Hoppa yfir valmynd
1. desember 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 493/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 493/2021

Miðvikudaginn 1. desember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 22. september 20201, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. september 2021 um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 8. júlí 2021 sótti kærandi um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. september 2021, var umsókn kæranda um örorkulífeyri samþykkt fyrir tímabilið 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2025. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. september 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2021. Með bréfi, dags. 24. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. október 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorku afturvirkt eins og sótt hafi verið um. Svo virðist sem kæranda sé refsað fyrir að hafa reynt endurhæfingu í nokkra mánuði áður en úrskurðað hafi verið um að hún hafi verið fullreynd en í framhaldinu hafi hún sótt um örorku. Áður en kærandi hafi byrjað í endurhæfingu hafi hún reynt að sækja um örorku sem hafi verið hafnað.

Þess sé óskað að mál þetta verði skoðað og væntanlega leiðrétt. Kærandi vilji koma því að að hún hafði ekki leitað sé lækninga árum saman og þar af leiðandi hafi hún aldrei þegið bætur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram kærð sé ákvörðun um að greiða ekki örorkulífeyri með afturvirkum hætti. Á grundvelli læknisfræðilegra gagna hafi gildistími örorkumats kæranda verið ákveðinn frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2025. Krafist sé staðfestingar á hinni kærðu ákvörðun.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar stofnist réttur til bóta frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Í 4. mgr. 53. gr. segi að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Við örorkumat Tryggingastofnunar hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 8. júlí 2021, læknisvottorð, dags. 2. júlí 2021, læknisvottorð, dags. 13. júlí 2021, spurningalisti, dags. 19. júlí 2021, og skoðunarskýrsla, dags. 4. september 2021.

Með bréfi, dags. 4. september 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um örorkulífeyri hefði verið samþykkt með vísan til þess að læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri væru uppfyllt. Gildistími örorkumatsins hafi verið ákveðinn frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2025.

Að beiðni kæranda hafi verið veittur rökstuðningur að því er varði upphafsdag örorkumats með bréfi, dags. 17. september 2021. Þar segi að upphaf greiðslu örorkulífeyris hafi verið miðað við lok greiðslu endurhæfingarlífeyris sem hafi verið 31. júlí 2021.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi verið á endurhæfingarlífeyri í samtals átta mánuði, á tímabilinu 1. desember 2020 til 31. júlí 2021. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 5. maí 2021, sé ranglega skráð að hún hafi verið á endurhæfingarlífeyri í níu mánuði.

Umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 23. nóvember 2020, hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. desember 2020, með þeim rökum að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Bent hafi verið á að samkvæmt læknisvottorði glími hún við geðsjúkdóm og að metið hafi verið að meðferð við sjúkdómnum og endurhæfing væri ekki fullreynd og því óheimilt að meta hana til örorku. Henni hafi verið bent á reglur er varði endurhæfingarlífeyri og hún hvött til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði væru. Í framhaldinu hafi kærandi lagt fram umsókn um endurhæfingarlífeyri sem hafi verið samþykkt með bréfi stofnunarinnar, dags. 7. janúar 2021. Endurhæfingartímabil hafi verið metið í fimm mánuði út frá fyrirliggjandi gögnum, þar með talið læknisvottorði, dags. 14. desember 2020, og endurhæfingaráætlun, dags. 14. desember 2020. Samkvæmt þeirri áætlun hafi kærandi verið inniliggjandi á geðendurhæfingardeild og í daglegu prógrammi sem hafi falist í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálfræðisamtölum og virkniprógrömmum. Lok endurhæfingar hafi miðast við 1. apríl 2021.

Kærandi hafi sótt um framlengingu endurhæfingartímabils sem hafi verið samþykkt þann 5. maí 2021 til þriggja mánaða á grundvelli endurhæfingaráætlunar, dags. 1. mars 2021. Samkvæmt þeirri áætlun hafi hún verið í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og fjölskyldumeðferð og öðrum virknimeðferðum sem hún hafi tekið þátt í á batamiðstöð. Ráðgert hafi verið að hún færi smám saman í iðjuþjálfun og virkni í B og að þá myndi á móti fækka dögum á dagdeildinni. Stefnt hafi verið að útskrift í apríl 2021.

Í umsókn um örorkulífeyri, dags. 8. júlí 2021, hafi verið sótt um lífeyri afturvirkt frá 9. júlí 2019. Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri á tímabilinu 1. desember 2020 til 31. júlí 2021 og lagaskilyrði séu ekki til að greiða örorkulífeyri fyrir það tímabil, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Þetta ákvæði gildi einnig um skörun örorkulífeyris og endurhæfingarlífeyris sem greiddur sé á grundvelli laga um félagslega aðstoð, sbr. 14. gr. þeirra laga. Krafa um afturvirkar greiðslur samkvæmt 4. mgr. 53. gr. varði því tímabilið 1. ágúst 2019 til 1. desember 2020.

Tryggingastofnun líti svo á að lagaskilyrðum sé ekki fullnægt til að verða við þessari kröfu.

Eins og komi fram í 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Í skýrslu álitslæknis Tryggingastofnunar vegna viðtals og skoðunar, sem hafi farið fram þann 31. ágúst 2021, sé byggt á upplýsingum í læknisvottorðum um heilsufar kæranda á liðnum árum. Í læknisvottorði, dags. 2. júlí 2021, komi fram að kærandi hafi mjög líklega glímt við ómeðhöndlaðan geðrofssjúkdóm til margra ára og að hún hafi verið greind með geðklofa. Sjúkdómsinnsæi hennar hafi verið mjög skert og hafi hún í fyrstu verið ófáanleg til að sækja um endurhæfingar- eða örorkulífeyri. Smám saman hafi innsæi aukist. Hún hafi undanfarið verið á endurhæfingarlífeyri. Næsta skref sé að sækja um örorku þar sem hún sé metin alveg óvinnufær og ljóst að hún muni ekki ná vinnufærni, þrátt fyrir meðferð og endurhæfingu.

Á grundvelli viðtals og skoðunar hjá álitslækni Tryggingastofnunar og annarra læknisfræðilegra gagna hafi kærandi ekki fengið stig í mati á líkamlegri færniskerðingu en hún hafi fengið sautján stig í mati á andlegri færniskerðingu. Að mati álitslæknis hafi færni kæranda verið svipuð í fimmtán ár.

Tryggingastofnun bendi á að umsögn álitslæknis um hve lengi ástand kæranda hafi staðið sé fyrst og fremst til stuðnings mati á því hvort ákveðnum stöðugleika hafi verið náð hvað varði færniskerðingu kæranda, sbr. það skilyrði 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að umsækjandi sé metinn með að minnsta kosti 75% örorku til langframa.

Ekki beri að líta á umsögn álitslæknis um þetta atriði sem sönnun þess að skilyrðum laga til örorkulífeyris hafi verið fullnægt fyrir það tímabil sem þegar sé liðið. Umsögnin gefi ákveðna vísbendingu en hún verði engu að síður að vera studd læknisfræðilegum gögnum ef byggja eigi samþykkt örorkulífeyris á henni. Ströng lagaskilyrði gildi um veitingu örorkulífeyris og ekki sé hægt að gera minni kröfur hvað varði mat á rétti umsækjanda til afturvirkra greiðslna. 

Geðraskanir hafi hrjáð kæranda um árabil en það séu hins vegar engin samtímagögn sem staðfesti að þau veikindi hafi á því tímabili sem um ræði, þ.e. frá 1. ágúst 2019 til 1. desember 2020, verið á því stigi að skilyrðum 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar hafi verið fullnægt. Ákvörðun Tryggingastofnunar um veitingu endurhæfingarlífeyris í desember 2020 hafi verið byggð á mati fagaðila á geðheilbrigðissviði um að ástæða væri til að reyna með viðeigandi úrræðum að stuðla að betri virkni og heilsu kæranda. Afgreiðsla málsins á þeim tíma styðji enn fremur að fram að þeim tíma hafi skilyrðum til greiðslu örorkulífeyris ekki verið fullnægt, enda hafi umsókn um örorkulífeyri á þeim tíma verið synjað með vísan til þess að endurhæfing væri ekki fullreynd. Umsókn um afturvirkar greiðslur á þeim tíma hafi einnig verið synjað. Ekki sé hægt á grundvelli umsóknar, dags. 8. júlí 2021, og skýrslu álitslæknis vegna viðtals og skoðunar sem hafi farið fram 31. ágúst 2021 að fella úr gildi þá afgreiðslu og samþykkja greiðslu örorkulífeyris vegna eldra tímabils sem verði þá undanfari endurhæfingartímabils sem hafi byrjað 1. desember 2020.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að fallast ekki á kröfu kæranda um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris hafi verið í samræmi við fyrirliggjandi gögn og ákvæði laga um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. september 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var samþykkt frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2025. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á afturvirkum greiðslum örorkulífeyris.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Bætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Örorkustaðallinn er byggður upp af stöðluðum spurningum sem varða líkamlega og andlega færni viðkomandi. Almennt er leitað eftir svörum og mati umsækjanda sjálfs á þeim spurningum sem í staðlinum eru. Enn fremur liggur fyrir skoðunarskýrsla læknis sem á grundvelli skoðunar og viðtals við umsækjanda fyllir út staðalinn. Umsækjandi fær stig miðað við færni sína. Til að metin verði 75% örorka þarf að ná fimmtán stigum í líkamlega hluta staðalsins eða tíu stigum í andlega hlutanum eða sex stigum í báðum. Í undantekningartilvikum er samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat hægt að meta viðkomandi utan staðals.

Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 2. málsl. 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, getur einstaklingur ekki fengið bæði örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri greiddan á sama tíma. Þá kemur fram í 3. málslið 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Kærandi var talin uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati, dags. 4. september 2021. Gildistími örorkumatsins var ákvarðaður frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2025. Kærandi naut áður endurhæfingarlífeyris frá 1. desember 2020 til 31. júlí 2021, eða alls í átta mánuði.

Af framangreindu má ráða að örorkulífeyrir skal reiknaður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun ríkisins.

Eins og áður hefur komið fram var kærandi talin uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati, dags. 8. september 2021, og upphafstími matsins var ákvarðaður frá 1. ágúst 2021. Kærandi hafði áður sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 14. október 2020 með umsókn 11. desember 2020 sem Tryggingastofnun synjaði á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi sótti í kjölfarið um endurhæfingarlífeyri og fékk greiðslur á tímabilinu 1. desember 2020 til 31. júlí 2021. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn 8. júlí 2021 sem var samþykkt frá 1. ágúst 2021 til 31. júlí 2025, eins og áður hefur verið greint frá. Örorkumatið er byggt á skoðunarskýrslu C læknis, dags. 31. ágúst 2021, þar sem kærandi hlaut ekki stig samkvæmt líkamlega hluta staðalsins en sautján stig í andlega hluta staðalsins. Það er mat skoðunarlæknis að færni kæranda hafi verið svipuð og hún sé nú í 15 ár.

Í læknisvottorði D, dags. 24. nóvember 2020, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri er getið um sjúkdómsgreininguna unspecified nonorganic psychosis. Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„Um er að ræða X ára gifta konu sem flutti til X frá E árið X.

Hún er gift [...] og eiga þau X börn, [...] ára. Er með um X ára sögu um breytta hegðun heima fyrir, sérstaklega versnandi sl. X ár. Innlögn á móttökugeðdeild Landspítala þann 14. otkóber 2020 og var þetta fyrsta innlögn á geðdeild. Fluttist beint úr þeirri innlögn á geðendurhæfingardeild á Landspítala þann 12.11.2020 og er enn inniliggjandi.

Gekk vel [...] fyrstu árin. A var í góðum samskiptum við fjölskyldu og sá um heimili og börn. Eftir að yngsta barnið fæddist fékk hún fæðingarþunglyndi. Síðan þá versnandi ástand. Að sögn eiginmanns var hún algjörlega ólík sjálfri sér frá því sem áður var. Mikil færnisskerðing og skert tengsl, er samhengislaus í svörun, datt inn og útúr samræðum, var ekki fær um að hugsa um sjálfa sig, börnin né heimilið. Á til að kveikja á eldavél og skilja hana eftir, blandar saman ónýtum mat úr rusli við önnur hráefni og sýnir af sér ýmsa skrítna hegðun heima fyrir. Fer mest 3-4x út úr húsi á ári. Hefur fjarlægst börnin sín og er í litlum tengslum við þau. Nitilkomin paranoia, gagnvart eiginmanni og ættingjum hans, nágrönnum og öðrum. Einnig borið á ofbeldistilburðum þar sem hún rýkur allt í einu upp, öskrar og veitist að dauðum hlutum.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð og endurhæfingu. Í athugasemdum segir meðal annars svo:

„Mjög líklegt að um ómeðhöndlaðan geðrofssjúkdóm sé að ræða til margra ára. Hún lagðist inn á Geðendurhæfingardeild á Landspítala þann 12.11.2020 og er fyrirhugðuð að minnsta kosti þriggja mánaða innlögn. Mikilvægt að gera nánari greiningu og fylgja eftir lyfjameðferð. Ennfremur er hún með einstaklingsmiðaða dagskrá sem miðar að því að þjálfa einbeitingu og úthald, auka virkni og viðhalda rútínu. Jafnframt er unnið með félagsleg mál sjúklings.“

Að mestu leyti sambærilegar upplýsingar koma fram í læknisvottorði D, dags. 4. mars 2021, en þar er getið um sjúkdómsgreininguna paranoid schizophrenia. Auk þess segir í sjúkrasögu:

„A hefur tekið góðum framförum eftir innlögn á móttökugeðdeild og geðendurhæfingardeild en það er enn langt í land. Hún er enn mjög kvíðin og með lítið álagsþol. Hún er mjög lokuð á sinn hugarheim og ber enn á tengslaleysi við fjölskylduna. Það er því ljóst að hún er engan vegin fær um að fara út á vinnumarkaðinn á næstunni, þrátt fyrir dvöl á geðendurhæfingardeild.“

Í athugasemdum segir meðal annars:

„Hún lagðist inn á Geðendurhæfingardeild á Landspítala þann 12.11.2000 og útskrifaðist 24.02.2021. Hún er nú innrituð á dagdeild geðendurhæfingardeildar og er búið að sækja um í Geðheilsuteymi X.“

Fyrir liggur endurhæfingaráætlun, dags. 14. desember 2020, vegna tímabilsins 14. október 2020 til 1. apríl 2020 þar sem gerð er grein fyrir sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálfræðisamtölum og virkniprógrammi.

Í læknisvottorði D, dags. 2. júlí 2021, segir meðal annars svo um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda:

„Innlög á móttökugeðdeild á Landspítala þann 14.10.2020 og var þetta fyrsta innlögn á geðdeild. Fluttist beint úr þeirri innlögn á geðendurhæfingardeild á Landspítala og var hún í þeirri innlögn frá 12.11.2020 til 24.02.2021. Hún var innrituð á dagdeild geðendurhæfingar frá 23.02.2021 til 23.06.2021.

[...]

A hefur tekið ágætum framförum eftir innlögn á móttökugeðdeild og geðendurhæfingardeild og dvöl á dagdeild geðendurhæfingar. Ekki ber lengur á geðrofseinkennum né hugsanatruflun og hún er farin að geta sinnt ADL og heimilisstörfum. En það er enn langt í land, það er mikil deyfð og flatneskja yfir henni. Hún leggur sig mikið. Hefur lítið frumkvæði að samskiptum. Hún er mjög lokuð á sinn hugarheim og ber enn á tengslaleysi við fjölskylduna. Það er því ljóst að hún er engan veginn fær um að fara út á vinnumarkaðinn þrátt fyrir langa dvöl á geðendurhæfingardeild og telst endurhæfing fullreynd.“

Jafnframt kemur fram að búast megi við að færni kæranda aukist með tímanum.

Mál þetta varðar kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. september 2021, var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. ágúst 2021. Í umsókn fór kærandi fram á að upphafstíminn yrði ákvarðaður 9. júlí 2019.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll gögn málsins.

Fyrir liggur að kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. desember 2020 til 31. júlí 2021 og að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði örorku þegar skoðun skoðunarlæknis fór fram þann 31. ágúst 2021. Tryggingastofnun miðaði upphafstíma örorkumats kæranda við 1. ágúst 2021, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að greiðslum endurhæfingarlífeyris lauk. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi í endurhæfingu á tímabilinu 12. nóvember 2020 til 23. júní 2021, fyrst í innlögn á geðendurhæfingardeild Landspítala og síðan á dagdeild geðendurhæfingar. Af gögnum málsins verður ráðið að færni kæranda hafi aukist á endurhæfingartímabilinu. Úrskurðarnefndin telur því að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd fyrr en framangreindu endurhæfingartímabili lauk, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Þá er ekki heimilt samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 2. málsl. 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, að greiða bæði örorkulífeyri og endurhæfingarlífeyri vegna sama tímabils. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris fyrr en 1. ágúst 2021.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. september 2021, að upphafstími örorkumats kæranda skuli vera 1. ágúst 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris, er staðfest. 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta