Hoppa yfir valmynd
29. júní 2021 Forsætisráðuneytið

1013/2021. Úrskurður frá 26. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 26. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð
nr. 1013/2021 í máli ÚNU 20120022.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. desember 2020, kærði A, blaðamaður hjá Viðskiptablaðinu, synjun embættis ríkislögmanns á beiðni um aðgang að gögnum.

Með erindi til ríkislögmanns, dags. 8. desember 2020, óskaði kærandi eftir afriti af stefnu í málum sem fyrirtækið Nitro Sport ehf. höfðaði á hendur íslenska ríkinu. Í svari ríkislögmanns, dags. 15. desember 2020, kemur fram að ríkislögmaður hafi óskað eftir afstöðu stefnanda til afhendingar stefnunnar og að stefnandi sé mótfallinn því að afrit hennar verði afhent. Ríkislögmaður tekur fram að í stefnunni sé gerð krafa um ógildingu á úrskurði yfirskattanefndar um ákvörðun aðflutningsgjalda á ökutæki sem stefndandi hafi flutt inn. Úrskurðurinn hafi verið birtur á heimasíðu nefndarinnar en nafn félagsins verið afmáð.

Þær upplýsingar sem fram komi í stefnu í máli E-3021/2020 séu að miklu leyti þær sömu og þær upplýsingar sem fram komi í framangreindum úrskurði yfirskattanefndar. Um sé að ræða upplýsingar um innflutning stefnanda á ökutækjum sem séu til þess fallnar að gefa mynd af rekstrar- og samkeppnisstöðu félagsins. Með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga sé það afstaða embættis ríkislögmanns að óheimilt sé að veita aðgang að slíkum upplýsingum. Það er einnig afstaða embættisins að ekki sé unnt að veita aðgang að hluta skjalsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga enda komi þær upplýsingar sem njóta verndar 9. gr. upplýsingalaga svo víða fram í skjalinu. Þá kemur einnig fram að það sé afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um gögn sem lögð séu fram í dómi og séu í vörslu dómstóla, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Þá er tekið fram að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 928/2020 sem varði aðgang að stefnum í málum þriggja félaga varði ekki sambærilegar aðstæður og í þessu máli. Úrskurðir yfirskattanefndar í þeim málum hafi verið birtir en nöfn félaganna afmáð. Hins vegar hafi nöfn félaganna verið gerð opinber með úrskurðum Landsréttar og upplýsingarnar því í reynd gerðar opinberar með lögmætum hætti. Að því leytinu sé mál þetta ólíkt.

Í kæru kemur fram að kærandi vísi til sömu raka og teflt var fram af hans hálfu í tengslum við fyrri kærur hans vegna afgreiðslu ríkislögmanns, þ.e. í málum nr. 886/2020 og 928/2020. Af því má ráða að kærandi telji afstöðu ríkislögmanns ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga. Ríkislögmaður hafi látið nægja að leita afstöðu eigenda félagsins en ekki metið hvort tilefni væri til að afhenda hluta af stefnunum. Kæranda þyki ríkislögmaður því ekki hafa afgreitt erindið með fullnægjandi hætti og telji rétt að ríkislögmanni verði gert að afgreiða erindið aftur og taka efnislega afstöðu til þess.

Málsmeðferð

1.
Kæran var kynnt ríkislögmanni með bréfi, dags. 19. desember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ríkislögmanns, dags. 13. janúar 2021, segir að ákvörðun um að synja beiðni kæranda byggi fyrst og fremst á 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga þar sem um sé að ræða upplýsingar um viðskipta- og fjárhagsmuni sem falli þar undir. Þá liggi fyrir að forsvarsmenn stefnda leggist gegn afhendingu stefnunnar. Þá er vísað til þess að úrskurður yfirskattanefndar sem stefndi krefst ógildingar á hafi verið birtur á vef yfirskattanefndar en nöfn félagsins verið afmáð úr úrskurðinum. Þær upplýsingar sem fram komi í stefnu séu að miklu leyti þær sömu og þær upplýsingar sem fram komi í úrskurði yfirskattanefndar. Um sé að ræða upplýsingar um innflutning Nitro Sport ehf. á ökutækjum sem séu til þess fallnar að gefa mynd af rekstrar og samkeppnisstöðu félagsins og njóti verndar 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Þá sé það afstaða ríkislögmanns að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 928/2020 sem varði aðgang að stefnum í málum þriggja félaga varði ekki sambærilegar aðstæður og í þessu máli. Úrskurðir yfirskattanefndar í þeim málum hafi verið birtir en nöfn félaganna afmáð. Hins vegar hafi nöfn félaganna verið gerð opinber með úrskurðum Landsréttar og upplýsingarnar því í reynd gerðar opinberar með lögmætum hætti. Þá hafi ríkislögmaður ekki talið unnt að veita aðgang að skjalinu að hluta enda komi upplýsingar sem njóti verndar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga fram svo víða í skjalinu. Loks er fyrri afstaða ríkislögmanns áréttuð þess efnis að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem séu hluti af málskjölum í dómsmáli og vísað um það til 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.

Umsögn ríkislögmanns var kynnt kæranda með bréfi, dags. 18. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum, dags. 20. janúar 2021, bendir kærandi á að úrskurður í máli stefnanda hafi verið birtur á vef yfirskattanefndar. Af heimasíðu félagsins megi ráða að stefndi flytji inn og selji m.a. mótorhjól, fjórhjól og tengdan varning. Ekki þurfi annað en að slá inn orðið fjórhjól á vefsíðu yfirskattanefndar til að sjá að fjöldi mála sem varði tollflokkun slíkra gripa hafi ratað til yfirskattanefndar. Í því sambandi telur kærandi upp málsnúmer 11 slíkra úrskurða sem birtir eru á vef nefndarinnar. Bent er á að í úrskurðum yfirskattanefndar sé heiti umræddra tegunda getið og því þurfi ekki langan samanburð á úrskurðunum og vef stefnda til að finna út hvaða úrskurður eigi við um stefnda. Kærandi áréttar einnig að 9. gr. upplýsingalaga sé undantekning sem túlka beri þröngt. Með vísan til markmiða upplýsingalaga, og laga um fjölmiðla nr. 38/2011, og hlutverks fjölmiðla samkvæmt þeim lögum, telji kærandi að við mat á því hvort afhenda beri umrædda stefnu beri að veita þeim sjónarmiðum aukið vægi við mat á því hvort upplýsingar í stefnunni falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Þá dregur kærandi í efa að afmá þurfi svo stóran hluta hennar að unnt sé að synjað aðgang að skjalinu í heild sinni.

Niðurstaða

1.
Í málinu er deilt um rétt kæranda, blaðamanns, til aðgangs að stefnu í máli sem félagið Nitro Sport ehf. höfðaði á hendur íslenska ríkinu. Stefnan var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 12. maí 2020.

Í umsögn ríkislögmanns vegna kærunnar er áréttuð fyrri afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem séu hluti af málsskjölum í dómsmáli, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Um aðgang að slíkum gögnum fari samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin taki til dómstóla og dómstólasýslunnar að frátöldum ákvæðum V.-VII. kafla. Lögin gildi þó ekki um gögn í vörslu þeirra um meðferð einstakra dómsmála og endurrit úr dómabók, gerðabók og þingbók.

Þrátt fyrir að ekki verði séð að synjun ríkislögmanns í máli þessu sé beinlínis reist á þessari afstöðu telur úrskurðarnefndin engu að síður rétt að vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 885/2020, 886/2020, 928/2020 og 1007/2021 um að ekki standi rök til þess að telja skjöl í vörslum stjórnvalda eða aðila sem falla undir 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga undanþegin gildissviði laganna þegar af þeirri ástæðu að þau hafi verið lögð fram í dómsmáli. Í úrskurðunum er vakin athygli á því að ef fallist væri á gagnstæða túlkun myndi það hafa í för með sér að réttur almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum en dómstólum sem féllu undir upplýsingalög yrði í reynd óvirkur um leið og sömu gögn yrðu lögð fyrir dóm í einkamáli. Í dómi Hæstaréttar frá 15. apríl sl. í máli nr. 7/2021 er auk þess áréttað
að upplýsingalög mæli um sjálfstæðan rétt almennings til aðgangs að gögnum sem liggja fyrir hjá stjórnvöldum eða öðrum sem lögin taka til og varða tiltekið mál og að reglur réttarfars, í því tilviki um öflun skjala undir rekstri dómsmáls, girði ekki fyrir að aðili geti nýtt sér rétt til öflunar gagna eða upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga.

Með vísan til alls framangreinds verður leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum er greinir í 6.-10. gr. laganna.

2.
Ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni kæranda er fyrst og fremst reist á því að stefnan innihaldi upplýsingar sem séu undanþegnar upplýsingarétti þar sem þær varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stefnanda, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Stefnandi í málinu sé auk þess mótfallinn afhendingu stefnunnar.

Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Ákvæðið felur í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga og ber því að túlka það þröngri lögskýringu.

Í athugasemdum greinargerðar er fylgdu frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir m.a.:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Í athugasemdum við ákvæðið segir jafnframt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.

Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við það mat verður að hafa í huga það meginmarkmið laganna að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni. Þá er tiltekið í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að ef ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.

Rétt er að taka fram að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál horft til þess að ekki sé almennt hægt að líta svo á að upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar með lögmætum hætti séu upplýsingar um einkamálefni sem óheimilt sé að greina frá, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 11. september 2017 í máli nr. 704/2017, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis frá 9. febrúar 2009 í máli nr. 5142/2007. Ljóst er að úrskurður yfirskattanefndar sem krafist er ógildingar á í umræddri stefnu hefur verið birtur á vef yfirskattanefndar. Í úrskurðinum er öllum málsatvikum lýst, ákvörðunum ríkisskattstjóra, sem og kröfum stefnanda og málsástæðum. Nafn stefnanda er hins vegar afmáð í hinum birta úrskurði. Eins og vísað er til í umsögn ríkislögmanns hefur nafn stefnanda ekki verið birt á vettvangi dómstóla enda liggur enn ekki fyrir dómur í málinu. Þannig hafa ekki allar upplýsingar í stefnunni verið birtar opinberlega líkt og háttaði til í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 928/2020 og vísað er til í umsögn ríkislögmanns. Gilda því ekki sömu sjónarmið varðandi stefnuna sem um er deilt í þessu máli. Verður því að leggja mat á efni stefnunnar með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga.

Þegar tekin er afstaða til þess hvort hagsmunir einkaaðila sem stefnt hefur íslenska ríkinu af því að upplýsingum um málatilbúnað hanssé haldið leyndum vegi þyngra en sjónarmið um upplýsingarétt almennings verður að hafa í huga að stefnan sem kærandi hefur óskað eftir hefur að geyma kröfur og málatilbúnað sem varða lögmæti ákvarðana skattyfirvalda.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið stefnuna sem ríkislögmaður afhenti nefndinni. Í stefnunni er krafist ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 187/2018 þar sem staðfestur var úrskurður tollstjóra frá 7. desember 2017 um að hafna kröfum stefnanda um leiðréttingu á álagningu aðflutningsgjalda vegna innflutnings á 20 ökutækjum stefnanda. Þá er jafnframt krafist endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem stefnandi greiddi í aðflutningsgjöld vegna innflutnings ökutækjanna. Dómsmálið sem um ræðir varðar þannig ágreining um lögmæti ákvarðana skattyfirvalda sem snúa að tollflokkun innflutnings ökutækja stefnanda. Í stefnunni koma fram upplýsingar um dómkröfur, málsatvik, málsástæður og helstu rök fyrir dómkröfunum. Varðar málatilbúnaður stefnanda í grunninn það í hvaða vörulið tollskrár beri að flokka umrædd ökutæki sem álagning aðflutningsgjaldanna snýr að. Þar er hins vegar ekki að finna upplýsingar sem varða fjárhagsstöðu fyrirtækisins.

Í umsögn ríkislögmanns er synjun embættisins fyrst og fremst rökstudd með vísan til þess að upplýsingar um innflutning stefnanda á ökutækjum séu til þess fallnar að gefa mynd af rekstrar og samkeppnisstöðu félagsins. Að öðru leyti er ekki rökstutt hvernig þær upplýsingar sem fram koma í stefnunni séu þess eðlis að þær geti valdið stefnanda tjóni í skilningi 9. gr. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að slíkar upplýsingar verði felldar undir 9. gr. upplýsingalaga einar og sér. Úrskurðarnefndin fær þannig ekki séð að í stefnunni sé að finna upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stefnanda sem til þess eru fallnar að valda stefnanda tjóni verði kæranda veittur aðgangur að þeim. Í öllu falli verður að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu í ljósi meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Með hliðsjón af framangreindu ber að veita kæranda aðgang að umræddri stefnu hjá ríkislögmanni.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að hagsmunir almennings af aðgangi að upplýsingum um málatilbúnað einkaaðila á hendur íslenska ríkinu vegi í þessu tilviki þyngra en hagsmunir þeirra síðarnefndu af því að þær fari leynt. Verður því ríkislögmanni gert að veita kæranda aðgang að stefnunum.

Úrskurðarorð:

Embætti ríkislögmanns er skylt að veita kæranda, A, blaðamanni hjá Viðskiptablaðinu aðgang að stefnu í máli Nitro Sport ehf. gegn íslenska ríkinu í máli E-3021/2020.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta