Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2020 Forsætisráðuneytið

943/2020. Úrskurður frá 30. október 2020

Úrskurður

Hinn 30. október 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 943/2020 í máli ÚNU 20080013.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 13. ágúst 2020, kærði A afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að dómi Félagsdóms varðandi lögmæti verkfalls á Herjólfi. Í svari Herjólfs ohf. við beiðni kæranda, dags. 4. ágúst 2020, kemur fram að finna megi alla úrskurði á vef dómsins, bent er á vefslóðina þar sem dóminn er að finna og málsnúmer tiltekið. Í kæru er þess krafist að Herjólfur ohf. verði úrskurðaður til að áframsenda erindið. Stjórnsýslulög og almennur réttur hljóti að gera ráð fyrir því að ef fyrirtækinu telji sér ekki skylt að afhenda umbeðin gögn beri því að áframsenda erindið til þar til bærs stjórnvalds.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita Herjólfi ohf. kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Herjólfs ohf. á beiðni kæranda um aðgang að dómi Félagsdóms varðandi lögmæti verkfalls á Herjólfi. Herjólfur svaraði beiðni kæranda og benti á hvar dóminn er að finna á vefsíðu Félagsdóms.

Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga skal veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. segir svo að séu gögn eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í máli þessu kemur því til álita hvort 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. leiði til þess að aðili hafi val um form umbeðinna gagna þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi.

Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að 2. málsl.
1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verði ekki túlkaður á þá leið að ákvæðið leggi þá skyldu á stjórnvöld að afhenda gögn á því formi sem aðili óskar eftir þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna og úrskurði nefndarinnar nr. 598/2015, 675/2017, 896/2020, 914/2020. Herjólfi ohf. var því heimilt að afgreiða beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum með því að vísa á vef Félagsdóms þar sem unnt er með einföldum hætti að nálgast dóminn.

Herjólfi ohf. var jafnframt ekki skylt að framsenda Félagsdómi beiðnina í stað þess að taka hana til afgreiðslu en upplýsingalög taka ekki til gagna í vörslum dómstóla um meðferð einstakra dómsmála og endurrit úr dómabók, gerðabók og þingbók, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að umbeðnum upplýsingum og verður því kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 13. ágúst 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta