Mál nr. 6/2009: Dómur frá 22. janúar 2010
Ár 2009, föstudaginn 22. janúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 6/2009
Landssamband lögreglumanna
gegn
íslenska ríkinu
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R
Mál þetta var dómtekið 14. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Bergþóra Ingólfsdóttir.
Stefnandi er Landssamband lögreglumanna, Grettisgötu 89, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.
Með úrskurði Félagsdóms, uppkveðnum 20. október sl., var þremur kröfuliðum í kröfugerð stefnanda vísað frá dómi. Eftir standa þrír kröfuliðir sem eru til úrlausnar í dómi þessum.
Dómkröfur stefnanda
- Viðurkennt verði að einhliða setning reglna Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, merktar nr. V002-2008 og tóku gildi 14. mars 2008, hafi verið andstæð grein 2.1.2 í áðurnefndum kjarasamningi. Lögreglumönnum, sem starfa við rannsóknardeildir Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, beri ekki skylda til að fara eftir reglunum.
- Viðurkennt verði að skýra ber grein 2.6.13 í áðurnefndum kjarasamningi þannig að lögreglumenn, sem náð hafa 55 ára aldri, skuli undanþegnir bakvaktaskyldu á næturvinnutíma.
- Viðurkennt verði að skerðist hvíld, t.d. vegna vinnu á hvíldardegi, skuli hún að fullu bætt. Verði tveir hvíldardagar teknir saman á grundvelli 3. málsgreinar eigi lögreglumaður rétt á 70 klst samfelldri hvíld, sbr. gein 2.4.4, 1. málsgrein, og grein 2.4.5.5.
- Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.
Dómkröfur stefnda
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.
Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
Málavextir
Stefnandi, Landssamband lögreglumanna, er stéttarfélag lögreglumanna og aðili að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB.
Ágreiningsefni aðila í máli þessu lýtur að túlkun á ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 30. apríl 2005, sem gerður var á grundvelli laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Í málinu hefur stefnandi uppi viðurkenningarkröfur er lúta að ákvæðum í gildandi kjarasamningi aðila og reglum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu nr. V002/2008 um vinnutíma rannsóknardeilda varðandi bakvaktir. Reglur þær, sem um er deilt, tóku gildi 14. mars 2008. Kveður stefnandi reglurnar hafa verið settar einhliða af embætti LRH, þrátt fyrir mótmæli stefnanda og einstakra rannsóknarlögreglumanna við embættið. Til þess að fá skorið úr ágreiningsefnum sem uppi eru um túlkun kjarasamningsins, og lúta að umræddum reglum, telur stefnandi nauðsyn bera til að höfða mál þetta.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Lögsaga Félagsdóms
Stefnandi kveður ágreiningsefni aðila lúta að túlkun á ákvæðum kjarasamnings og eiga undir Félagsdóm, sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Með ítarlegum kröfum stefnanda sé leitast við að fá úr því skorið hvernig beri að túlka umrædd ákvæði, þannig að friður geti skapast um framkvæmd kjarasamningsins.
Viðurkenningarkrafa nr. 1
Stefnandi kveður þessa kröfu byggjast á ákvæði gr. 2.1.2 í kjarasamningi aðila og meginreglum samninga- og vinnuréttar um túlkun kjarasamningsákvæða. Stefnandi telur það leiða af orðum kjarasamningsákvæðisins að taka beri dómkröfu hans til greina.
Stefnandi telur fráleitt, eins og kjarasamningur aðila sé úr garði gerður, að stefndi geti skipað rannsóknarlögreglumönnum að vera á bakvöktum án samráðs við þá og ráðstafað þannig frítíma þeirra. Með því sé kjarasamningsákvæðið virt að vettugi og gert þýðingarlaust ef á yrði fallist.
Reglurnar, sem dómkrafa nr. 1 lúti að, séu einhliða fyrirmæli yfirmanna LRH um vinnufyrirkomulag, sem sætt hafi mótmælum. Með því hafi verið brotið gegn kjarasamningsákvæðinu, sem kröfur stefnanda byggist á. Stefnandi telur að reglur sem þannig séu settar feli ekki í sér lögmæt fyrirmæli vinnuveitanda, sem starfsmanni beri að fara eftir.
Í svörum starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sé áhersla lögð á að bakvaktir séu hluti af vinnufyrirkomulagi rannsóknarlögreglumanna og að á grundvelli stjórnunarréttar vinnuveitanda geti hann gert breytingar á fyrirkomulaginu. Stefnandi telur að í þessu felist mikil einföldun. Eins og kjarasamningur aðila sé úr garði gerður sé bakvaktafyrirkomulag háð því að um það hafi tekist samkomulag með þeim hætti, sem kveðið sé á um í kjarasamningi. Rannsóknarlögreglumenn hafi ekki undirgengist að sitja bakvaktir á öðrum grundvelli. Rétt sé að árétta að í einstaklingsbundnum samningum við rannsóknarlögreglumenn séu engar skyldur í þá veru tilgreindar.
Það færi gegn grundvallarreglum samfélagsins ef vinnuveitandi ætti ákvörðunarvald um hvort og þá hvenær einstakir starfsmenn skuli vera á bakvakt og þannig bundnir heima hjá sér án undirliggjandi samkomulags þar að lútandi. Til samanburðar sé vísað til 17. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. ákveði forstöðumaður vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfa hjá stofnun að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis sé starfsmönnum skylt að vinna yfirvinnu að ákveðnu marki.
Viðurkenningarkrafa nr. 2
Krafan sé reist á gr. 2.6.13 í kjarasamningi aðila. Þar segi að lögreglumaður, sem vinnur vaktavinnu, skuli undanþeginn næturvaktavinnu þegar hann hafi náð 55 ára aldri.
Í svörum starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segi að ákvæðið eigi eingöngu við um lögreglumenn sem vinni vaktavinnu. Stefnandi geti ekki fallist á að bakvaktir falli ekki þar undir þar sem um vinnu, ef til hennar kæmi, yrði að ræða sem að mjög miklu leyti yrði unnin að næturlagi. Til þess þyrfti að skýra ákvæðið þröngri skýringu. Skýringarsjónarmið séu gegn þröngri skýringu. Næturvinnan sé sama eðlis hvort sem henni sé sinnt á reglulegri vakt eða í útkalli á bakvakt.
Viðurkenningarkrafa nr. 3
Krafan sé reist á gr. 2.4.4 í kjarasamningi aðila. Þar segi að á hverju 7 daga tímabili skuli lögreglumaður fá a.m.k. einn vikulegan hvíldardag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skuli við það miðað að vikan hefjist á mánudegi. Lögreglumaður eigi þannig rétt á að fá 35 klst. samfellda hvíld einu sinni í viku. Að auki byggist krafan á leiðbeiningum samráðsnefndar um skipulag vinnutíma sem séu viðauki 2 með kjarasamningi aðila og gr. 2.4.5.5 í kjarasamningi aðila, en þar sé fjallað um hvernig farið skuli með atvik þar sem lögreglumaður vinni það lengi, á undan hvíldardegi, að 11 klst. lágmarkshvíld náist ekki.
Af umsögn fjármálaráðuneytisins, frá 22. janúar 2003, að dæma virðist sem af hálfu stefnda sé byggt á því að vegna 3. málsgreinar í ákvæðinu sé LRH frjálst að skipuleggja vinnu þannig að vikulegum hvíldardegi verði frestað. Litið sé fram hjá því að í 1. málsgrein sé meginreglan um rétt til hvíldardags, sem rík áhersla sé lögð á í lögum og kjarasamningum, sbr. leiðbeiningar í viðauka 2. Einnig sé litið fram hjá skilyrði í undantekningarákvæði í 3. málsgrein um sérstaka þörf. LRH hafi ekki gert tilraun til að sýna fram á að sérstök þörf réttlæti það fyrirkomulag, sem felist í reglunum og deilt sé um. Stefnandi byggi á því að tilvitnuð orð beri að skýra þröngri skýringu, þar sem um sé að ræða undantekningu frá meginreglunni í 1. málsgrein. Með undantekningarreglunni í 3. málsgrein sé mætt þörf sem kunni að skapast vegna ófyrirséðra atvika og því sé ekki unnt að gera samkomulag, eins og mælt sé fyrir um í 2. málsgrein ákvæðisins. Lögð sé áhersla á að 2. málsgreinin hefði enga þýðingu ef fallist yrði á túlkun fjármálaráðuneytisins. Stefnandi telur að sjónarmið, sem fram komi í umsögn fjármálalaráðuneytisins varðandi 4. málsgrein sömu greinar, eigi við um 3. málsgreinina.
Krafan sé gerð til að taka af tvímæli. Fái lögreglumaður ekki vikulegan hvíldardag af einhverjum ástæðum beri að bæta honum það að fullu samkvæmt almennum reglum og kjarasamningsákvæðunum, sem vísað sé til. Við þær aðstæður, að tveir hvíldardagar séu teknir saman vegna ákvörðunar á grundvelli 3. málsgreinar greinar 2.4.4, beri starfsmanni 70 klst. samfelld hvíld.
Í svörum starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins komi skýrt fram að gera þurfi greinarmun á frídegi annars vegar og hvíldardegi hins vegar. Þetta svar sé í anda þess greinarmunar sem gerður sé á þessum tveimur dögum í gr. 2.4.4 og í leiðbeiningum samráðsnefndar um skipulag vinnutíma, enda skýrt kveðið á um það, bæði í kjarasamningi aðila og í tilvitnuðum leiðbeiningum, að hvíldardagurinn sé 35 klst., þ.e. 11 klst. lágmarkshvíld til viðbótar 24 klst. hvíld (hvíldardegi). Komi til frestunar þessa hvíldardags, án þess að undantekningarákvæðið í 3. málsgrein gr. 2.4.4 eigi við, hljóti að þurfa að gera um það sérstakt samkomulag. Einhliða fyrirkomulag um skyldu rannsóknarlögreglumanna til bakvaktavinnu feli, eðli máls samkvæmt, ekki í sér samkomulag. Það leiði í raun til þess að lögreglumenn, sem undir þetta fyrirkomulag séu settir og sinni bakvöktum um helgar, verði sviptir rétti sínum til vikulegs hvíldardags. Byggt sé á því að það geti ekki talist hvíld að vera á bakvakt.
Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til 130., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst ekki hafa frádráttarrétt vegna kostnaðar af virðisaukaskatti af aðkeyptri lögmannsþjónustu.
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukröfu sína styður stefndi eftirfarandi rökum:
Viðurkenningarkrafa nr. 1
Í þessum kröfulið krefjist stefnandi viðurkenningar á því að einhliða setning reglna nr. V002-2008 sé andstæð grein 2.1.2. í kjarasamningi aðila og beri lögreglumönnum ekki skylda til að fara eftir reglunum.
Af hálfu stefnda er þessum skilningi og kröfu stefnanda eindregið vísað á bug og krafist sýknu af þessari kröfu.
Forstöðumaður hafi endanlegt ákvörðunarvald um vinnutíma starfsmanna að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa, sbr. 17. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfmanna ríkisins (hér eftir stml.). Þetta þýði meðal annars að ákvarðanir er varða skipulag vinnutíma og yfirvinnu séu á valdi forstöðumanns.
Um vinnutíma og hvíldartíma sé fjallað í lögum nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku, og í IX. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Ítarlegri ákvæði séu þó í kjarasamningum. Slík ákvæði séu í 2. kafla kjarasamninga við stéttarfélög ríkisstarfsmanna, þ.e. félaga sem starfi á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.
Vinnuvika starfsmanns í fullu starfi sé því almennt 40 stundir. Dagvinna eða vaktavinna séu algengasta skipulag vinnutíma. Tímabil dagvinnu sé tilgreint í kjarasamningum. Dæmi séu um að dagvinnumaður vinni hluta af vikulegri vinnuskyldu sinni utan dagvinnutímabils. Vaktavinna sé unnin á skipulögðum vöktum. Til viðbótar venjulegum vinnutíma geti komið bakvaktir sem forstöðumaður/yfirmaður ákveði. Almennt teljist vinna sem fer fram utan tilskilins daglegs vinnutíma starfsmanns eða reglubundinna vakta til yfirvinnu.
Almenn skilgreining á bakvakt í kjarasamningum sé sú að á bakvakt sé starfsmaður ekki við störf en reiðubúinn til að sinna útkalli. Eins teljist það ekki bakvakt ef starfsmaður dveljist á vinnustað samkvæmt beiðni yfirmanns. Bakvakt feli því í sér ákveðna viðbúnaðarskyldu, sem einnig mætti lýsa sem skilyrtri vinnuskyldu. Bakvakt setji því viðkomandi starfsmanni ákveðnar skorður þar sem honum sé skylt að vinna ef á hann er kallað.
Forstöðumaður fari, með heimild í grundvallarreglunni um stjórnunarrétt vinnuveitanda, með valdið til að stýra og stjórna starfseminni, þ.e. að ákveða hvaða verk skuli vinna, hver skuli vinna þau, með hvaða hætti, hvenær og hvar. Vald hans í þessum efnum sé óskert nema það sæti sérstökum takmörkunum samkvæmt lögum, reglum eða samningum. Auk þess sé forstöðumanni heimilt að takmarka bakvaktir með því að draga úr viðveruskyldu starfsmanna, sbr. Hrd. 1993:2147 og dóm Félagsdóms í máli nr. 13/2000. Ákvarðanir sem séu teknar dags daglega um störf og verksvið einstakra starfsmanna rúmist jafnan innan þeirra heimilda sem felist í stjórnunarrétti vinnuveitanda.
Um vinnutíma lögreglumanna gildi 2. kafli í kjarasamningi LL og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Kaflinn skiptist í sex undirgreinar. Í grein 2.1 séu almenn ákvæði um vinnutímann. Samkvæmt grein 2.1.2 sé heimilt að haga vinnu með öðrum hætti en í 2. kafla greini, með samkomulagi meirihluta starfsmanna er málið varðar og viðkomandi lögreglustjóra. Fjármálaráðuneytið telji það leiða af orðanna hljóðan greinar 2.1.2 að túlka beri ákvæðið svo að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en í kaflanum greini með samkomulagi meirihluta starfsmanna er málið varðar og viðkomandi lögreglustjóra. Slíkt samkomulag nái því, samkvæmt orðanna hljóðan, aðeins til þess ef haga á vinnu með öðrum hætti en í kaflanum greini. Heimilt sé samkvæmt grein 2.5.6 að semja um annað fyrirkomulag greiðslu fyrir bakvaktir en greini í grein 2.5. Hafi stofnun ekki gert samkomulag við starfsmenn um annað fyrirkomulag á bakvöktum skuli greiða fyrir bakvaktir samkvæmt grein 2.5. Ljóst sé að ákvæði greinar 2.5.6 væri óþarft ef skilningur stefnanda á grein 2.1.2 ætti við.
Yfirmenn hjá embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) hafi, í desemberlok 2007, kynnt drög að nýju vinnutímafyrirkomulagi fyrir rannsóknardeild. Rannsóknarlögreglumenn hafi andmælt drögunum og þar með bakvaktafyrirkomulaginu sem í því fólst. LRH hafi átt viðræður við rannsóknarlögreglumenn um drögin en að lokum hafi svo farið að LRH gaf þær út 26. febrúar 2008 og tóku þær gildi 14. mars 2008.
Um bakvaktir lögreglumanna gildi grein 2.5 í kjarasamningi LL og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Samkvæmt henni sé gert ráð fyrir því að bakvaktir séu einn þáttur í vinnufyrirkomulagi lögreglumanna, sbr. grein 2.5. Bakvakt feli í sér viðbúnaðarskyldu og setji viðkomandi starfsmanni skorður. Sé því mótmælt sem fram komi í stefnu að ekki sé hægt að skipa rannsóknarlögreglumönnum að vera á bakvöktum án samráðs við þá og ráðstafa þannig frítíma þeirra. Vinnufyrirkomulag rannsóknarlögreglumanna hjá LRH geri ráð fyrir bakvöktum og verði því að telja bakvaktir sem hluta af vinnufyrirkomulagi þeirra, sbr. grein 2.5.
Þá sé því mótmælt sem fram komi í stefnu að það fari gegn grundvallarreglum samfélagsins ef vinnuveitandi ætti ákvörðunarvald um hvort og þá hvenær einstakir starfsmenn skuli vera á bakvakt og þannig bundnir heima hjá sér án undirliggjandi samkomulags þar að lútandi. Eins og áður sagði sé hér um hluta af vinnufyrirkomulagi að ræða, sbr. grein 2.5, auk þess sem þegar hafi verið samið um greiðslur fyrir þessa vinnuskyldu í kjarasamningi ríkisins og LL, sbr. sömu grein. LRH hafi og gefið út nánari reglur um vinnutíma í rannsóknardeild þar sem fyrirkomulag bakvakta sé nánar skipulagt. Það fyrirkomulag sem viðhaft sé í reglum V002-2008 við skipulagningu á bakvöktum rannsóknardeildar sé gert til þess að viðkomandi rannsóknarlögreglumaður viti hvenær hann sé skráður á bakvakt samkvæmt fyrir fram útgefnu skipulagi. Fyrirkomulagið hafi því falið í sér skipulagðar bakvaktir eins og það hugtak sé skilgreint í grein 2.5.1 í kjarasamningi ríkisins og LL, og sé því í samræmi við 17. gr. stml.
Samkvæmt því hafi LRH verið heimilt að setja einhliða reglur sem feli í sér skyldur lögreglumanna til að vera á bakvöktum, án samkomulags við lögreglumenn, þar sem þær séu ekki í andstöðu við grein 2.5 í kjarasamningi LL og fjármálaráðherra f.h. ríkisins og beri lögreglumönnum, sem starfa við rannsóknardeild LRH, skylda til að fara eftir reglunum.
Viðurkenningarkrafa nr. 2
Í kröfulið 2. krefjist stefnandi viðurkenningar á því að skýra beri grein 2.6.13 í kjarasamningi aðila svo að lögreglumenn sem hafa náð 55 ára aldri skuli undanþegnir bakvaktaskyldu á næturvinnutíma.
Þessum skilningi og kröfu stefnanda sé eindregið vísað á bug.
Um bakvaktir sé, eins og áður segi, fjallað í grein 2.5, en um vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma sé fjallað í grein 2.6 í kjarasamningi LL og fjármálaráðherra fh. ríkisins. Í grein 2.6.13 segi að lögreglumaður sem vinnur vaktavinnu, skuli undanþeginn næturvaktaskyldu þegar hann hefur náð 55 ára aldri. Stefndi líti svo á að ákvæði greinar 2.6.13 gildi aðeins um þá lögreglumenn sem vinna vaktavinnu. Um sé að ræða undanþáguákvæði sem skýra verði þröngt. Ekkert sambærilegt ákvæði sé í grein 2.5 og því eðlilegt að túlka grein 2.5 svo að lögreglumaður sem náð hefur 55 ára aldri og er undanþeginn næturvaktaskyldu í vaktavinnu beri að sinna bakvöktum samkvæmt grein 2.5 ef hann er dagvinnumaður, nema samið hafi verið um annað fyrirkomulag samkvæmt grein 2.5.6.
Samkvæmt því sé ekki hægt að skýra grein 2.6.13 þannig að lögreglumenn, sem náð hafi 55 ára aldri, skuli undanþegnir bakvaktaskyldu samkvæmt grein 2.5 á næturvinnutíma.
Viðurkenningarkrafa nr. 3
Stefndi vísar þessari kröfu stefnanda eindregið á bug.
Þar sem vinnuskylda rannsóknarlögreglumanna hjá LRH takmarkist almennt við dagvinnutíma frá mánudegi til föstudags sé ljóst að viðurkenningarkrafan taki fyrst og fremst til þeirra sem ganga bakvaktir hjá LRH. En um bakvaktir lögreglumanna hafi aðilar samið sérstaklega í grein 2.5 í kjarasamningi LL og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs. Samkvæmt ákvæðum reglna V002-2008 um vinnutíma rannsóknardeildar séu bakvaktir skipulagðar fyrir fram, sbr. grein 2.0 um bakvaktir. Þetta fyrirkomulag sé í samræmi við grein 2.4.4 og grein 2.4.5.5 kjarasamnings, en þar komi fram að á grundvelli kjarasamningsákvæða sé heimilt að skipuleggja vinnuna með þeim hætti að vikulegum hvíldardegi sé frestað þannig að teknir séu tveir hvíldardagar saman aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Þegar svo háttar, að þörf sé á að skipuleggja vinnuna þannig að vikulegum hvíldardegi sé frestað, beri að fara eftir 3. mgr. greinar 2.4.4 í kjarasamningnum. Heimildin fyrir frestun hvíldardagsins sé því fyrir hendi í kjarasamningnum sjálfum og þurfi því ekki að gera sérstakt samkomulag um frestun hans. Ef vikulegum hvíldardegi sé frestað samkvæmt 3. mgr. greinar 2.4.4, skuli ávallt veita hann sem fyrst en þó ekki síðar en innan 14 daga, sbr. lokamálslið 1. mgr. greinar 2.4.4, þannig að veittir séu tveir hvíldardagar í seinni vikunni. Í þessu tilviki væri þá um að ræða laugardag og sunnudag í vikunni á eftir.
Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar sé um að ræða rannsóknarlögreglumenn sem eru dagvinnumenn og vinna fimm daga vinnuviku. Skipulag vinnunnar sé þó þannig að þeir þurfi að sinna bakvakt samkvæmt bakvaktaskipulagi sem sett skuli upp hverju sinni með 30 daga fyrirvara og þrjá mánuði fram í tímann, sbr. reglur nr. V002-2008. Um skipulag bakvakta sé nánar fjallað í reglunum. Í kafla 3.0 um útköll segi í 2. mgr. grein 3.5 að ávallt skuli gæta ákvæða gildandi kjarasamninga um hvíldartíma hverju sinni og skuli vakthafandi rannsóknarlögreglumaður tilkynna hlutaðeigandi ef hann geti ekki sinnt útköllum vegna þessa. Auk þess segi í grein 3.1 að ekki skuli kalla út rannsóknarlögreglumann af bakvakt nema brýn þörf sé á vegna rannsóknarhagsmuna. Í reglunum komi því skýrt fram að gæta skuli að ákvæðum í kjarasamningi LL og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
Í grein 2.4.5.5 og grein 2.4.4 í kjarasamningnum sé m.a. að finna meginregluna um 11 klst. samfellda lágmarkshvíld á hverjum sólarhring og vikulega lágmarkshvíld, þ.e. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma, sem geri samtals 35 klst. samfellda lágmarkshvíld í hverri viku. Áréttað skuli að það sé ekki sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði að þessi frídagur skuli tengjast helgi. Við tilteknar aðstæður sé heimilt að víkja frá meginreglunum um daglega og vikulega lágmarkshvíld, þ.e. jafnan með því að fresta hvíldinni þar til síðar. Í þeim tilvikum þar sem daglegri lágmarkshvíld sé frestað vegna þess að viðkomandi sé sérstaklega beðinn um að mæta til vinnu áður en daglegri lágmarkshvíld er náð skapist frítökuréttur, þ.e. 1,5 klst. í dagvinnu safnist upp fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist, sbr. ákvæði greinar 2.4.5.1 í kjarasamningnum. Samskonar frítökuréttur skapist einnig þegar unnið sé það lengi á undan hvíldardegi að ekki náist 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags, sbr. grein 2.4.5.5.
Samkvæmt grein 2.4.4 skuli lögreglumaður, á hverju sjö daga tímabili, hafa a.m.k. einn vikulegan hvíldardag, sem að svo miklu leyti sem því verði við komið skuli vera á sunnudegi. Hinum vikulega hvíldardegi sé heimilt að fresta í tvenns konar tilfellum, sbr. ákvæði 2. og 3. mgr. sömu greinar. Í fyrsta lagi má embætti með samkomulagi við lögreglumenn sína fresta vikulegum hvíldardegi þegar sérstakar ástæður geri slík frávik nauðsynleg. Í því tilviki þurfi embætti að afla samþykkis lögreglumanna áður en þeirri heimild sé beitt. Í öðru lagi má vinnuveitandi, ef sérstök þörf er á, skipuleggja vinnuna þannig að vikulegum hvíldardegi sé frestað samkvæmt heimild í kjarasamningi. Beiti embætti þeirri heimild þarf ekki að bera það undir lögreglumenn, enda grundvallast hún á sérstakri heimild í kjarasamningi. Mótmælt sé þeim skilningi stefnanda að skýra beri ákvæðið þröngri skýringu og með því sé mætt þörf, sem kunni að skapast vegna ófyrirséðra atvika. Áréttað sé í þessu samhengi að samkvæmt meginreglunni um stjórnunarrétt vinnuveitanda sé það vinnuveitandi sem fari með framkvæmd kjarasamnings, þar með talið ákvarðanir er varða vinnutímafyrirkomulagið. Við þá framkvæmd þurfi hann ekki að leita samþykkis eða hafa samráð við starfsmenn nema slíkt sé sérstaklega áskilið, en svo sé ekki í þeim samningi sem hér um ræði. Hins vegar eigi ákvæði lokamálsgreinar greinar 2.4.4 aðeins við í ófyrirséðum undantekningartilvikum þar sem ekki liggi fyrir samkomulag samkvæmt 2. mgr. greinarinnar og jafnframt að lögreglumaður hafi ekki hafnað að gera slíkt samkomulag svo sem segi í greininni.
Að framansögðu leiði að skipulag vinnutímans hjá LRH feli í sér að vikulegum hvíldardegi (sunnudegi) þess lögreglumanns sem sé á bakvakt sé frestað til næsta laugardags á grundvelli ákvæða í kjarasamningi. Af framansögðu sé jafnframt ljóst að viðurkenningarkrafan geti eingöngu átt við um þau tilvik þegar LRH þurfi að leita eftir samkomulagi við lögreglumann áður en vikulegum hvíldardegi hans er frestað, en ekki þegar LRH fresti vikulegum hvíldardegi samkvæmt ákvæði í kjarasamningi. En samkvæmt framansögðu líti stefndi svo á að heimilt sé að fresta vikulegum hvíldardegi án samþykkis starfsmanns með heimild í 3. mgr. grein 2.4.4 kjarasamningsins.
Verði ekki fallist á að framangreind sjónarmið leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda er á þeim byggt til stuðnings sýknu af einstökum kröfuliðum stefnanda, sbr. varakröfu stefnda um lækkun krafna stefnanda.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Úrlausnarefni máls þessa er þríþætt. Í fyrsta lagi er tekist á um þá kröfu stefnanda að viðurkennt verði að einhliða setning Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á reglum um vinnutíma rannsóknardeilda við embættið, er tóku gildi hinn 14. mars 2008, hafi verið andstæð grein 2.1.2 í kjarasamningi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 30. apríl 2005. Lögreglumönnum, sem starfa við umræddar deildir embættisins, beri ekki skylda til að fara eftir reglunum. Í öðru lagi er til úrlausnar sú krafa stefnanda að viðurkennt verði að skýra beri grein 2.6.13 í umræddum kjarasamningi þannig að lögreglumenn, sem náð hafa 55 ára aldri, skuli undanþegnir bakvaktarskyldu á næturvinnutíma. Í þriðja lagi er til meðferðar sú krafa stefnanda að viðurkennt verði að skerðist hvíld, t.d. vegna vinnu á hvíldardegi, skuli hún að fullu bætt og verði tveir hvíldardagar teknir saman á grundvelli 3. málsgreinar [2.4.4 gr.] kjarasamningsins eigi lögreglumaður rétt á 70 klst. samfelldri hvíld, sbr. 1. málsgrein greinar 2.4.4 og grein 2.4.5.5 í kjarasamningnum.
Stefnandi byggir á því varðandi fyrsta ágreiningsefnið að með setningu umræddra reglna um vinnutíma rannsóknardeilda, er tóku gildi hinn 14. mars 2008, hafi verið brotið gegn grein 2.1.2 í kjarasamningnum þar sem mælt sé svo fyrir að heimilt sé að haga vinnu með öðrum hætti en greinir í 2. kafla kjarasamningsins, sem fjallar um vinnutíma, með samkomulagi meirihluta starfsmanna er málið varðar og viðkomandi lögreglustjóra. Telur stefnandi að stefndi geti ekki, eins og kjarasamningsákvæðum er farið, skipað rannsóknarlögreglumönnum á bakvaktir án samráðs við þá og þannig ráðstafað frítíma þeirra. Bakvaktafyrirkomulag sé háð því að samkomulag hafi tekist um það með þeim hætti sem kveðið sé á um í kjarasamningi. Er því hafnað að umrædd ákvörðun embættisins rúmist innan stjórnunarréttar vinnuveitanda, sbr. og 17. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem takmarki vald forstöðumanns að því marki sem lög og kjarasamningar kveða á um. Af hálfu stefnda er vísað til þess að forstöðumaður hafi endanlegt ákvörðunarvald um vinnutíma starfsmanna að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa, sbr. greint ákvæði laga nr. 70/1996. Það þýði m.a. að ákvarðanir varðandi skipulag vinnutíma og yfirvinnu séu á valdi forstöðumanns, sbr. og stjórnunarrétt vinnuveitanda. Vísar stefndi til 2. kafla kjarasamningsins, sem fjallar um vinnutíma, þar sem m.a. sé gert ráð fyrir því að bakvaktir séu einn þáttur í vinnufyrirkomulagi lögreglumanna, sbr. grein 2.5 í kjarasamningnum. Fyrrgreint ákvæði greinar 2.1.2 í kjarasamningnum eigi því aðeins við ef haga eigi vinnu með öðrum hætti en tiltekið sé í 2. kafla kjarasamningsins. Fyrirkomulag samkvæmt greindum reglum, er tóku gildi hinn 14. mars 2008, feli í sér skipulagðar bakvaktir, eins og það hugtak sé skilgreint í grein 2.5.1 í kjarasamningnum, og sé því í samræmi við 17. gr. laga nr. 70/1996.
Ákvörðunarvald um framkvæmd vinnuskyldu innan umsamins vinnutíma, er felur hvorttveggja í sér, hvað vinna skal og hvenær, telst almennt til stjórnunarréttar vinnuveitanda, enda sé ekki um að ræða umsamin atriði varðandi vinnutilhögun og framkvæmd vinnu að öðru leyti. Þá ber að hafa í huga að félagsmenn stefnanda falla undir lög nr. 70/1996, eins og fram er komið, en samkvæmt 17. gr. þeirra laga ákvarðar forstöðumaður vinnutíma þeirra starfsmanna sem starfa hjá stofnun, að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 94/1986 skal í kjarasamningi kveðið á um föst laun, vinnutíma, þar með talið vinnuvökur, laun fyrir yfirvinnu, orlof, ferðakostnað, fæðisaðstöðu, fæðiskostnað, tryggingar, starfsmenntun og önnur atriði sem aðilar verða sammála um. Í lögum nr. 88/1971, um 40 stunda vinnuviku, er fjallað um vinnutíma og dagvinnutíma þar settar ófrávíkjanlegar skorður, sbr. 2. gr. laga þessara. Samkvæmt 3. gr. laganna er heimilt að semja um vaktavinnu og taka ákvæði laganna ekki til þess vinnufyrirkomulags að öðru leyti en því að ekki skal miða við fleiri en 40 klst. dagvinnu á viku að meðaltali. Í 2. kafla kjarasamnings aðila er fjallað um vinnutíma, þar á meðal um almenn atriði, dagvinnu, yfirvinnu, hvíldartíma, bakvaktir og vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma. Eins og fram er komið beinast aðfinnslur stefnanda að þeim þætti í reglum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem varða bakvaktafyrirkomulag, en undirkafli 2.5 í kjarasamningnum fjallar um bakvaktir. Í grein 2.5.1 er tekið fram að með bakvakt sé átt við að lögreglumaður sé ekki við störf en reiðubúinn til að sinna útkalli. Það teljist ekki bakvakt ef lögreglumaður dvelst á vinnustað samkvæmt beiðni yfirmanns. Að öðru leyti er í undirkafla þessum einkum fjallað um frítökurétt og greiðslur vegna bakvakta.
Umræddar reglur Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, er tóku gildi hinn 14. mars 2008, leystu af hólmi reglur um sama efni frá 14. febrúar 2007. Af hálfu stefnanda kemur fram að rannsóknarlögreglumenn hefðu fallist á að vinna eftir því bakvaktafyrirkomulagi, sem þær reglur höfðu að geyma, enda þótt þeir hefðu ekki samþykkt þær. Hinar nýju reglur feli í sér „óhagræði og verulega tekjuskerðingu“ frá því sem var samkvæmt eldri reglum. Hinar nýju reglur eru jafnt sem hinar eldri í þremur köflum. Í 1. kafla er fjallað um almennan vinnutíma, í 2. kafla um bakvaktir og í 3. kafla um útköll. Um bakvakt kemur fram að átt sé við að rannsóknarlögreglumenn séu ekki við störf en reiðubúnir til að sinna útköllum sem upp koma vegna rannsóknarbeiðna og rannsóknarþarfa. Síðan er fjallað um bakvaktalista, er á skuli vera allir rannsóknarlögreglumenn og lögreglufulltrúar rannsóknardeildar, og um undanþágur frá honum. Þá er fjallað um uppsetningu bakvaktaskipulags, með hvaða fyrirvara það skuli sett og tímalengd. Síðan er fjallað um vaktir, vaktábyrgð, skipti á vöktum o.þ.h., vakttíma, mönnun vakta og verksvið vakthafandi lögreglufulltrúa. Í 3. kafla um útköll er fjallað um mat á nauðsyn útkalla og skilyrði þar að lútandi, skráningu útkalla og niðurskipan í útkallsröð. Eru þessi ákvæði í flestu keimlík hinum eldri reglum, að mönnun bakvakta undanskilinni og því að í gildandi reglum eru nánari ákvæði um framkvæmd útkalla.
Taka verður undir það með stefnda að skýra verði grein 2.1.2 í kjarasamningnum svo að þargreindur áskilnaður um samkomulag við meirihluta starfsmanna, er málið varði, eigi því aðeins við ef haga á vinnu með öðrum hætti en greinir í 2. kafla kjarasamningsins um vinnutíma. Eins og fram er komið eru sérstök ákvæði um bakvaktir í undirkafla 2.5 í kjarasamningnum og þannig gert ráð fyrir því fyrirkomulagi í kjarasamningnum er geti verið reglubundnar og skipulagðar allt árið. Þykir því málið velta á því hvort með hinum umdeildu reglum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 14. mars 2008 hafi verið gengið lengra en lög og kjarasamningur leyfa. Þegar umræddar reglur eru virtar, sbr. framangreinda lýsingu á þeim, og fyrrgreint ákvörðunarvald vinnuveitanda um framkvæmd vinnunnar samkvæmt almennum stjórnunarrétti er haft í huga, sbr. og 17. gr. laga nr. 70/1996, verður ekki talið að setning Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á umræddum reglum hafi brotið í bága við grein 2.1.2 í kjarasamningi aðila. Ber því að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.
Víkur þá að öðru ágreiningsefninu. Í grein 2.6.13 í kjarasamningi aðila er mælt svo fyrir að lögreglumaður, sem vinnur vaktavinnu, skuli undanþeginn næturvaktaskyldu þegar hann hefur náð 55 ára aldri. Notkun þessarar undanþáguheimildar hafi ekki í för með sér lækkun á launaflokki viðkomandi lögreglumanns. Aðila greinir á um hvort ákvæði þetta takmarkist við vaktavinnu, eins og stefndi telur, eða taki einnig til bakvakta þannig að þegar greindum aldursmörkum er náð sé lögreglumaður undanþeginn bakvaktarskyldu á næturvinnutíma svo sem stefnandi heldur fram. Af hálfu stefnda er vísað til þess að um bakvaktir sé fjallað í undirkafla 2.5 í kjarasamningnum, en um vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma í undirkafla 2.6, en þar sé greint ákvæði að finna. Um sé að ræða undanþáguákvæði sem beri að skýra þröngt, en ekkert sambærilegt ákvæði sé í undirkafla 2.5. Sé því eðlilegt að skýra ákvæðið svo að lögreglumanni, sem náð hefur 55 ára aldri og er undanþeginn næturvaktaskyldu í vaktavinnu, beri að sinna bakvöktum samkvæmt undirkafla 2.5 ef hann er dagvinnumaður. Þegar litið er til orðalags greinar 2.6.13 og þess að greinin er í þeim kafla kjarasamningsins, sem fjallar um vaktavinnu og afbrigðilegan vinnutíma, og engu hliðstæðu ákvæði er fyrir að fara í undirkafla 2.5, verður að fallast á sjónarmið stefnda hvað þennan þátt málsins varðar. Þá þykir eðlismunur vera á því að gegna vaktskyldu á næturvakt eða sinna bakvaktarskyldu á næturvinnutíma. Ber því að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.
Þriðja ágreiningsefnið, sem er til efnismeðferðar, er að nokkru samofið kröfuliðum 3.a og 3.c í stefnu sem sættu frávísun með úrskurði Félagsdóms frá 20. október 2009. Verður að telja að til úrlausnar hér sé sú krafa stefnanda að „verði tveir hvíldardagar teknir saman á grundvelli 3. málsgreinar eigi lögreglumaður rétt á 70 klst. samfelldri hvíld, sbr. grein 2.4.4, 1. málsgrein, og grein 2.4.5.5.“ Vegna frávísunar greindra kröfuliða 3.a og 3.c er ekki til úrlausnar hvort sérstök mörk séu sett heimild lögreglustjóra til frestunar hvíldartíma.
Af hálfu stefnanda kemur fram að umrædd krafa sé sett fram til að taka af tvímæli. Fái lögreglumaður ekki vikulegan hvíldardag af einhverjum ástæðum beri að bæta honum það að fullu samkvæmt almennum reglum og kjarasamningsákvæðum sem vísað sé til. Við þær aðstæður að tveir hvíldardagar eru teknir saman vegna ákvörðunar á grundvelli 3. mgr. greinar 2.4.4 beri starfsmanni 70 klst. samfelld hvíld. Er vísað til ákvæða umræddrar greinar 2.4.4 svo og greinar 2.4.5.5 og enn fremur til „Leiðbeininga samráðsnefndar um skipulag vinnutíma“ frá 16. febrúar 2001. Bendir stefnandi á að greind ákvæði kjarasamnings og leiðbeininga mæli fyrir um 35 klst. samfellda hvíld á viku og séu tveir hvíldardagar teknir saman þýði það 70 klst. samfellda hvíld, ella fáist skert hvíld ekki bætt. Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekki fái staðist að miða við 70 klst. samfellda hvíld og m.a. bent á að í undantekningum greinar 2.4.4 sé ekki tekið fram um 35 klst. samfellda hvíld.
Í 1. mgr. greinar 2.4.4 er að finna meginregluna um vikulegan hvíldardag. Þar er tekið fram að á hverju sjö daga tímabili skuli lögreglumaður fá a.m.k. einn vikulegan hvíldardag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skuli við það miðað að vikan hefjist á mánudegi. Eigi lögreglumaður þannig að fá 35 klst. samfellda hvíld einu sinni í viku. Samkvæmt 2. og 3. mgr. greinar 2.4.4 er heimilt að fresta hinum vikulega hvíldardegi í tvenns konar tilfellum. Í fyrsta lagi má embætti, með samkomulagi við lögreglumenn sína, fresta vikulegum hvíldardegi, þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg, þannig að í stað vikulegs hvíldardags komi tveir samfelldir hvíldardagar á hverjum tveimur vikum, sbr. 2. mgr. greinar 2.4.4. Í öðru skal haga töku hvíldardaga þannig að teknir séu tveir hvíldardagar saman, sé sérstök þörf á að skipuleggja vinnu þannig að vikulegum hvíldardegi sé frestað, sbr. 3. mgr. greinar 2.4.4. Varðar deiluefnið síðastgreindar aðstæður, en eins og fram er komið er ekki til úrlausnar hvort einhver takmörk séu sett notkun þessarar heimildar. Þá er þess að geta að í greinum 2.4.5.1 og 2.4.5.5 er mælt fyrir um frítökurétt, annars vegar þegar svo stendur á að lögreglumaður er sérstaklega beðinn um að mæta til vinnu áður en daglegri lágmarkshvíld er náð og hins vegar þegar unnið er það lengi á undan hvíldardegi að ekki næst 11 stunda hvíld miðað við venjubundið upphaf vinnudags eða vaktar.
Samkvæmt meginreglum vinnutímasamnings frá 23. janúar 1997 milli aðila hins opinbera vinnumarkaðar, sem er hluti kjarasamnings aðila, sbr. grein 2.4.1, sbr. og greindar leiðbeiningar samráðsnefndar um skipulag vinnutíma, skal dagleg samfelld lágmarkshvíld vera 11 stundir á hverju 24 klst. tímabili. Þá skal veittur einn hvíldardagur í viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, þ.e. 35 klst. samfelld hvíld. Veita skal samsvarandi hvíld síðar ef dagleg eða vikuleg lágmarkshvíld hefur verið skert. Þá skapast frítökuréttur þegar dagleg lágmarkshvíld er skert. Þessar reglur endurspeglast í kjarasamningi aðila, sbr. 1. mgr. greinar 2.4.2, 1. mgr. greinar 2.4.4 og í ákvæðum um frítökurétt og leiðréttingu skertrar hvíldar, sbr. m.a. ákvæði í lið 2.4.5 í undirkafla 2.4 í kjarasamningnum.
Úrlausn þessa þáttar málsins þykir velta á því hvort dagleg samfelld hvíld hafi skerst við þá tilhögun að tveir hvíldardagar eru teknir saman. Af hálfu stefnanda hefur komið fram að ef samfelld hvíld er ákveðin 59 klst. (24 + 24 + 11) við þessar aðstæður sé fyrir að fara óbættri skertri hvíld, enda sé hvíldartíminn þá styttri en leiðir af greinum 2.4.4 og 2.4.5.5 í kjarasamningnum og greindum vinnutímareglum. Ekki verður séð að síðastgreint ákvæði hafi hér þýðingu, enda er ekki um að ræða aðstæður er falla undir ákvæði þeirrar greinar um leiðréttingu á skertri lágmarkshvíld. Þá verður ekki séð að rök standi til þess að túlka 1. mgr. greinar 2.4.4 með „kúmúlatívum“ hætti við þær aðstæður að tveir hvíldardagar eru teknir saman. Verður ekki annað séð en að reglna um daglegan lágmarkshvíldartíma sé gætt samkvæmt skilningi stefnda. Að svo vöxnu máli verður að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Landssambands lögreglumanna, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Kristján Torfason
Bergþóra Ingólfsdóttir