Hoppa yfir valmynd
18. desember 1998 Forsætisráðuneytið

69/1998 Úrskurður frá 18. desember 1998 í málinu nr. A-69/1998

Hinn 18. desember 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-69/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 25. nóvember sl., kærði [...] synjun Landsbanka Íslands hf., dagsetta 10. s.m., um að veita honum aðgang að skjölum og gögnum er sýni hverjir hafi stundað laxveiðar á kostnað Landsbanka Íslands, hvar og hvenær og hve mikið það hafi kostað bankann í hvert sinn frá ársbyrjun 1993.

Með bréfi, dagsettu 26. nóvember sl., var kæran kynnt Landsbanka Íslands hf. og honum veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 4. desember sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna, er kæran laut að, innan sama frests. Að beiðni bankans var frestur þessi framlengdur til 8. desember sl. og barst umsögn bankans þann dag. Af hálfu úrskurðarnefndar var leitað eftir viðbótarskýringum frá bankanum með bréfi, dagsettu 9. desember sl., og bárust þær í bréfi bankans, dagsettu 10. s.m.

Eiríkur Tómasson formaður vék sæti í máli þessu. Í hans stað tók Steinunn Guðbjartsdóttir varamaður sæti hans í nefndinni.

Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi fór með bréfi til Landsbanka Íslands hf., dagsettu 22. október sl., fram á að fá aðgang að skjölum og gögnum sem sýna hverjir hafi stundað laxveiðar á kostnað Landsbanka Íslands, hvar og hvenær og hve mikið það kostaði bankann í hvert sinn frá ársbyrjun 1993.

Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 6. nóvember sl., var meðferð Landsbanka Íslands hf. á erindi kæranda kærð til nefndarinnar, en því hafði þá ekki enn verið svarað. Með bréfi úrskurðarnefndar til Landsbanka Íslands hf., dagsettu 9. nóvember sl., var því beint til hans að taka ákvörðun um afgreiðslu á erindi kæranda eins fljótt og við yrði komið og birta hana kæranda og nefndinni eigi síðar en á hádegi hinn 17. nóvember sl.
Hinn 18. nóvember sl. barst úrskurðarnefnd afrit af svarbréfi bankans til kæranda, dagsettu 10. s.m. Þar var m.a. vísað til þess að ríkisendurskoðun hefði í tengslum við gerð skýrslu um kostnað bankans vegna veiðiferða, risnu o.fl. fyrr á þessu ári leitað eftir upplýsingum um þátttakendur í þessum ferðum. Tveir þáverandi bankastjórar Landsbanka Íslands hf. hafi veitt stofnuninni upplýsingar um það, en svar hefði ekki borist frá þeim þriðja. Jafnframt sagði í bréfi þessu að í vörslum Landsbanka Íslands hf. væri ekki að finna upplýsingar um þátttakendur í veiðiferðum á vegum Landsbanka Íslands frá ársbyrjun 1993 og til þess tíma er bankinn var lagður niður 1. janúar 1998. Þá var tekið fram að í bókhaldi og fylgiskjölum þess frá starfstíma Landsbanka Íslands kæmu ekki fram, "þegar sleppir hluta reikninga fyrir keypt veiðileyfi, hvar og hvenær og hversu mikið veiðiferðir kostuðu bankann í hvert sinn". Samandregin yfirlit um kostnað vegna einstakra veiðiferða frá þeim tíma lægju heldur ekki fyrir.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndar, dagsettu 25. nóvember sl., var þess óskað að úrskurðarnefnd tæki mál þetta til efnislegrar úrlausnar, en nefndin hafði með bréfi, dagsettu 20. nóvember sl., leitað eftir afstöðu hans til þess. Taldi kærandi að til væru ritaðar skýrslur a.m.k. tveggja af þremur fyrrverandi bankastjórum bankans um þátttakendur í laxveiðiferðum á vegum Landsbanka Íslands. Jafnframt setti hann fram kröfu um aðgang að þeim reikningum sem til væru um laxveiðikostnað.

Í umsögn Landsbanka Íslands hf., dagsettri 8. desember sl., var ítrekað að ekki lægju fyrir upplýsingar um hvar, hvenær og hversu mikið hver einstök veiðiferð hafi kostað, "utan þess að unnt var að tína til kostnað vegna einstakra veiðileyfa". Jafnframt sagði í umsögninni að fyrr á yfirstandandi ári hefði ekki verið unnt að greina frá því hverjir hefðu stundað laxveiðar á kostnað Landsbanka Íslands "þar sem upplýsingar þar að lútandi lágu ekki fyrir hjá bankanum". Hins vegar sagði einnig að "telja [yrði] að upplýsingar um nöfn þátttakenda í veiðiferðum snerti einkahagsmuni viðkomandi manna og [væri] Landsbanka Íslands hf. því með öllu óheimilt að láta þær í té".
Í ljósi framangreindra tilvitnana þótti úrskurðarnefnd ekki nægjanlega ljóst hvort upplýsingar um þátttakendur í nefndum ferðum lægju ekki fyrir hjá bankanum eða hvort þær lægju fyrir, en bankinn teldi sig hafa efnislegar ástæður til að láta þær ekki af hendi. Af því tilefni fór nefndin þess á leit í bréfi, dagsettu 9. desember sl., að bankinn skýrði þennan þátt málsins. Jafnframt var þess óskað að upplýst yrði hvort upplýsingar um kostnað af veiðileyfum hefðu verið teknar saman í eitt eða fleiri skjöl eða þeim safnað á annan hátt. Ef svo væri, var þess ennfremur óskað að úrskurðarnefnd yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra skjala eða gagna.
Með bréfi til úrskurðarnefndar, dagsettu 10. desember sl., veitti bankinn þær skýringar að upplýsingar um þátttakendur í veiðiferðum lægju ekki fyrir hjá Landsbanka Íslands hf. í samandregnu formi með einum eða öðrum hætti. Væri það jafnframt staðfest í skýrslu ríkisendurskoðunar frá því í apríl sl. Í sömu skýrslu kæmi fram að tveir bankastjórar hafi veitt ríkisendurskoðun þessar upplýsingar. Þær upplýsingar lægju hins vegar ekki fyrir hjá Landsbanka Íslands hf. Af þeim sökum væri ekki unnt að verða við beiðni kæranda. Þá var í þessu bréfi bankans tekið fram að ekki hefðu verið dregnar saman tölur af hálfu bankans um veiðiferðir eða kostnað vegna þeirra. Kostnaður vegna veiðileyfa sérstaklega hefði ekki heldur verið dreginn saman. Upplýsingar um slíkan kostnað hefðu verið teknar saman af ríkisendurskoðun og starfsmönnum þeirrar stofnunar, en ekki af hálfu bankans eða starfsmanna hans. Jafnframt tók bankinn fram að honum væri ekki skylt að láta fara fram sérstaka rannsókn á bókhaldi bankans og fylgiskjölum þess til að leita þeirra upplýsinga sem um er beðið.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða
Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr." Skýra verður þetta ákvæði svo að stjórnvöldum sé ekki skylt, á grundvelli upplýsingalaga, að taka sérstaklega saman upplýsingar, sem óskað er eftir, heldur beri þeim einungis að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál.

Af hálfu Landsbanka Íslands hf. hefur því ítrekað verið lýst yfir að ekki liggi fyrir upplýsingar um hvar, hvenær og hversu mikið hver einstök veiðiferð á vegum Landsbanka Íslands hafi kostað. Ber því að staðfesta þá ákvörðun Landsbanka Íslands hf. að synja beiðni kæranda þessa efnis.

Af hálfu Landsbanka Íslands hf. hefur því verið lýst yfir að einhverjar upplýsingar um greidd veiðileyfi kunni að vera til í bókhaldi og fylgiskjölum. Upplýsingarnar hafi ekki verið teknar saman þannig að þær séu fyrir hendi í einu afmörkuðu skjali eða sambærilegu gagni, sbr. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga.

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Það er álit úrskurðarnefndar að síðastnefnd lög taki til aðgangs að þeim gögnum, sem kærandi hefur óskað eftir í beiðni sinni og eingöngu er að finna í bókhaldi eða einhverjum fylgiskjölum þess. Þar af verður synjun um aðgang að þeim ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ber því að vísa þessu kæruatriði frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Landsbanka Íslands hf. að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum um það hverjir hafi stundað laxveiðar á kostnað Landsbanka Íslands, hvar og hvenær og hve mikið það hafi kostað bankann í hvert sinn frá ársbyrjun 1993.

Vísað er frá kröfu kæranda um aðgang að upplýsingum úr bókhaldi Landsbanka Íslands.

Valtýr Sigurðsson, formaður
Elín Hirst
Steinunn Guðbjartsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta