Hoppa yfir valmynd
20. júlí 1999 Forsætisráðuneytið

79/1999 Úrskurður frá 20. júlí 1999 í málinu nr. A-79/1999

Hinn 20. júlí 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-79/1999:

Kæruefni

Með bréfi, mótteknu 14. júlí sl., kærði [A], ritstjóri [...], synjun ríkissaksóknara, dagsetta 2. júlí sl., um að fá afhenta samantekt lögreglu sem send var embætti ríkissaksóknara 5. maí sl. með gögnum er varða rannsókn á starfsemi eignarleigufyrirtækisins [B].

Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að leita umsagnar ríkissaksóknara um kæruna, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 30. júní sl., fór kærandi fram á það við ríkissaksóknara "að fá afhenta samantekt rannsóknarlögreglu sem send var embætti yðar 5. maí sl. með gögnum er varða rannsókn á starfsemi eignarleigufyrirtækisins [B]."

Ríkissaksóknari hafnaði beiðninni með bréfi, dagsettu 2. júlí sl. Í svarbréfinu segir m.a. að um aðgang að gögnum í málum, sem lokið er og varðveitt eru hjá ríkissaksóknara eða lögreglustjórum, gildi reglur í fyrirmælum/leiðbeiningum ríkissaksóknara, dagsettum 14. ágúst 1998. Samkvæmt þeim reglum eiga starfsmenn fjölmiðla ekki aðgang að gögnum opinbers máls, sem lokið er, í þágu starfs síns. Ennfremur er tekið fram að greinargerð skv. 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé vinnuskjal, sem fylgi rannsóknargögnum máls frá þeim, sem annast hefur rannsókn, til þess sem tekur ákvörðun um saksókn. Vinnuskjalið sé þannig ritað til afnota fyrir ákæruvaldið og teljist ekki til gagna máls.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

Eins og fram kemur í lýsingu á málsatvikum hér að framan hefur kærandi farið fram á að fá aðgang að greinargerð lögreglu, sem send var ríkissaksóknara 5. maí sl., ásamt gögnum sem henni fylgdu. Í samræmi við 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð opinberra mála var greinargerðin ásamt gögnunum send ríkissaksóknara til þess að hann gæti tekið ákvörðun um saksókn á grundvelli þeirra.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki "um rannsókn eða saksókn í opinberu máli". Synjun um aðgang að hinum umbeðnu gögnum verður því ekki kærð til úrskurðarnefndar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru [A] á hendur ríkissaksóknara er vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta