Hoppa yfir valmynd
5. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 142/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 142/2022

Fimmtudaginn 5. maí 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 16. febrúar 2022, um synjun á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 2. desember 2021, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 20. desember 2021, með þeim rökum að hún uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 16. febrúar 2022 og staðfesti synjunina.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. mars 2022. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 23. mars 2022, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2022, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust úrskurðarnefndinni með bréfi 8. apríl 2022 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi, dags. 11. apríl 2022. Athugasemdir Reykjavíkurborgar bárust með bréfi, dags. 20. apríl 2022. Frekari gagnaöflun fór ekki fram.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi versnað mikið af veikindum í september 2020, auk þess sem hann hafi gengið í gegnum skilnað. Hann hafi rætt við félagsþjónustuna í Fossvogi og upplýst að hann þyrfti mikla umönnun áður en hann gæti búið einn aftur. Félagsþjónustan hafi upplýst kæranda um að ekki mættu líða lengri tími en tvö ár á milli. Í lok árs 2021 hafi kærandi sótt um félagslegt húsnæði fyrir fatlaða og hafi ekki átt von á neinu veseni því að aðeins hafi verið rúmt ár liðið. Það hafi ekki verið raunin og allt hafi verið gert til þess að neita kæranda um húsnæði. Áfrýjunarnefnd hafi meira að segja brotið gegn nýjum lögum er tóku gildi 1. febrúar um að lögheimili skipti ekki máli. Kæranda kveðst sárvanta íbúð þar sem ekki sé lengur pláss hjá foreldrum.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að honum þyki leitt að sjá lögmann Reykjavíkurborgar greina frá því í greinargerð þegar hún skrifar að hann hafi síðast verið með lögheimili frá [1. júní 2020 til 31. ágúst 2020]. Hið rétta sé að kærandi hafi verið með lögheimili frá ágúst 2016 en búsettur frá maí 2016 til september 2020. Einnig sé fullyrt að kærandi hafi beðið um stoðþjónustu, en það sé ekki rétt. Kærandi hafi eingöngu sótt um félagslega íbúð fyrir fatlaða, enda sé hann öryrki með fötlun en þurfi enga stoðþjónustu lengur. Kærandi bendir á að í 6 mínútna gönguprófi með hækju hafi hann farið 28 metra og því hafi hann sótt um húsnæði á 1. hæð en helst á annarri hæð.

Einnig hafi fulltrúi kæranda hjá félagsstofnun skrifað að hann mæli ekki með að samþykkja undanþágu hans, þrátt fyrir loforð um að standa með honum.

Kærandi kveðst hafa flutt norður vegna þess að ekkert húsnæði hafi verið í boði fyrir hann vegna veikinda hans og þeirrar stoðþjónustu sem hann vanti.

Kærandi kveðst verða heimilislaus í næsta mánuði. Hann sé félagslega einangraður og fjárhagslegir burðir við að leigja fyrir norðan gangi ekki því að bensínkostnaður hans við að eiga umgengni við dóttur sína og sækja læknisaðstoð til Reykjavíkur sé um 150.000 krónur á mánuði. Bæði fjárhagslega sem og félagslega myndi félagsleg íbúð í Reykjavík gjörbreyta stöðu hans.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé öryrki og faðir þriggja barna. Tvö þeirra séu uppkomin og eitt sé X ára sem hann hafi reglulega umgengni við. Kærandi búi á heimili foreldra sinna á B og hafi gert það síðan í ágúst 2020 þegar hann hafi skilið við seinni eiginkonu sína. Frá árinu 1998 hafi kærandi ýmist búið í Reykjavík eða á B. Kærandi hafi lent í slysi við vinnu á rannsóknarskipi fyrir um það bil tólf árum þar sem af hafi hlotist 75% örorka. Hann hafi verið til meðferðar hjá verkjateymi síðan og komi átta til tíu sinnum á ári til Reykjavíkur vegna þessa.

Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn sem hafi verið móttekin þann 15. nóvember 2021 hjá Reykjavíkurborg og hafi því erindi verið synjað þar sem hann hafði ekki haft lögheimili í Reykjavík þegar sótt var um og síðustu 12 mánuði áður en umsókn berst, sbr. a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Í svarbréfi frá Reykjavíkurborg, dags. 2. desember 2021, kom eftirfarandi fram:

„Ljóst er að þú uppfyllir ekki neðangreind skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði:

Samkvæmt a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, skal umsækjandi eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og síðustu 12 mánuði áður en umsókn berst.“

Kærandi sótti um undanþágu frá a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sama dag og var því erindi einnig synjað með bréfi, dags. 20. desember 2021, þar sem eftirfarandi bókun kom fram:

„Fjallað hefur verið um umsókn þína dags. 2.12.2021 um undanþágu frá a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og henni synjað.

Samkvæmt 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili við eftirfarandi aðstæður:

a) Umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið, að hámarki til tveggja ára, úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu.

b) Umsækjandi eða barn hans undir 18 ára aldri á við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilningi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, og hefur þurft að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu.

Skilyrði 5. gr. framangreindra reglna um undanþágur eru ekki uppfyllt.“

Kærandi skaut málinu til áfrýjunarnefndar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þann 5. janúar 2022 og staðfesti nefndin ákvörðun þjónustumiðstöðvar með bréfi, dags. 16. febrúar 2022, þar sem eftirfarandi bókun kom fram:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði a. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir.“

Þegar kærandi sótti um undanþágu frá a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði þann 2. desember 2021 giltu reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem samþykktar voru á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði tóku gildi þann 1. júní 2019. Umræddar reglur séu settar á grundvelli XII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Á fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2022 og á fundi borgarráðs þann 27. janúar 2022 hafi verið samþykkt breyting á a-lið 4. gr. framangreindra reglna á þann veg að umsækjandi skuli eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um félagslegt leiguhúsnæði. Vikið hafi verið frá því skilyrði að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík í 12 mánuði áður en sótt væri um. Því skuli þó haldið til haga að umrædd breyting hafði ekki haft áhrif á niðurstöðu áfrýjunarnefndar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefði kærandi sótt um eftir að framangreind breyting hefði átt sér stað.

Samkvæmt a-lið 4. gr. þágildandi reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði skuli umsækjandi eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og síðustu 12 mánuði áður en umsókn berst. Í 5. gr. reglnanna sé fjallað um undanþágur frá skilyrði um lögheimili og tekjuviðmið. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 4. gr. um lögheimili í tveimur tilvikum. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindu skilyrði ef umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en hefur flutt tímabundið, að hámarki til tveggja ára, úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Í b-lið 1. mgr. 5. gr. segir að veita megi undanþágu ef umsækjandi eða barn hans undir 18 ára aldri eigi við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilningi laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hafi þurft að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu.

Kærandi hafi síðast verið með skráð lögheimili í Reykjavík frá 1. júní 2020 til 31. ágúst 2020. Hann hafi flutt lögheimili sitt reglulega á árunum 2000-2021 á milli Reykjavíkur og B og búið á þeim tíma á B í meira en tvö ár. Þar af leiðandi eigi a-liður 1. mgr. 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði ekki við. Þá eigi b-liður 1. mgr. 5. gr. reglnanna ekki við þar sem hvorki kærandi né barn hans eigi við alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilning laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun þjónustumiðstöðvar um almennt félagslegt leiguhúsnæði þar sem skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi ekki verið uppfyllt og að undanþágur þær, er fjallað er um í a- og b-liðum 1. mgr. 5. gr. reglnanna, eigi ekki við um aðstæður kæranda.

Með hliðsjón af öllu því, sem að framan greinir, megi telja það ljóst vera að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði a-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 64. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar.

Í þágildandi reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a–e-liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði skal umsækjandi vera orðinn 18 ára á umsóknardegi og eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og síðustu 12 mánuði áður en umsókn berst. Fyrir liggur að kærandi flutti lögheimili sitt frá Reykjavík og á B þann 31. ágúst 2020 og því er þetta skilyrði ekki uppfyllt.

Í 5. gr. kemur fram að heimilt sé að gera undanþágu frá skilyrði um lögheimili í tveimur tilvikum. Í a-lið 5. gr. kemur fram að heimilt sé að gera undanþágu ef umsækjandi hefur búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið, að hámarki til tveggja ára, úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Ljóst er af gögnum málsins að frá desember 2001 hefur kærandi verið með lögheimili á víxl á B og í Reykjavík, þar af rúmlega helming tímans á B, og því er þetta skilyrði ekki uppfyllt.

Í b-lið 5. gr. kemur fram að heimilt sé að gera undanþágu ef umsækjandi eða barn hans undir 18 ára aldri eigi við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða eða fötlun í skilningi laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hefur þurft að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu.    

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi 75% öryki og er í reglulegri meðferð vegna verkja í Reykjavík 8-10 sinnum á ári. Veikindi kæranda eru varanleg og telst hann búa við langvarandi líkamlega skerðingu sem kemur í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda telur úrskurðarnefndin að kærandi þurfi ekki að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu, enda kemur fram í gögnum málsins að ástæða flutninga sé missir á húsnæði á B.

Samkvæmt framansögðu og gögnum málsins er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði undanþágu 5. gr. þágildandi reglna þess efnis að viðkomandi eigi við langvarandi og alvarleg veikindi að stríða og þurfi að flytja til Reykjavíkur af landsbyggðinni til að vera nær læknisþjónustu og/eða annarri sérfræðiþjónustu.

Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 16. febrúar 2022, um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta