Tvísköttunarsamningum fjölgað til þess að tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja
Áritaður hefur verið samningur milli Íslands og Andorra til að komast hjá tvísköttun og nær samningurinn til tekjuskatta. Af hálfu Íslands áritaði Helga Jónsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu samninginn, en fyrir hönd Andorra, Marc Ballestà, yfirmaður alþjóðamála hjá fjármálaráðuneyti Andorra. Samningurinn bíður nú formlegrar undirritunar og því næst fullgildingar beggja ríkja.
Íslensk stjórnvöld hafa að markmiði að fjölga á næstu árum tvísköttunarsamningum við önnur ríki í því skyni að tryggja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og launafólks á erlendri grundu og liðka fyrir erlendri fjárfestingu til Íslands. Samningurinn við Andorra er liður í að ná því markmiði, en þess má einnig geta að nýlega var skrifað formlega undir tvísköttunarsamning við Ástralíu.
Tvísköttunarsamningurinn við Andorra kemur í veg fyrir tvísköttun á viðskipti og fjármagnsflutninga milli ríkjanna og vinnur gegn skattaundanskotum. Með því að ryðja úr vegi skattalegum hindrunum mun samningurinn auðvelda viðskipti milli ríkjanna og hvetja til gagnkvæmra fjárfestinga. Ennfremur mun samningurinn jafna samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi og auka fyrirsjáanleika í viðskiptum.