Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 22/2013

Hinn 27. júní 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 22/2013:

 

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 409/2013

Anna Thelma Magnúsdóttir

gegn

Arion banka hf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:


I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 18. nóvember 2013 fór Þórður Heimir Sveinsson hdl. þess á leit fyrir hönd Önnu Thelmu Magnúsdóttur að hæstaréttarmál nr. 409/2013, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. ágúst 2013, yrði endurupptekið. Endurupptökubeiðanda var með bréfi dags. 17. janúar 2014 gefinn kostur á að rökstyðja frekar hvernig skilyrðum laga um meðferð einkamála um endurupptöku máls væri fullnægt og sendi hann endurupptökunefnd rökstuðning sinn með bréfi dags. 6. febrúar 2014. Þá sendi hann endurupptökunefnd viðbótargögn með tölvubréfi þann 11. júní 2014.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa í máli þessu Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

 II.        Málsatvik

Árangurslaust fjárnám var gert hjá endurupptökubeiðanda þann 15. september 2009 á grundvelli áritaðrar stefnu vegna yfirdráttarskuldar á bankareikningi endurupptökubeiðanda hjá Nýja Kaupþingi banka hf. (nú Arion banka hf.) að fjárhæð 3.651.172 krónur. Í kjölfarið var krafist gjaldþrotaskipta á búi endurupptökubeiðanda og var úrskurður um gjaldþrot kveðinn upp 21. janúar 2010.

Endurupptökubeiðandi krafðist endurupptöku umræddrar aðfarargerðar á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 67. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 13. september 2012, sem hafnaði beiðninni þann 24. sama mánaðar. Þá krafðist endurupptökubeiðandi þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að synjun sýslumanns yrði felld úr gildi og endurupptaka fjárnámsins heimiluð. Rökin fyrir þeirri kröfu voru að fullnægjandi veðrými hefði verið á eign hans þegar umrætt fjárnám fór fram, sem hann hefði getað bent á til tryggingar kröfu gagnaðila. Gengisbundið lán frá gagnaðila hefði verið áhvílandi á 1. veðrétti í fasteign endurupptökubeiðanda sem síðar hefði komið fram að fæli í sér ólögmæta gengistryggingu. Ef fjárhæð þess láns hefði ekki verið tilgreint of hátt af þessari ástæðu hefði fjárnámið á hendur endurupptökubeiðanda aldrei orðið árangurslaust.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness dag. 28. maí 2013 var kröfu um endurupptöku hins árangurslausa fjárnáms hafnað á þeim grundvelli að skilyrði 2. tl. 1. mgr. 67. gr. aðfararlaga væru ekki uppfyllt. Endurupptökubeiðandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til 4. mgr. 85. gr. aðfararlaga þar sem kveðið er á um að gera þurfi kröfu um endurupptöku án ástæðulauss dráttar og áður en krafist er frekari ráðstafana á grundvelli gerðarinnar. Í forsendum dóms Hæstaréttar kom fram að bú endurupptökubeiðanda hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli hinnar árangurslausu fjárnámsgerðar um tveimur og hálfu ári áður en krafa um endurupptöku gerðarinnar hefði borist sýslumanni. Það skilyrði endurupptöku að krafa þess efnis kæmi fram áður en krafist væri frekari ráðstafana á grundvelli gerðarinnar hefði því ekki verið uppfyllt þegar krafan barst héraðsdómara. Þegar af þessari ástæðu var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur að öll skilyrði a. – c. liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu uppfyllt. Í fyrsta lagi sé skilyrðum a-liðar ákvæðisins fullnægt þar sem ekki hafi komið nægilega skýrt fram í málsatvikum og dómsniðurstöðum fyrir héraðsdómi og Hæstarétti að á þeim tíma sem hið árangurslausa fjárnám hafi farið fram hafi engir dómar verið fallnir um ólögmæt gengislán. Ekki hafi annað virst í stöðunni en að lán endurupptökubeiðanda hjá gagnaðila hafi verið lögmætt og því hafi fjárnámið ekki verið kært til héraðsdóms eins og heimild sé til samkvæmt aðfararlögum. Þrátt fyrir framangreint hafi endurupptökubeiðandi nýtt sér bráðabirgðaákvæði XIII í lögum nr. 151/2010 um heimild til að fá endurupptekinn úrskurð vegna gjaldþrotaskipta. Því hafi verið hafnað þar sem gjaldþrotaskipta hafi verið krafist á grundvelli skuldar vegna yfirdráttar en ekki vegna gengistryggðs láns. Endurupptökubeiðandi hafi því leitað allra tiltækra leiða til að komast hjá gjaldþroti.

Dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar lána í málum nr. 153/2010 og 471/2010 og dómar í málum nr. 600/2011 og 464/2013 hafi fallið eftir að endurupptökubeiðandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota. Ekki hafi verið unnt að krefjast endurupptöku fjárnámsins fyrr en niðurstöður lægju fyrir um hina ólögmætu gengistryggingu og endurútreikning lánsins. Því sé verulega ósanngjarnt og illa ígrundað af Hæstarétti að vísa til 4. mgr. 85. gr. aðfararlaga. Auk þess hafi málið ekki verið reifað af hálfu málsaðila á þeim grundvelli og því hafi endurupptökubeiðandi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um þetta efni undir rekstri málsins. Krafa um endurupptöku hafi ekki getað komið fram fyrr en tilvitnaðir dómar hafi legið fyrir og hafi því krafa um endurupptöku verið gerð án ástæðulauss dráttar og skilyrði 4. mgr. 85. gr. þar með fullnægt.

Hvað varðar skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. kveður endurupptökubeiðandi að flest öll gögn málsins hafi verið lögð fyrir héraðsdóm og Hæstarétt. Hann áskilji sér þó rétt til að leggja fram verðmat fasteignarinnar.

Með tölvubréfi til endurupptökunefndar frá 11. júní 2014 kom endurupptökubeiðandi á framfæri afriti af matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjaness er laut að því hvert hafi verið söluverðmæti fasteignar endurupptökubeiðanda þegar umrætt fjárnám hafi verið gert. Þá lagði hann fram endurútreikning á stöðu lánsins frá Arion banka hf. á 1. veðrétti í fasteign hans. Í endurútreikningi þessum komi fram greiðsluáætlun auk greiðslna og vanskila hans fram til 15. september 2009.

Þá telur endurupptökubeiðandi hagsmuni sína af að fá endurupptöku stórfellda og séu því skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. uppfyllt.

Loks er þess beiðst af hálfu endurupptökubeiðanda að ef endurupptökunefnd fallist á beiðni um endurupptöku taki hún afstöðu til þess hvort áhrif fyrri dóms falli niður meðan málið er rekið.

 IV.      Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum. Þá segir í 2. mgr. 168. gr. að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

 Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft, samkvæmt umsókn aðila, að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. fyrir endurupptöku eru eftirfarandi: 

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að unnt sé að fallast á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Árangurslaust fjárnám var gert hjá endurupptökubeiðanda 15. september 2009 og var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta 21. janúar 2010. Endurupptökubeiðandi krafðist endurupptöku fjárnámsins á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 67. gr. aðfararlaga, nr. 90/1989 hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 13. september 2012 en þeirri beiðni var hafnað 24. september 2012. Kröfu um endurupptöku aðfarargerðarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjaness var einnig hafnað. Sú niðurstaða var staðfest í Hæstarétti með vísan til 4. mgr. 85. gr. aðfararlaga eins og rakið er í II. kafla hér að framan. Beiðst er endurupptöku þess dóms.

Endurupptökubeiðandi telur skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. vera uppfyllt. Ekki hafi komið nægilega skýrt fram í málsatvikum og dómsniðurstöðum fyrir héraðsdómi og Hæstarétti að á þeim tíma sem hið árangurslausa fjárnám fór fram og þegar endurupptökubeiðandi var úrskurðaður gjaldþrota hafi engir dómar verið fallnir um ólögmæti gengistryggingar lána.

Ekki er unnt að fallast á þessa röksemd endurupptökubeiðanda. Af hans hálfu var, bæði fyrir Héraðsdómi Reykjaness og Hæstarétti, byggt á dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010, 471/2010, 600/2011 og 464/2012. Dómar þessir lúta allir að álitaefnum er vörðuðu gengistryggingu lána og eru málsástæður endurupptökubeiðanda í þeim efnum sérstaklega reifaðar í dómi Héraðsdóms Reykjaness. Auk þess kemur fram í forsendum dómsins að eftir að árangurslaust fjárnám vegna yfirdráttarskuldar hafi farið fram hafi mál þróast á þann veg að gengisviðmiðun veðskuldar á 1. veðrétti hafi reynst ólögmæt og hafi því fjárhæð þess láns verið mun lægri en talið hafi verið.

Hæstiréttur vék ekki sérstaklega að þessu atriði en fyrir liggur að í kæru sinni til Hæstaréttar tilgreindi endurupptökubeiðandi þessa dóma Hæstaréttar og þá lækkun sem orðið hafði á láninu á 1. veðrétti eftir að hið árangurslausa fjárnám hafði verið gert og bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Þessi málsatvik lágu því fyrir réttinum við meðferð málsins.

Einnig telur endurupptökubeiðandi verulega ósanngjarnt og illa ígrundað af Hæstarétti að vísa til 4. mgr. 85. gr. aðfararlaga því hann hafi ekki getað komið endurupptökubeiðni að fyrr en dómafordæmi Hæstaréttar í áðurgreindum málum lágu fyrir. Þá hafi hann ekki haft tækifæri til að tjá sig um beitingu þessa ákvæðis undir rekstri málsins. Endurupptökubeiðandi virðist þannig vera ósammála niðurstöðu Hæstaréttar um beitingu á 4. mgr. 85. gr. aðfararlaga í máli hans en það atriði kemur þó ekki til álita vegna umsóknar um endurupptöku hæstaréttarmálsins á grundvelli 1. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála.

Endurupptökubeiðanda hefur því ekki tekist að sýna fram á að uppfyllt séu þau skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr., um að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

Hvað varðar skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. um framlagningu nýrra gagna er orðið geti til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, þá hefur endurupptökubeiðandi ekki lagt fram nein gögn sem hafa þýðingu í máli þessu til viðbótar við þau gögn sem hann lagði fram í dómsmálinu og þar var tekin afstaða til.

Að framansögðu er ljóst að á skortir að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt og er beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 409/2013 hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

 ÚRSKURÐARORÐ

 Beiðni Önnu Thelmu Magnúsdóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 409/2013 sem dæmt var í Hæstarétti 28. ágúst 2013 er hafnað.

  Ragna Árnadóttir formaður

  Björn L. Bergsson

  Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta