Nýjum vef hleypt af stokkunum
Nýr vefur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) var tekinn í notkun í dag við athöfn sem fram fór í fundarstofu stofnunarinnar á Akranesi. Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra opnaði vefinn.
Ráðherra sagði við athöfnina að nýi vefurinn væri mikilvæg upplýsingaveita og eflaust ættu margir eftir að nýta sér hann.
Hinn nýi vefur HVE hefur verið í vinnslu frá því um áramót, en starfshópur innan vébanda HVE vann að undirbúningi og skipulagi vefsins. Hann er hugsaður sem öflugur og skilvirkur upplýsingavefur fyrir sjúklinga og áhugafólk, sem þangað getur sótt upplýsingar og fróðleik um starfsemina á starfsstöðvum stofnunarinnar.
Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur verið starfrækt frá áramótum. Þá voru átta stofnanir á Vesturlandi sameinaðar í eina. Það eru stofnanir á Akranesi, Borgarnesi, Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Búðardal, Hólmavík og Hvammstanga.
Nýr vefur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
Jóhann Björn Arngrímsson svæðisfulltrúi á Hólmavík, í Búðardal og á Reykhólum, Guðmundur Haukur Sigurðsson svæðisfulltrúi á Hvammstanga, Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra, Róbert Jörgensen svæðisfulltrúi á Snæfellsnesi, Guðjón Brjánsson framkvæmdastjóri HVE og Linda Kristjánsdóttir yfirlæknir heilbrigðissviðs HVE í Borgarnesi.