Endurskoðuð tekju- og eignamörk vegna almennra íbúða og lánveitinga Íbúðalánasjóðs til leiguíbúða
Félags- og barnamálaráðherra hefur gefið út reglugerð sem felur í sér endurskoðuð tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu. Tekju- og eignamörkin gilda einnig um leigjendur íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur veitt lán til og eingöngu eru ætlaðar tilgreindum hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, og reglugerð nr. 1042/2013, um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum.
Lög um almennar íbúðir tóku gildi 15. júní 2016 en markmið laganna er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna. Í því skyni hafa ríki og sveitarfélög veitt stofnframlög á grundvelli laganna til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda.
Tekjumörk
Samkvæmt uppfærðum tekjumörkum skulu árstekjur leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu ekki nema hærri fjárhæð en 5.345.000 kr. (í stað 5.105.000 kr. áður) fyrir hvern einstakling en 7.484.000 kr. (í stað 7.148.000 kr. áður) fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætast 1.336.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem býr á heimilinu (í stað 1.276.000 kr. áður).
Eignamörk
Samanlögð heildareign leigjenda almennra íbúða að frádregnum heildarskuldum við upphaf leigu samkvæmt skattframtali síðasta árs, staðfestu af ríkisskattstjóra, skal ekki nema hærri fjárhæð en 5.769.000 kr. (í stað 5.510.000 kr. áður).