Hoppa yfir valmynd
28. júlí 1999 Forsætisráðuneytið

80/1999 Úrskurður frá 28. júlí 1999 í málinu nr. A-80/1999

Hinn 28. júlí 1999 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-80/1999:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 8. júlí sl., kærði [A], blaðamaður [...], synjun landbúnaðarráðuneytisins um að veita honum aðgang að nánar tilgreindum upplýsingum um ríkisjarðir.

Með bréfi, dagsettu 8. júlí sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir kl. 16.00 föstudaginn 16. júlí sl. Umsögn ráðuneytisins, dagsett 15. júlí sl., barst úrskurðarnefnd innan tilskilins frests.


Málsatvik

Atvik málsins eru þau að með bréfi dagsettu 19. maí sl. fór kærandi fram á það við landbúnaðarráðuneytið að fá í fyrsta lagi "lista yfir ríkisjarðir og jarðaparta sem ráðuneytið seldi, með beinni sölu samkvæmt afsali eða kaupsamningi eða með makaskiptum, eða leigði út, á tímabilinu 1. október 1998 til og með 10. maí 1999." Í öðru lagi upplýsingar um "hver hafi verið kaupandi/leigjandi viðkomandi jarða eða jarðaparta og hvert hafi verið andvirðið (eða framlag á móti í tilfellum þar sem um makaskipti hefur verið að ræða) og samkvæmt hvaða auglýsingum viðkomandi eignir voru seldar eða leigðar."

Í svari landbúnaðarráðuneytisins til kæranda, dagsettu 20. maí sl., er beiðni hans um ofangreindar upplýsingar synjað þar sem ekki sé farið fram á aðgang að gögnum er varði tiltekið mál. Þá sé í sömu beiðni óskað eftir aðgangi að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægjanlega tilgreind. Að auki feli beiðnin í sér að ráðuneytið búi til gögn, en slíkt falli utan marka 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Með bréfi, dagsettu 20. maí sl., fór kærandi þess m.a. á leit við landbúnaðarráðuneytið að fá upplýsingar um það hver hefði verið síðasti ábúandinn á ríkisjörðinni [B] og hvenær og hvernig honum hefði verið gert að yfirgefa jörðina. Sömuleiðis hvort hann væri enn í málaferlum vegna málsins. Þá óskaði kærandi ennfremur eftir afritum af nánar tilgreindum gögnum ráðuneytisins er vörðuðu jarðirnar [C] og [D].

Í svari landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 21. maí sl., er beiðni kæranda um upplýsingar synjað, þ. á m. vegna þess að stjórnvöldum sé ekki skylt, á grundvelli upplýsingalaga, að taka sérstaklega saman þær upplýsingar sem óskað er eftir. Einungis beri að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum varðandi tiltekið mál. Einnig er byggt á því að sum af hinum umbeðnu gögnum séu ekki til í ráðuneytinu og önnur hafi að geyma upplýsingar um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga, sem fara eigi leynt, sbr. 5. gr. upplýsingalaga.

Með bréfi, dagsettu 1. júní sl., fór kærandi loks fram á það við landbúnaðarráðuneytið að fá "staðfest afrit af sölu (kaup)samningum, leigusamningum, og/eða makaskiptasamningum, afsölum, auglýsingum og bréfaskriftum ráðuneytisins varðandi breytt eignarhald á" 26 tilgreindum ríkisjörðum eftir 1. september 1998. Sömuleiðis upplýsingar um það hversu margir samningar um sölu á ríkisjörðum eða leigu á slíkum jörðum hefðu verið gerðir frá og með 1. september 1998, þar sem fyrirvara hefði þurft að gera um samþykki Alþingis vegna þess að ekki hefði verið heimild til slíkrar ráðstöfunar í fjárlögum.

Í svari landbúnaðarráðuneytisins, dagsettu 11. júní sl., er kæranda synjað um umbeðin afrit vegna ríkisjarðanna, fyrst og fremst vegna þess að um sé að ræða gögn um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt, skv. 5. gr. upplýsingalaga. Engar upplýsingar liggi heldur fyrir í ráðuneytinu um það hvort umræddum gögnum hafi verið þinglýst og þau þannig gerð opinber á grundvelli 9. gr. reglugerðar nr. 284/1996 um þinglýsingar. Hins vegar var kærandi upplýstur um það hvort tilteknar eignir hefðu verið seldar eða leigðar út eftir 1. september 1998. Ráðuneytið tekur jafnframt fram að um sé að ræða beiðni um upplýsingar úr mörgum málum, en ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli þótt skjölin séu nægilega tilgreind. Þá er því loks hafnað að veita svar við spurningu kæranda um fjölda samninga, sem gerðir hafi verið um sölu eða leigu á ríkisjörðum með fyrirvara um samþykki Alþingis, á þeirri forsendu að ráðuneytinu sé ekki skylt skv. 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, að taka slíkar upplýsingar sérstaklega saman og útbúa ný gögn, eins og spurningin geri ráð fyrir.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinum kærðu ákvörðunum hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

1.

Eins og fram kemur í kaflanum um málsatvik var mál þetta kært með bréfi kæranda, dagsettu 8. júlí sl. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga byrjar kærufrestur að líða þegar þeim, sem farið hefur fram á aðgang að gögnum, er tilkynnt um synjun stjórnvalds. Svör landbúnaðarráðuneytisins við fyrstu tveimur beiðnum kæranda frá 19. og 20. maí sl. eru dagsett 20. og 21. maí sl. Af þriðju beiðni kæranda, dagsettri 1. júní sl., er ljóst að honum hafa þá borist fyrrgreind svör ráðuneytisins. Samkvæmt því var liðinn sá 30 daga kærufrestur, sem tiltekinn er í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, þegar þær ákvarðanir ráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að gögnum á grundvelli fyrstu tveggja beiðnanna voru bornar skriflega undir úrskurðarnefnd.

Í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, er ávallt tekið fram í svörum landbúnaðarráðuneytisins við beiðnum kæranda að heimilt sé að bera synjun ráðuneytisins undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að tilkynnt er um ákvörðun þess. Þrátt fyrir það lét kærandi hjá líða að skjóta ákvörðunum ráðuneytisins frá 20. og 21. maí sl. til nefndarinnar innan lögmælts kærufrests. Þar með ber að vísa frá nefndinni þeim hlutum kærunnar sem lúta að þessum ákvörðunum.

2.

Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4.-6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, t.d. með því að safna þeim saman eða útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum.
Sá, sem fer fram á aðgang að gögnum, verður að miða beiðni sína við tiltekin gögn, með því að tilgreina þau gögn eða það mál, sem hann óskar að kynna sér, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefnd hefur skýrt þetta ákvæði laganna svo að ekki sé unnt í sömu beiðni að fara fram á aðgang að miklum fjölda skjala úr fleiri en einu stjórnsýslumáli, jafnvel þótt skjölin séu nægilega tilgreind.

Í beiðni sinni, dagsettri 1. júní sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að fleiri en einu skjali úr 26 stjórnsýslumálum, svo og að fá upplýsingar um tiltekið atriði án þess að óska eftir aðgangi að tilgreindu gagni eða gögnum. Með skírskotun til þess, sem að framan segir, var landbúnaðarráðuneytinu ekki skylt að veita honum aðgang að hinum umbeðnu gögnum eða láta honum í té umbeðnar upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Ber því að staðfesta synjun ráðuneytisins, sem fram kemur í svari þess, dagsettu 11. júní sl.

Úrskurðarorð:

Sú ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins að synja kæranda, [A], um upplýsingar og aðgang að gögnum um tilteknar ríkisjarðir sem fram kemur í bréfi ráðuneytisins 11. júní sl., er staðfest.
Málinu er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta