Dagur íslenskrar náttúru er í dag
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert enda hefur fátt mótað íslenska þjóð eins og náttúran.
Ríkisstjórn Íslands ákvað árið 2010 að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem varð fyrir valinu er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, 16. september, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins.
Fólk er hvatt til að nýta daginn til útivistar í náttúrunni eða njóta þeirra uppákoma sem efnt er til víða um land, allt frá fræðslugöngu landvarða í Dyrhólaey til myndasýningar á íslenskum náttúruperlum í IKEA í Garðabæ.
Í tengslum við Dag íslenskrar náttúru afhendir umhverfis- og auðlindaráðherra tvær viðurkenningar; Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti og Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þar sem daginn ber á sunnudag í ár verða viðurkenningarnar afhentar mánudaginn 17. september.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar landsmönnum innilega til hamingju með daginn.