Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 3/2014

Hinn 5. júní 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 3/2014:

Beiðni um endurupptöku
héraðsdómsmáls nr. E-317/2010

Íslandsbanki hf.
gegn
Jörgen Þór Þráinssyni

 og kveðinn upp svohljóðandi

 ÚRSKURÐUR:

 I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 9. apríl 2014 fór Jörgen Þór Þráinsson þess á leit að mál nr. E-317/2010 sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. mars 2010 yrði endurupptekið. Með bréfi dags. 8. maí óskaði endurupptökunefnd að endurupptökubeiðandi gerði grein fyrir því hvernig skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga væri fullnægt. Enduruppökubeiðandi sendi nefndinni frekari rökstuðning þann 16. maí 2014.

 Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

 II.        Málsatvik

Með stefnu, dags. 13. nóvember 2009, var þess krafist að enduruppökubeiðandi yrði dæmdur til að greiða Íslandsbanka hf. skuld að fjárhæð kr. 1.078.414 ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Skuldin var til komin vegna innistæðulausra skuldfærslna á reikning endurupptökubeiðanda hjá Íslandsbanka hf. Við þingfestingu málsins 14. janúar 2010 var ekki sótt þing af hálfu endurupptökubeiðanda og var stefnan árituð um aðfararhæfi dómkrafna stefnanda auk málskostnaðar. Við þingfestingu málsins var lagt fram birtingarvottorð, dags. 4. janúar 2010.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi fer fram á endurupptöku ofangreinds héraðsdómsmáls þar sem stefna hafi ekki verið birt viðkomandi. Í birtingarvottorði komi fram að endurupptökubeiðandi sé með lögheimili að Kirkjustétt 36 í Reykjavík en í vottorðinu hafi verið strikað yfir rétt lögheimili og skrifað Biskupsgata 19 í þess stað. Þá hafi stefnan verið birt Björgu Sigþórsdóttur og þess getið að hún sé  maki, sem sé heldur ekki rétt.

Endurupptökubeiðandi fer fram á endurupptöku í samræmi við 167. gr. laga um meðferð einkamála þar sem sýnt sé fram á að umrætt lögheimili hafi verið að Kirkjustétt 36 þegar stefnan var birt. Endurupptökbeiðandi leggur fram afrit úr Þjóðskrá Íslands því til sönnunar. Hvað varðar a-lið 1. mgr. 167. gr. þá telur endurupptökubeiðandi það ákvæði uppfyllt þar sem hann hafi ekki haft vitneskju um stefnu og því ekki haft tækifæri til að verjast í málinu. Álitamál séu um fjárhæð kröfu, lánasamning, vexti og aðra málavexti. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 167. gr. þá telur endurupptökubeiðandi það skipta miklu máli að hann hafi verið á svörtum lista fjármálafyrirtækja frá þessum tíma. Réttur fólks til að verjast fyrir dómi sé einn af hornsteinum íslensks réttarríkis en hans hafi ekki verið gætt í málinu. Að lokum með vísan til c-liðar 1. mgr. 167. gr. þá greinir endurupptökubeiðandi frá því að Íslandsbanki hf. hafi ákveðið að fara fram á gjaldþrot hans á sama tíma og tekist sé á um annað og mun stærra mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það mál snúi að öðrum tékkareikningi í erlendri mynt. Fyrir liggi allsherjartryggingarbréf með veði í fasteign, meðal annars vegna tékkareiknings nr. 97. Meginreglan sé að ekki sé hægt að innheimta oftar en einu sinni sömu kröfuna. Til stuðnings beiðni sinni vísar endurupptökubeiðandi til dóms Héraðsdóms Reykjaness nr. E-591/2013 frá 5. maí 2014.

Endurupptökubeiðandi óskar eftir að endurupptökunefnd hraði málsmeðferð eins og hægt er þar sem Íslandsbanki hf. hafi lagt fram gjaldþrotaskiptabeiðni byggða á dómi þeim sem endurupptökubeiðni lýtur að.

IV.      Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt. Samkvæmt 1. mgr. 168. gr. laganna skal endurupptökubeiðandi rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skulu gögn fylgja henni eftir þörfum. Í 2. mgr. 168. gr. laganna segir að ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist synji endurupptökunefnd þegar í stað um endurupptöku.

 Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um endurupptöku eru eftirfarandi:

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

 Öll framangreind skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo unnt sé að fallast á endurupptöku.

 Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að stefnubirting hafi ekki verið lögmæt og leggur fram afrit úr þjóðskrá þar sem fram kemur að lögheimili hans hafi á tíma umræddrar birtingar verið að Kirkjustétt 36 en ekki að Biskupsgötu 19 eins og fram komi á birtingarvottorði.

 Fyrir liggur að stefna í máli því sem óskað er endurupptöku á var birt af stefnuvotti sem er skipaður af sýslumanni til þess að annast birtingar, sbr. 81. gr. laga um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. sömu laga er birting stefnu lögmæt ef stefnuvottur vottar að hann hafi birt stefnu fyrir stefnda eða einhverjum sem er bær til að taka við henni í hans stað. Kveðið er jafnframt á um í 3. mgr. 87. gr. laganna að efni birtingarvottorðs skuli teljast rétt þar til það gagnstæða sannast. Samkvæmt fyrirliggjandi birtingarvottorði kemur fram að birtingarstaður sé Biskupsgata 19, Reykjavík, tilgreint heimilisfang sé lögheimili, og að birt sé fyrir Kristínu Sigþórsdóttur, maka endurupptökubeiðanda. Í athugasemdum er skrifað „áður Kirkjustétt 36“.

 Samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála skal stefna að jafnaði birt fyrir stefnda sjálfum á skráðu lögheimili hans eða þar sem hann hefur fasta búsetu, dvalarstað eða vinnustað. Birting er þó einnig lögmæt ef birt er á öðrum stað en skráðu lögheimili stefnda fyrir heimilismanni hans sem tjáir hann eiga þar fasta búsetu eða dvalarstað, sbr. b-lið 3. mgr. 85. gr. laga um meðferð einkamála. Er þá frásögn heimilismanns um tengsl við stefnda lögð til grundvallar skráningu í birtingarvottorð, sbr. 3. mgr 87. gr. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga um meðferð einkamála er þeim sem hittist fyrir þegar birta á stefnu skylt að greina frá nafni sínu og öðrum atriðum sem lögmæti birtingar getur oltið á.

 Endurupptökubeiðanda var gefinn kostur á að rökstyðja beiðni sína frekar eins og að framan greinir. Hann hefur einungis lagt fram fyrrgreint afrit úr þjóðskrá en ekki stutt fullyrðingu sína um ólögmæta birtingu neinum öðrum gögnum. Þótt birtingarvottorðið í málinu kunni að vera haldið þeim annmörkum að Biskupsgata 19 sé tilgreind sem lögheimili endurupptökubeiðanda verður að hafa í huga að lögheimili stefnda er ekki eini lögmæti birtingarstaðurinn samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um meðferð einkamála. Birta má fyrir heimilismanni á búsetu- eða dvalarstað. Að virtum þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í málinu hefur endurupptökubeiðanda ekki tekist að sýna fram á að stefnubirting hafi verið með þeim hætti að framangreind skilyrði endurupptöku a- eða b-liðar 1. mgr. 167. gr. komi hér til álita.

 Þá greinir endurupptökubeiðandi frá því að álitamál séu um fjárhæð kröfu í málinu, lánasamning, vexti og aðra málavexti. Enginn rökstuðningur er lagður fram af hans hálfu hvað þetta varðar eða nánar tilgreint í hverju þau álitamál kynnu að felast. Þá verður ekki séð á hvern hátt tilvitnaður dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 5. maí sl. skjóti stoðum undir þessar málsástæður. Þá greinir endurupptökubeiðandi frá því að annað og stærra mál sé rekið á hendur sér fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Af rökstuðningi endurupptökubeiðanda má álykta að hann telji að í því máli sé verið að innheimta tvisvar fyrir sömu skuld. Ekki verður séð að það mál geti tengst endurupptökubeiðni þessari, en endurupptökubeiðandi ætti að hafa öll tækifæri til að koma að vörnum í því máli.

Að framansögðu er ljóst að skilyrðum a-liðar og b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er ekki fullnægt. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og beiðni um endurupptöku héraðsdómsmálsins E-317/2010 því bersýnilega ekki á rökum reist. Er henni því synjað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála.

 ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Jörgens Þórs Þráinssonar um endurupptöku héraðsdómsmáls E-317/2010, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. mars 2010, er hafnað.

 Ragna Árnadóttir formaður

 Björn L. Bergsson

 Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta