Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2011

Miðvikudaginn 13. febrúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 16/2011:

 

 

Endurupptaka máls

A

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefur ákveðið að endurupptaka mál nr. 16/2011 en aðili málsins er A, hér eftir nefnd kærandi.

 

Kærandi flutti í B þann 9. september 2010 ásamt eiginmanni sínum. Lögheimilisflutningur átti sér stað þann 14. september 2010. Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Sveitarfélaginu Álftanesi og með bréfi velferðar- og skólasviðs Álftaness, dags. 28. janúar 2011, var samþykkt að kærandi fengi greiddar húsaleigubætur að fjárhæð 1.060 kr. á mánuði. Kærandi skaut ákvörðuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 15. mars 2011, og var hin kærða ákvörðun staðfest með úrskurði nefndarinnar, dags. 25. maí 2011.

 

Samkvæmt gögnum málsins var fjárhæð húsaleigubóta hjá Álftanesi ákvörðuð með aðstoð reiknivélar á vef velferðarráðuneytisins og var lagt til grundvallar að tekjur kæranda og manns hennar væru samtals 3.694.000 kr. Í málinu liggja fyrir skattframtöl kæranda og manns hennar vegna tekna ársins 2009 og kemur þar fram að tekjur þeirra beggja eru eingöngu greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, kemur fram að með tekjum í lögunum sé átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Reikna skuli saman samanlagðar tekjur allra þeirra sem lögheimili eigi eða hafi skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði og séu þá tekjur barna umsækjanda sem eru 20 ára og eldri meðtaldar. Þá segir í 2. mgr. 9. gr. að bætur almannatrygginga og húsaleigubætur fyrra árs teljast ekki til tekna skv. 1. mgr. Enn fremur kemur fram að elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr séreignarlífeyrissjóðum á grundvelli laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum, teljist ekki til tekna skv. 1. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur. Úrskurðarnefndin bendir á að greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins teljast tvímælalaust til bóta almannatrygginga og teljast því ekki til tekna skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/1997. Sveitarfélaginu var því óheimilt að telja umræddar bætur almannatrygginga til tekna kæranda við afgreiðslu umsóknar hennar um húsaleigubætur.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að ákvörðun velferðar- og skólasviðs Álftaness frá 28. janúar 2011 var ekki skotið til félagsmálanefndar Álftaness og lá því ekki fyrir kæranleg ákvörðun þegar kveðinn var upp úrskurður í máli kæranda. Kæruna hefði því réttilega átt að framsenda til félagsmálanefndar Álftaness. Þann 1. janúar 2013 sameinuðust Sveitarfélagið Álftanes og Garðabær undir nafni Garðabæjar. Að framangreindu virtu verður úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála frá 25. maí 2011 í máli nr. 16/2011 felldur úr gildi og málinu vísað til fjölskyldunefndar Garðabæjar með framangreindum athugasemdum.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála frá 25. maí 2011 í máli nr. 16/2011 er felldur úr gildi og máli A, vísað til fjölskyldunefndar Garðabæjar.

 

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta