Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 60/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 60/2018

Miðvikudaginn 11. apríl 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 14. febrúar 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júlí 2017 um stöðvun ellilífeyrisgreiðslna.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins stöðvaði greiðslur ellilífeyris til kæranda með ákvörðun, dags. 13. júlí 2017, vegna búsetu hans erlendis.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. febrúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfi 27. febrúar 2018 bárust skýringar kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir því við kæranda með bréfi, dags. 14. mars 2018, að hann legði fram gögn um samskipti sín við umboðsmann Alþingis vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Með tölvubréfi, dags. 22. mars 2018, bárust umbeðnar upplýsingar.

II. Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að kærandi óski eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur ellilífeyris til hans verði felld úr gildi.

Í kæru segir að fyrir tæpum […] árum hafi eiginkona kæranda fallið frá. Þau hjónin hafi eingöngu átt litla íbúð á B saman. Eiginkona kæranda hafi átt X börn frá fyrra hjónabandi og til að ganga frá erfðamálum hafi hann fengið lögmannsstofu á B til að annast málið en það hafi tekið tíma vegna búsetu erfingja […]. Kærandi hafi þurft að leggja fram í frumriti notarial vottuð umboð auk staðfestingar B sendiráða um áreiðanleika vottunarinnar. Kærandi hafi sjálfur þurft að vera til staðar, enda hafi hann ekki gert sér grein fyrir þeim tíma sem þetta myndi taka eða um […].

Í september 2017 hafi kærandi fengið ákvörðun frá Tryggingastofnun um að svipta hann ellilífeyri á þeirri forsendu að hann væri búinn að vera of lengi fjarverandi frá Íslandi. Kærandi hafi skýrt frá aðstæðum sínum fyrir daufum eyrum viðmælanda síns sem jafnframt hafi bent honum á að sækti hann um B lögheimili myndu greiðslur hefjast að nýju. Kærandi vilji ekki hafa B lögheimili en geti ekki varist þeirri tilfinningu að verið sé að þvinga hann til þess. Ellilaun séu ekki há en fyrir eftirlaunaþega skipti allt máli.

Þess sé óskað að úrskurðarnefnd gefi álit á því hvort umræddar gerðir Tryggingastofnunar séu í fullu samræmi við eðlilega stjórnsýslu og bent sé á að kærandi líti ekki á ellilaun sem ölmusu heldur áunnin réttindi. Þá virðist sem losnað hafi um gildi lögheimilis og séu mörg dæmi um slíkt meðal þingmanna. Kæranda þyki skjóta skökku við að fá tilkynningu um að hann eigi ekki lögheimili þar sem hann sé skráður og á þeirri forsendu sé hann sviptur tekjum. Vakni þá einnig sú spurning hvaðan heimildir Tryggingastofnunar séu runnar. Kærandi greiði skatta og skyldur til íslenska ríkisins en hafi ekki fengið greidd ellilaun frá september 2017.

Í athugasemdum kæranda segir að þegar hann hafi fengið tilkynningu um stöðvun greiðslna hafi hann fengið hálfgert sjokk og tilkynningin um kærufrestinn hafi einfaldlega farið fram hjá honum. Um þetta leyti hafi hann verið á fullu að ganga frá erfðamálum varðandi börn konu sinnar og kannski ekki í standi eins og skyldi. Kærandi sé nú bara karlfauskur sem sé að nálgast X og orðinn seinn að hugsa og enn seinni að framkvæma. Að lokum hafi hann sent erindið á rangan stað, þ.e. til umboðsmanns Alþingis, sem hafi leiðbeint honum um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá voni kærandi að þessi mistök hans verði tekin mildum höndum hjá nefndinni.

III. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júlí 2017, um stöðvun ellilífeyrisgreiðslna til kæranda frá 1. ágúst 2017.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu sjö mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júlí 2017, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. febrúar 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því löngu liðinn þegar kæran barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 13. júlí 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2018, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfi 27. febrúar 2018 var greint frá ástæðum þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þar kemur fram að kærandi hafi ekki tekið eftir kærufrestinum og mikið hafi verið í gangi hjá honum, hann sé orðinn aldraður og seinn að framkvæma. Einnig er greint frá því að kærandi hafi að lokum sent erindið til umboðsmanns Alþingis sem hafi vísað honum á réttan stað. Fyrir liggur samkvæmt upplýsingum kæranda að samskipti hans við umboðsmann Alþingis vegna málsins hófust 27. janúar 2018.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru upplýsingar kæranda um það hvers vegna kæra barst svo seint ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd velferðarmála vill vekja athygli kæranda á að samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hægt að óska eftir endurupptöku hjá Tryggingastofnun ríkisins á kærðri ákvörðun stofnunarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta