286 milljónum króna úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 286 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til verkefna sem ætlað er að bætta aðbúnað aldraðra og auka öryggi og gæði öldrunarþjónustu. Hæsta fjárhæðin, samtals 202 milljónir króna, rennur til uppbyggingar og endurbóta á hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli.
Ráðherra staðfesti með ákvörðun sinni tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra um úthlutun úr sjóðnum árið 2015. Á Kirkjuhvoli verður ráðist í byggingaframkvæmdir sem rúma eiga tólf hjúkrunarrými, eldhús, matsal, starfsmannaaðstöðu og fleira. Framkvæmdirnar munu ekki leiða til fjölgunar rýma heldur er þeim ætlað að bæta aðbúnað og aðstæður heimilismanna. Óskað var eftir umsögn Framkvæmdasýslu ríkisins vegna fyrirhugaðra framkvæmda og var það mat stofnunarinnar að nýframkvæmdin feli í sér góða lausn sem falli vel að viðmiðum velferðarráðuneytisins um rekstur hjúkrunarheimila, stærðir og innra skipulag.
Næsthæsta framlagið úr Framkvæmdasjóði aldraðra að þessu sinni, 22 milljónir króna, fær dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól í Grundarfirði vegna viðbyggingar fyrir sex hjúkrunarrými til að bæta aðbúnað íbúa heimilisins til samræmis við viðmið velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Þriðja hæsta framlagið, 11 milljónir króna, fer til endurbóta á baðherbergjum á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík.
Alls bárust 38 umsóknir um framlög til fjölbreyttra verkefna úr öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Helmingi umsóknanna var hafnað, meðal annars af því að þær uppfylltu ekki skilyrði reglugerðar um Framkvæmdasjóð aldraðra fyrir úthlutun eða vegna þess að frekari undirbúningur er nauðsynlegur áður en mögulegt er að taka afstöðu til umsóknanna og veita fjármunum til framkvæmda.