Samið um styttri vinnuviku við fimm stéttarfélög
Um helgina var undirritaður kjarasamningur milli fimm stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Helstu tíðindi samningsins eru að vinnutími verður styttur og er breytingin í takt við það sem samið var um á almennum vinnumarkaði í vor. Markmið styttingarinnar er að bæta vinnustaðamenningu og starfsumhverfi starfsfólks. Í breytingunum felst líka mikið tækifæri til umbóta í starfsemi ríkisins. Þá var samið um breytingar á sumarorlofi sem nýtast ungu fólki best.
Samningurinn stuðlar að bættum lífskjörum, aukinni samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tryggir áframhaldandi kaupmáttaraukningu. Fram undan er áframhaldandi vinna við gerð samninga við önnur stéttarfélög ríkisstarfsmanna. Alls gerir ríkið um 60 kjarasamninga við um 100 stéttarfélög með um 20 þúsund félagsmenn.
Félögin sem samið var við um helgina eru Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Fræðagarður, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Stéttarfélag lögfræðinga. Í þeim eru samtals um 2.300 félagsmenn sem starfa á velflestum stofnunum ríkisins.