Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

946/2020. Úrskurður frá 23. nóvember 2020

Úrskurður

Hinn 23. nóvember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 946/2020 í máli ÚNU 20080012.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 14. ágúst 2020, kærði A afgreiðslu Herjólfs ohf., dags. 11. ágúst 2020, á beiðni um aðgang að upplýsingum um fjölda ökutækja eða farþega sem ferðast um þjóðveg 1. Í svari Herjólfs ohf. til kæranda kom fram að félagið hefði aðeins upplýsingar um farþegatölur tengdar rekstri ferjunnar á siglingu milli Vestmannaeyja og lands. Ef óskað væri eftir upplýsingum um þjóðvegi landsins bæri að vísa erindinu til Vegagerðarinnar sem færi með veghald þjóðvega. Í kæru segir að félaginu beri að veita upplýsingarnar ellegar framsenda erindið á réttan aðila.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um fjölda ökutækja eða farþega sem ferðast um þjóðveg 1. Herjólfur ohf. svaraði kæranda því að umbeðnar upplýsingar væru ekki fyrirliggjandi hjá félaginu og benti honum á að beina beiðninni til Vegagerðarinnar.

Af 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á því formi sem óskað er. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til annars en að leggja það til grundvallar að umbeðnar upplýsingar séu ekki í vörslum Herjólfs ohf. Þegar svo háttar til að gögn eru ekki fyrirliggjandi er ekki um að ræða ákvörðun um að synja um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laganna. Ljóst er að Herjólfur ohf. leiðbeindi kæranda um það hvert beina ætti beiðninni. Úrskurðarnefndin telur að félagið hafi með því uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína en ekki verði lögð sambærileg skylda á félagið og stjórnvöld til að framsenda erindi á rétta aðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulagalaga nr. 37/1993, enda taka stjórnsýslulög ekki til félagsins. Með hliðsjón af framangreindu verður kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 14. ágúst 2020, vegna afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um upplýsingar um fjölda ökutækja eða farþega sem ferðast um þjóðveg 1, dags. 11. ágúst 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Símon Sigvaldason

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta