Hoppa yfir valmynd
1. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

26. maí - 1. júní

Fréttapistill vikunnar
26. maí - 1. júní 2001



Stofnuð nefnd til að gera tillögur um staðsetningu og uppbyggingu LSH

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur skipað þriggja manna nefnd til að fara yfir og leggja fram tillögur um staðsetningu og hvernig standa beri að uppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss. Í nefndinni eiga sæti þau Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og er hún formaður nefndarinnar, Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala - Háskólasjúkrahúss og Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands. Ritarar nefndarinnar eru Ragnheiður Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri við Landspítala - háskólasjúkrahús. Nefndinni er ætlað að skila heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra greinargerð sinni fyrir lok nóvember 2001.

Samið um árangursstjórnun heilbrigðisstofnana
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, undirritaði í vikunni samning um árangursstjórnun við Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar. Hafa þá verið undirritaðir 13 samningar um árangursstjórnun við heilbrigðisstofnanir. Ráðherra undirritaði einnig í vikunni þjónustusamning við St. Franciskusspítala í Stykkishólmi. Þjónustusamningar hafa verið gerðir við þrettán aðrar stofnanir sem veita þjónustu á sviði öldrunar, endurhæfingar, heilsugæslu o.fl. Í samningum sem þessum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og viðkomandi stofnunar er lúta að starfssviði, verkefnum, rekstrarumfangi, söfnun upplýsinga, samskiptum, áætlanagerð og mati á árangri af starfsemi stofnunarinnar. Með gerð áætlana sem samningurinn kveður á um er mótuð stefna um þjónustu og rekstur til næstu ára. Sýna skal fram á árangur af starfseminni í ársskýrslu með samanburði við sett markmið.

Fræðslubæklingur um líffæragjafir
Landlæknisembættið hefur gefið út fræðslubækling um líffæragjafir. Auk fræðslu um líffæragjafir eru í bæklingnum s.k. líffæragjafakort á stærð við kreditkort sem hægt er að fylla út og geyma í veski. Bæklinginn er hægt að nálgast í afgreiðslu embættisins, á skrifstofum Tryggingastofnunar ríkisins víða um land og í móttökum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Líffæraflutningar eru ekki framkvæmdir á íslenskum sjúkrahúsum og hefur því verið samið við erlend sjúkrahús um aðgerðir af þessu tagi í mörg ár. Undanfarin ár hefur verið í gildi samningur við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn um líffæraflutninga og árlega hafa að jafnaði 8 - 10 Íslendingar gengist undir aðgerð vegna líffæraflutninga í Danmörku. Samkvæmt lögum nr. 16/1991 um brottnám líffæra getur hver sem orðinn er 18 ára gefið líffæri eða lífræn efni til læknismeðferðar annars einstaklings.

Nýr upplýsingavefur Tryggingastofnunar ríkisins á Netinu
Heimasíða Tryggingastofnunar ríkisins hefur tekið stakkaskiptum eftir að nýr og aðgengilegur upplýsingavefur var tekinn í notkun vikunni. Þar á að vera auðvelt að finna allar upplýsingar um almannatryggingar, sækja eyðublöð af ýmsu tagi, skoða útgefna bæklinga stofnunarinnar o.m.fl. Slóð heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins er óbreytt, þótt útlit og uppsetning efnis sé með öðru sniði en áður.
http://www.tr.is



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
1. júní 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta