Breyttar reglur um takmarkanir á samkomum frá 4. maí
Fjöldamörk samkomubanns hækka úr 20 í 50 manns 4. maí næstkomandi, unnt verður að opna framhalds- og háskóla og ýmsir þjónustuveitendur geta á ný tekið á móti viðskiptavinum. Frá sama tíma falla alveg niður takmarkanir á fjölda nemenda í leik- og grunnskólum og einnig fjöldatakmarkanir við íþróttaiðkun og æskulýðsstarf barna á leik- og grunnskólaaldri. Þetta er meðal þess sem leiðir af nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Rýmkun á reglum um takmarkanir á skólahaldi og samkomum er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis.
Í auglýsingunni felst að reglur um fjöldatakmörk og um tveggja metra nálægðarmörk munu frá gildistöku hennar ekki eiga við um nemendur í starfsemi leik- og grunnskóla. Þannig verður því unnt að halda óskertri kennslu og vistun barna. Sama á við varðandi börnin í starfsemi dagforeldra, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og annarri lögbundinni þjónustu á leik- og grunnskólastigi. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar almenningi en skólasundkennsla verður heimil.
Áform stjórnvalda um tilslakanir á takmörkunum á samkomum og skólahaldi voru kynntar á fréttamannafundi forsætis- heilbrigðis- og dómsmálaráðherra 14. apríl síðastliðinn. Með auglýsingunni sem birt var í dag eru breytingarnar nákvæmlega útfærðar. Í meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis, dags. 19. apríl 2020, sem er viðbót við fyrri minnisblöð hans til heilbrigðisráðherra sem kynnt voru 14. apríl, er gott yfirlit yfir helstu breytingar sem auglýsingin hefur í för með sér varðandi skólastarf á öllum skólastigum, á íþróttastarf barna og fullorðinna o.fl.
Sóttvarnalæknir leggur til við heilbrigðisráðherra að þegar líður að lokum maí verði skoðaðir möguleikar á að aflétta enn frekar takmörkunum á samkomum. Að því gefnu að ekkert standi slíkum breytingum fyrir þrifum verði stefnt að því að færa fjöldatakmarkanir úr 50 í 100 manns, opna sundlaugar og líkamsræktarstöðvar o.fl.
Það skal ítrekað að meðfylgjandi auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tekur ekki gildi fyrr en 4. maí næstkomandi. Frá sama tíma falla úr gildi núgildandi auglýsingar um takmörkun á samkomum og um takmörkun á skólastarfi.
Fylgiskjöl:
- Auglýsing um takmörkun á samkomum vegna farsóttar
- Minnisblað sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra dags. 19. apríl
- Minnisblað sóttvarnalæknis varðandi afléttingu takmarkana á samkomum vegna Covid-19 eftir 4. maí 2020, dags. 11. apríl
- Viðbót við minnisblað dags. 11. apríl varðandi afléttingu takmarkana vegna Covid-19 eftir 4. maí 2020, dags. 13. apríl