þess að mál verði endurupptekið í því skyni að málsaðili tefli fram málsástæðum sem ekki var byggt á í málinu sem beiðnin beinist að.

V.        Frekari athugasemdir aðila

Að fram komnum viðhorfum gagnaðila bárust endurupptökunefnd frekari athugasemdir af hálfu endurupptökubeiðanda. Áréttar hann þar fyrri sjónarmið til stuðnings endurupptöku.

Hvað varðar umfjöllun gagnaðila um samanburð á launum portúgalskra starfsmanna samkvæmt portúgölskum ráðningarsamningum og íslenskum kjarasamningum telur endurupptökubeiðandi að gagnaðili fari rangt með málsatvik. Þau hafi ekki verið réttilega leidd í ljós fyrir Hæstarétti án þess að endurupptökubeiðanda yrði um það kennt. Ranglega hafi verið byggt á því af hálfu gagnaðila og það svo lagt til grundvallar dómi að endurupptökubeiðandi hafi ekki lagt fram gögn um launagreiðslur sem hann hefði haft undir höndum. Í þessum efnum byggir endurupptökubeiðandi á því að honum hafi verið ómögulegt að leggja þau gögn fram þar sem þau hafi verið í vörslu aðaltrúnaðarmanns Alþýðusambands Íslands við Kárahnjúkavirkjun og háð trúnaði milli sambandsins og endurupptökubeiðanda. Gagnaðili hafi hins vegar valdheimildir til að krefjast afhendingar slíkra gagna með fulltingi dómstóla en hafi ekki nýtt sér þær. Það hafi því staðið gagnaðila næst að útvega þessi gögn og því hefði hann í stað endurupptökubeiðanda átt að bera hallann af því að þau voru ekki fyrirliggjandi. Þrátt fyrir að endurupptökubeiðandi hafi bent á þetta fyrir dómi hefði Hæstiréttur kosið að líta framhjá því og framlögðum gögnum og komist að þeirri niðurstöðu að gagnaðili hafi sýnt fram á að allmikill munur hafi verið á laununum. Taldi endurupptökubeiðandi þetta enn eina staðfestingu þess að málsatvik hefðu ekki verið réttilega leidd í ljós fyrir Hæstarétti.

Endurupptökubeiðandi áréttaði að málsástæðan sem Hæstiréttur byggði sýknudóm sinn á, að endurupptökubeiðanda hafi borið að takmarka tjón sitt, hafi alls ekki borið á góma fyrir Hæstarétti. Um sjálfstæða málsástæðu væri að ræða sem ekki yrði talin vera falin inn í almennri kröfugerð endurupptökubeiðanda sjálfs byggðri á skaðabótarétti eða almennri umfjöllun um einstaka liði kröfunnar. Þá mótmælti endurupptökubeiðandi því að um nýjar málsástæður væri að ræða þar sem vitnað var til EES-reglna og vísaði máli sínu til stuðnings til umfjöllunar í stefnu málsins fyrir héraðsdómi og greinargerðar til Hæstaréttar. Hæstiréttur hafi hins vegar látið undir höfuð leggjast að fjalla um þessar málsástæður. Ný gögn um að eftirlitsstofnun EFTA hafi staðfest að um brot á EES-reglum hafi verið að ræða og gagnaðili viðurkennt brot sín hljóti því að teljast ný gögn sem líkleg séu til að breyta niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála.

Athugasemdir endurupptökubeiðanda voru kynntar gagnaðila.

VI.      Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku eru eftirfarandi:

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Endurupptökubeiðandi telur, eins og að framan greinir, að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laganna séu uppfyllt. Þannig telur hann að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr., þar sem álit eftirlitsstofnunar EFTA hafi ekki legið fyrir dómstólnum. Það hafi verið fyrst í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 142/2009 sem gefist hafi tilefni fyrir endurupptökubeiðanda að koma kvörtun á framfæri við eftirlitsstofnun EFTA. Stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að breyting á 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 169/2007, um staðgreiðslu opinberra gjalda hefði falið í sér brot á 36. gr. Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Í niðurstöðu stofnunarinnar hafi verið kveðið á um að engin höft skyldu vera á frelsi ríkisborgara EB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hefðu staðfestu í öðru aðildarríki EB eða EFTA en sá sem þjónustan væri ætluð. Endurupptökubeiðandi telur álit stofnunarinnar einnig falla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 167. laga um meðferð einkamála, að álitið sé ný gögn sem leiða muni til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Með vísan til fjárhæðar dómkröfu sinnar telur endurupptökubeiðandi ekki vafa undirorpið að skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna um stórfellda hagsmuni sé fullnægt.

 Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar í hæstaréttarmáli nr. 142/2009 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið, gagnaðili endurupptökubeiðanda í hæstaréttarmálinu, hafi brotið með ólögmætum hætti rétt á endurupptökubeiðanda með því að knýja hann til að hafa milligöngu um staðgreiðsluskil skatta af launum starfsmanna erlendra starfsmannaleiga. Með réttu hefði skylda endurupptökubeiðanda átt að takmarkast við þann hluta launa sem hann hafði ábyrgst sérstaklega með samkomulagi við Alþýðusamband Íslands. Féllst Hæstiréttur því í raun á málatilbúnað endurupptökubeiðanda að honum hafi ranglega verið gert að annast um innheimtu opinberra gjalda þessara starfsmanna. Hæstiréttur mat það svo að endurupptökubeiðanda væri ekki skylt að íslenskum lögum að annast um staðgreiðsluskil opinberra gjalda nefndra starfsmanna. Ekki verður séð með hvaða hætti álit eftirlitsstofnunar EFTA hefði breytt þeirri niðurstöðu. Þá er til þess að líta að í álitinu er fjallað um hvort ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987, eins og því var breytt með 1. gr. laga nr. 169/2007, um staðgreiðslu opinberra gjalda, samrýmist ákvæðum Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að lög nr. 169/2007 tóku gildi 21. desember 2007, þegar þau atvik höfðu þegar átt sér stað sem urðu tilefni hæstaréttarmáls nr. 142/2009. Í ljósi þessa er álit eftirlitsstofnunar EFTA vart til þess fallið að skjóta stoðum undir að nýjum gögnum sé til að dreifa sem séu til þess fallin að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Af sömu ástæðum verður ekki séð að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd, sbr. skilyrði a-liðar 167. gr., þó álit eftirlitsstofnunar EFTA hafi ekki legið fyrir Hæstarétti.

 Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína ennfremur á því að Hæstiréttur hafi að eigin frumkvæði fært fram þau rök fyrir sýknu gagnaðila að endurupptökubeiðandi hafi látið undir höfuð leggjast að grípa til þeirra ráðstafana sem honum hefðu verið tæk til að takmarka tjón sitt. Gagnaðili hafi ekki byggt sýknukröfu á málsástæðu um tjónstakmörkun og þessa málsástæðu hafi alls ekki borið á góma fyrir Hæstarétti, hvorki við skriflega né munnlega meðferð þess. Hafi Hæstiréttur því brotið málsmeðferðarreglu réttarfars með því að byggja niðurstöðu sína á málsástæðu eða mótmælum sem hefðu mátt koma fram en gerðu það ekki við meðferð málsins Skilyrði fyrir endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti eru talin upp með tæmandi hætti í 1. mgr. 167. laga um meðferð einkamála. Í samræmi við skilyrði greinarinnar koma þau atriði sem endurupptökubeiðandi byggir á og lúta að beitingu Hæstaréttar á reglum skaðabótaréttar ekki til skoðunar vegna beiðni um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti.

 Ljóst er þannig að hvorki skilyrði a-liðar né b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fullnægt. Þegar af þeim ástæðum skortir því á að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt og eru því ekki forsendur til að fallast á beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 142/2009.

 Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna starfsanna nefndarmanna.

 ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Impregilo SpA um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 142/2009, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 25. febrúar 2010, er hafnað.

Björn L. Bergsson formaður

Eyvindur G. Gunnarsson

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta