Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2019 Forsætisráðuneytið

805/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019

Úrskurður

Hinn 3. júlí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 805/2019 í máli ÚNU 18110008.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. nóvember 2018, kærði A ákvörðun sveitarstjórnar Grímsness- og Grafningshrepps um synjun á beiðni, dags. 8. ágúst 2018, um aðgang að upplýsingum um álögð fasteignagjöld, annars vegar fyrir frístundahús og hins vegar fyrir lögbýli fyrir árin 2016, 2017 og 2018.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 8. október 2018, kemur fram að beiðnin lúti ekki að tilteknu máli auk þess sem umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi. Í kæru kemur fram að kærandi telji sveitarfélagið hafa synjað beiðninni án nokkurs rökstuðnings.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, var Grímsnes- og Grafningshreppi kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að.

Í umsögn sveitarfélagsins, dags. 23. nóvember 2018, kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga sé opinberum aðilum ekki skylt í tilvikum sem þessum að útbúa ný skjöl eða önnur gögn. Álagningarseðlar sveitarfélagsins séu opinberir vegna framangreindra ára. Umsögn sveitarfélagsins fylgdi afrit af álagningarreglum fasteignagjalda árin 2016-2018.

Umsögnin var kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. nóvember 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 11. desember 2018, er tekið fram að kærandi sé einungis að biðja um heildartölu gjalda, annars vegar fyrir frístundahús og hins vegar lögbýli.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um álögð fasteignagjöld í Grímsnes- og Grafningshreppi, annars vegar fyrir frístundahús og hins vegar fyrir lögbýli fyrir árin 2016-2018. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna, en það á við þegar gögn eru afhent að hluta ef takmarkanir eiga við um aðra hluta þeirra. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ljóst að ýmsar upplýsingar um álögð fasteignagjöld hljóti að vera fyrirliggjandi í vörslum sveitarfélagsins. Fasteignaskattur er einn tekjustofna sveitarfélaga samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga og gefa sveitarfélög út greiðsluseðla til eigenda fasteigna á grundvelli laganna, sbr. einnig reglugerð um fasteignaskatt nr. 1160/2005. Þá birtast upplýsingar um innheimtan fasteignaskatt í ársreikningum sveitarfélaga, þar á meðal í ársreikningum Grímsnes- og Grafningshrepps. Í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2017 kemur t.d. fram að tekjur sveitarsjóðs af fasteignasköttum hafi numið 424.128.000 kr. en ársreikningur fyrir árið 2018 hefur ekki verið birtur á vef sveitarfélagsins.

Samkvæmt framangreindu ber að skilja hina kærðu ákvörðun á þann hátt að upplýsingarnar liggi ekki fyrir sundurliðaðar á þann hátt sem kærandi óskaði eftir með beiðni sinni, þ.e. annars vegar fyrir frístundahús og hins vegar fyrir lögbýli. Ekki er ástæða til að rengja þá fullyrðingu sveitarfélagsins að ekki liggi fyrir sundurliðaðar upplýsingar um álagðan fasteignaskatt fyrir árin 2016-2018 en það athugast að eðlilegt hefði verið að leiðbeina kæranda og upplýsa hann um að upplýsingar um heildartekjur sveitarfélagsins af fasteignasköttum fyrir fyrstu tvö árin hafi verið birtar opinberlega. Þá athugast einnig að meðferð beiðni kæranda var ekki í samræmi við málshraðareglu 1. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, en tveir mánuðir liðu frá því að beiðni barst og þar til henni var svarað án þess að kæranda hafi verið skýrt frá ástæðum tafa eða hvenær ákvörðunar væri að vænta, eins og áskilið er í ákvæðinu.

Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. upplýsingalaga að ræða. Því er óhjákvæmilegt að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 6. nóvember 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta