Vonast til að frumvarp um gjafaegg verði að lögum fyrir þinglok
Önnur umræða um frumvarp til laga um gjafaegg fór fram á Alþingi í gær, en vonir standa til að frumvarpið geti orðið að lögum fyrir þinglok í júní.
Frumvarpið felur í sér að einhleypum konum sem búa við skerta frjósemi verði heimilt að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun. Sama mun gilda um pör af sitt hvoru eða sama kyni, þar sem frjósemi beggja maka er skert.
Þegar Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í þinginu í mars sl. sagði hún mikilvægt að það yrði að lögum á þessu þingi. „Hér er um að ræða mikilvæga réttarbót fyrir einstaklinga sem búa við skerta frjósemi,” sagði ráðherra.
Frumvarpinu er ætlað að breyta núgildandi lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun, þar sem ekki hefur verið heimilt að nota gjafaeggfrumu við glasafrjóvgun einhleyprar konu, heldur aðeins gjafasæði.