Hoppa yfir valmynd
11. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 356/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 356/2023

Miðvikudaginn 11. október 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 24. maí 2023, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var samþykkt á biðlista með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 19. júlí 2023. Með bréfi, dags. 26. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 22. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. ágúst 2023. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg 6. september 2023 sem voru kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2023. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 13. september 2023 sem voru kynntar Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2023. Svar barst frá Reykjavíkurborg 25. september 2023 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. október 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hún sé orðin langþreytt á seinagangi félagsmálastofnunar Suðurvers. Kærandi hafi í áratugi reynt að fá sómasamlega íbúð hjá Reykjavíkurborg en umsóknir hennar í gegnum tíðina virðist hafa endað ofan í skúffum og komið fram við kæranda eins og hún sé bláókunnug að útbúa fyrstu umsókn.

Það sé með ólíkindum að félagsráðgjafi kæranda, sem viti hvernig staða hennar sé, hafi aldrei boðið kæranda upp á gistihús eða annað neyðarúrræði, þrátt fyrir að það sé lögbundið. Kærandi viti ekki hversu oft hún eigi að endurtaka aumkunarverða stöðu sína en hún hafi legið á sófa hjá vini sem sé sjúklingur og spyrji hversu lengi hún þurfi að bíða.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar er meðal annars vísað til þess að sveitarfélaginu sé vel kunnugt um ástæðu þess að hún hafi flutt frá B. Þar hafi skolplög sprungið og íbúðin hafi verið óíbúðarhæf þó að félagsráðgjafi kæranda hafi látið í veðri vaka að heimilislausir, veikir einstaklingar hafi verið umkvörtunarefni. Félagsráðgjafanum hafi verið vel kunnugt um málið, bæði í skriflegu bréfi og viðtali. Þá hafi félagsráðgjafanum verið vel kunnugt um vanþekkingu kæranda á tölvur en kærandi hafi margoft beðið hana um að hringja sem hún hafi sagst ætla að gera en ekki gert. Kærandi spyrji hvort það sé vegna vankunnáttu hennar á tölvupósta að hún hafi misst af íbúð sem fullyrt sé að henni hafi verið úthlutað. Kærandi spyrji einnig hvers vegna félagsráðgjafinn hafi ekki lagt til neyðarskýli. Kærandi vinni að sínum bata á hverjum degi en málið snúist um að hún fái mannsæmandi íbúð þar sem hún geti búið um barnabörn sín þegar þau gisti hjá henni. Kærandi beri ekki lengur traust til félagsráðgjafans. Kærandi sé algerlega á götunni en fái stöku sinnum að gista hjá fullorðnum fjölskylduvini sem sé sjúklingur. Að búa í ferðatösku sé algjörlega óásættanleg og kærandi muni aldrei fara aftur í Konukot, það ógni hennar edrúgöngu. Kærandi lifi fyrir börn sín og barnabörn og óski eftir tækifæri á mannsæmandi íbúð.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona sem búi ein og eigi uppkomin börn. Kærandi hafi í gegnum árið þegið ráðgjöf og þjónustu frá þjónustumiðstöð Breiðholts (nú Suðurmiðstöð) en mismikið eftir árum. Á tímabilinu nóvember 2004 til febrúar 2009 hafi kærandi leitað ítrekað í Konukot. Kærandi hafi fyrst sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 13. febrúar 2007, en umsókninni hafi verið synjað þar sem skilyrði reglna um þriggja ára samfellda búsetu í Reykjavík hafi ekki verið uppfyllt. Kærandi hafi óskað eftir undanþágu frá framangreindu skilyrði og með bréfi, dags. 13. mars 2007, hafi kæranda verið veitt undanþága og umsókn hennar færð á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda hafi verið metin til átta stiga.

Þann 9. júlí 2010 hafi kæranda verið úthlutað húsnæði að B, Reykjavík, en leigu kæranda hafi lokið í febrúar 2011. Í málaskrá velferðarsviðs komi fram að kærandi hafi farið úr íbúðinni vegna ágangs heimilislausra einstaklinga í húsnæðið. Í kjölfar þess hafi kærandi búið hjá föður sínum í nokkur ár.

Kærandi hafi aftur sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 5. nóvember 2013. Með bréfi, dags. 6. desember 2013, hafi umsókn kæranda verið samþykkt og umsóknin metin til 11 stiga.

Kærandi hafi fengið lán til tryggingar leiguhúsnæðis árið 2014 en hafi svo verið í litlum tengslum við þjónustumiðstöð þar til í febrúar 2016 er hún hafi ítrekað beiðni um úthlutun. Kærandi hafi þá verið í öruggri leigu á almennum leigumarkaði. Þann 16. október 2017 hafi kærandi verið upplýst um að fyrirhugað væri að fella umsókn um félagslegt leiguhúsnæði úr gildi þar sem skilyrði 12. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur hefðu ekki verið uppfyllt þar sem umsókn hefði ekki verið endurnýjuð frá 26. nóvember 2014. Umsókn kæranda hafi verið felld úr gildi þar sem hún hafi ekki verið endurnýjuð en umsókn kæranda hafi verið færð í gildi að nýju í nóvember 2017 þegar kærandi hafi upplýst um að umrætt bréf hefði ekki borist henni. Þann 12. mars 2018 hafi kærandi komið í viðtal á þjónustumiðstöð og upplýst um að hún væri að missa leiguhúsnæði þar sem það hefði verið sett á sölu en ekki hafi verið búið að segja kæranda upp húsnæðinu. Kærandi hafi aftur haft samband í júlí 2018 og ítrekað beiðni um úthlutun en á þeim tíma hafi ekki verið búið að segja kæranda upp leigusamningnum og því hafi verið álitið að hún væri í öruggu leiguhúsnæði.

Þann 1. júní 2019 hafi tekið gildi nýjar reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og í I. ákvæði til bráðabirgða komi fram að umsóknir sem hafi verið lagðar fram í gildistíð eldri reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur héldu gildi sínu en yrðu endurmetnar samkvæmt nýjum reglum. Á grundvelli framangreinds ákvæðis hafi umsókn kæranda verið endurmetin samkvæmt nýjum reglum og verið metin til átta stiga. Með bréfi, dags. 17. desember 2019, hafi kærandi verið upplýst um að umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði, dags. 5. nóvember 2013, væri felld úr gildi þar sem skilyrði e-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væru ekki uppfyllt en umrætt skilyrði varði stigagjöf. Í viðtali við kæranda í janúar 2020 hafi verið farið yfir það hvaða ástæður væru fyrir því að umsókn kæranda hafi verið felld úr gildi.

Þann 24. maí 2023 hafi kærandi sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði og umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 29. júní 2023. Umsókn kæranda hafi verið metin til 11 stiga. Búið sé að segja upp húsaleigusamningi kæranda á almennum leigumarkaði. Með bréfi, dags. 19. júlí 2023, hafi kærandi sent kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála en óljóst sé af kærunni hvert kæruefni sé. Helst megi ætla að kæruefni varði málshraða og miði svar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar við það.

Reykjavíkurborg tekur fram að um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019.

Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram skipting félagslegs leiguhúsnæðis í fjóra flokka, þ.e. almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Um framangreinda flokka húsnæðis sé fjallað í sérköflum reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en mismunandi skilyrði eigi við um hvern flokk húsnæðis.

Frekari skilgreiningu á almennu félagslegu leiguhúsnæði sé að finna í 2. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði sé átt við hverja þá íbúð í eigu Félagsbústaða hf. sem ekki sé sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra, húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt falli undir skilgreininguna húsnæði sem Reykjavíkurborg leigi til einstaklinga þar sem umsýsla sé á vegum Félagsbústaða hf. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis teljist einnig áfangahúsnæði. Sérstaklega sé fjallað um almennt félagslegt leiguhúsnæði í II. kafla reglnanna.

Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma. Í 19. gr. reglnanna komi fram að miðstöðvar Reykjavíkurborgar leggi faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafi verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá miðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis byggi á gögnum sem liggi fyrir á úthlutunardegi og beri að uppfæra öll gögn miðað við stöðu umsækjanda á þeim tíma. Einnig beri eftir atvikum að framkvæma endurmat samkvæmt matsviðmiðum. Umsækjanda skuli tilkynnt skriflega ef endurmat leiði til breytinga á stigagjöf. Úthlutunarteymi almenns félagslegs leiguhúsnæðis fundi og úthluti húsnæði að jafnaði einu sinni í viku.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé vikið að málshraða og þar komi fram að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þá komi fram í 3. mgr. 9. gr. að þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því og skuli þá upplýst um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í 4. mgr. 9. gr. laganna komi fram að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.

Reykjavíkurborg taki fram að samþykki á umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi því þegar viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað húsnæði, enda hafi hún verið sett á biðlista eftir því. Það að sveitarfélagið hafi ekki veitt kæranda húsnæði innan ákveðins tímafrests heldur forgangsraði umsækjendum með hliðsjón af aðstæðum þeirra og framboði húsnæðis feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis feli hins vegar í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 8. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og í þeim tilfellum sé því um að ræða að aftur verði tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu.

Reykjavíkurborg bendi á að jafnvel þótt sveitarfélagið hafi viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði felist ekki í þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita beri kæranda umrætt húsnæði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða um viðmiðunartímafresti í þessu sambandi, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir húsnæði og ekki sé um að ræða fortakslausan rétt til að fá úthlutað húsnæði strax. Í þessu samhengi sé vakin athygli á því að kærandi hafi sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði með umsókn þann 24. maí 2023. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt og henni tilkynnt um það með bréfi þann 29. júní 2023. Að mati velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sé ekki unnt að telja að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda sé metin til 11 stiga samkvæmt matsviðmiðum varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði (fylgiskjal 1 með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði). Kærandi óski eftir eins til tveggja herbergja íbúð. Í júní 2023 hafi fjöldi umsókna á biðlista eftir eins til tveggja herbergja íbúð verið alls 503 og í lok árs 2022 hafi meðalbiðtími eftir úthlutun verið 21 mánuður. Tæpir tveir mánuðir séu síðan umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði hafi verið samþykkt.

Í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga komi fram að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Af orðalagi ákvæðisins leiði að einstaklingar sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til að umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði sé samþykkt, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir slíku húsnæði. Með hliðsjón af framangreindu sé því alfarið hafnað að biðtími kæranda eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993. Eins og rakið sé hér að framan sé meðalbiðtími eftir húsnæði eins og kærandi óski eftir 21 mánuður, miðað við lok árs 2022, en þegar kærandi hafi sent kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi ekki verið liðinn mánuður frá því að umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði hafi verið samþykkt.

Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum sé falin samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laganna. Hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé í þessum málum ráðist aðallega af ákvörðun hvers sveitarfélags.

Í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar sé sveitarfélögum tryggður sjálfstjórnarréttur og í honum felst meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Stjórnarskráin leggi ekki ríkari eða víðtækari skyldur á herðar sveitarfélögum í þessum efnum heldur en mælt sé fyrir um í fyrrnefndum sérlögum. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt, setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna, þar á meðal um félagslegt leiguhúsnæði. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Því geti einstaklingar ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.

Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ekki unnt að fallast á að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggi að umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði. Þegar til úthlutunar komi sé um að ræða aðra stjórnvaldsákvörðun í málinu, sbr. 8. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Því hafi ekki dregist óhæfilega að afgreiða mál kæranda þar sem um tvær aðskildar stjórnvaldsákvarðanir sé að ræða. Það sé mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ljóst að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ákvæðum annarra laga.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er tekið fram að kærandi hafi síðast fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði þann 9. júlí 2010 sem hún hafi þegið. Þá hafi kærandi fengið sent bréf og tölvupóst þann 16. október 2017 um að umsókn hennar frá 5. nóvember 2013 hefði verið synjað. Í kjölfarið hafi kærandi sett sig í samband við félagsráðgjafa sem hafi sett umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði aftur í gildi í nóvember árið 2017. Þann 17. desember 2019 hafi kærandi fengið synjun á umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Þá hafi kærandi fengið samþykkta umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði þann 29. júní 2023. Kærandi hafi ekki átt gilda umsókn á tímabilinu 17. desember 2019 til 29. júní 2023 í því verði ekki séð að kærandi hafi misst af úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Ekki hafi komið til úthlutunar frá því að umsókn hennar hafi verið samþykkt frá 29. júní 2023.

IV.  Niðurstaða

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um félagslegt leiguhúsnæði. Nýjasta umsókn kæranda er frá 24. maí 2023 og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 29. júní 2023. Kærandi hafði þá ekki verið með virka umsókn um félagslegt leiguhúsnæði frá árinu 2019. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og lítur úrskurðarnefndin svo á að kærður sé dráttur á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna kemur fram að umsækjandi þurfi að uppfylla öll skilyrði greinarinnar til að umsókn verði samþykkt á biðlista.

Í VI. kafla reglnanna er kveðið á um forgangsröðun og úthlutun. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að umsóknum sé raðað í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglnanna fer úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem skipuð eru með sérstöku erindisbréfi. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggja faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafa verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 19. gr. kemur fram að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 30. gr. reglnanna að ráðgjafi skuli endurmeta aðstæður umsækjanda á meðan beðið sé úthlutunar á húsnæði og veita félagslega ráðgjöf ef þurfa þyki.

Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir er nýjasta umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði frá 24. maí 2023 og var hún samþykkt á biðlista 29. júní 2023. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að í júní 2023 hafi fjöldi umsókna á biðlista eftir eins til tveggja herbergja íbúð verið alls 503 og í lok árs 2022 hafi meðalbiðtími eftir úthlutun verið 21 mánuður. Þegar kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála voru einungis tæpir tveir mánuðir liðnir frá því að hún sótti um félagslegt leiguhúsnæði og nú eru liðnir rúmir þrír mánuðir frá því að hún var samþykkt á biðlista. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í  skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur úrskurðarnefndin ástæðu til að árétta þá skyldu sem fram kemur í 46. gr. laga nr. 40/1991 um að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki séu færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið sé að varanlegri lausn þar sem gögn málsins benda til þess að kærandi hafi verið húsnæðislaus frá samþykkt umsóknar á biðlista.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta