Hoppa yfir valmynd
28. maí 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Landsráð skipað um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndStjórnarráðið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað landsráð sem hefur það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu, auk þess að vera samráðsvettvangur á þessu sviði með virku samráði, t.d. við sjúklinga, sjúklingasamtök, fagfélög og aðra hagsmunaaðila og menntastofnanir sem koma að menntun heilbrigðisstarfsfólks. Stofnun landsráðsins tengist einnig markmiðum heilbrigðisstefnu á þessu sviði. Fyrirhugað er að ráðið skili ráðherra ár hvert tillögum að aðgerðaráætlun um aðgerðir í þágu mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu.

Ákvörðun um skipun landsráðsins tengist meginefni heilbrigðisþings heilbrigðisráðherra árið 2020 þar sem mönnun og menntun í heilbrigðiskerfinu var meginumfjöllunarefnið. Ráðherra kynnti þar áform sín um að koma á fót landsráði um þetta efni, enda væru áskoranir varðandi mönnun þessarar mikilvægu þjónustu miklar og ljóst að þær verði viðvarandi viðfangsefni í framtíðinni: „Við þurf­um að styrkja og efla mennt­un heil­brigðis­starfs­fólks, bæta starfs­um­hverfi þess, vinna að tryggri mönn­un heil­brigðis­kerf­is­ins og efla vís­indi og ný­sköp­un, og í ljósi heims­far­ald­urs og áhrifa far­ald­urs­ins þurf­um við mögu­lega að nálg­ast það mark­mið með nýj­um leiðum“ sagði ráðherra m.a. þegar hún ávarpaði heilbrigðisþingið 27. nóvember síðastliðinn. Mikil þátttaka á þinginu er til marks um hvað efnið er brýnt en um 600 manns fylgdust með því í beinu streymi og fjölmargir tóku virkan þátt, með fyrirspurnum og athugasemdum.

Landsráðið er svo skipað:

  • Bára Hildur Jóhannsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar
  • Anna Björg Aradóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
  • Valdimar O. Hermannsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Ragnheiður Bóasdóttir, tilnefnd af mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Svava Þorkelsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
  • Gísli Kort Kristófersson, tilnefndur af heilbrigðisvísindasviði háskólasamfélagsins
  • Ólafur Baldursson, tilnefndur af heilbrigðisstofnun

Starfsmenn landsráðsins eru Dagmar Huld Matthíasdóttir og Ester Petra Gunnarsdóttir, sérfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu.

Landsráðið er skipað til fjögurra ára. Gert er ráð fyrir að það fundi reglulega, að lágmarki 20 sinnum á ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta