Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Hálendisþjóðgarður: Einstakur á heimsvísu

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Austurglugganum 9. janúar 2020.

Hálendisþjóðgarður: Einstakur á heimsvísu

Miðhálendi Íslands hefur að geyma ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og magnaða náttúru sem fáa lætur ósnortna. Með þjóðgarði er hægt að vernda þessi verðmæti, tryggja aðgengi útivistarfólks og sjálfbæra nýtingu auðlinda, auk þess sem aðdráttarafl þjóðgarðs skapar byggðunum tækifæri til gjöfullar atvinnusköpunar og býr til opinber störf heima í héraði.

Þjóðlendur miðhálendisins verði að þjóðgarði

Kveðið er á um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og drög að lagafrumvarpi um Hálendisþjóðgarð eru nú komin í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er gengið út frá því sem þverpólitísk nefnd um stofnun þjóðgarðsins lagði til: Að mörk hans miðist við landsvæði sem eru í sameign þjóðarinnar – það er þjóðlendur og svæði sem þegar eru friðlýst innan miðhálendisins. Um helmingur þess svæðis sem mun mynda Hálendisþjóðgarð er nú þegar friðlýstur.

Þau gleðitíðindi urðu síðastliðið sumar að Vatnajökulsþjóðgarður komst á heimsminjaskrá UNESCO á grundvelli þess að þar er að finna einstakar náttúruminjar sem teljast hafa gildi fyrir allt mannkyn. Allur Vatnajökulsþjóðgarður verður hluti af hinum nýja þjóðgarði. Já, við Íslendingar erum sannarlega lánsöm með náttúruauðlindir.

Hvaða tækifæri felast í stofnun Hálendisþjóðgarðs?

Íbúar á Austurlandi þekkja vel þau tækifæri sem fylgt hafa Vatnajökulsþjóðgarði, enda hafa þeir ríflega tíu ára reynslu af nábýli við þjóðgarðinn. Þjóðgarðar skapa umgjörð utan um vernd náttúrunnar en þeir hafa líka jákvæð áhrif á byggðirnar í kring. Það verða til ný opinber störf á landsbyggðinni, bæði heilsársstörf og sumarstörf. Þá verða til afleidd störf sem tengjast skipulögðum ferðum, gistingu, akstri, veitingaþjónustu og öðru. Jákvæð efnahagsleg áhrif fylgja því oft þjóðgörðum.

Í Vatnajökulsþjóðgarði hefur stjórnfyrirkomulag þjóðgarðsins tryggt virka aðkomu heimafólks að stjórnun og stefnumótun þjóðgarðsins. Þetta hefur reynst vel og stjórnfyrirkomulagið í Hálendisþjóðgarði mun því byggja á þessari fyrirmynd. Ný stofnun, Þjóðgarðastofnun, myndi sinna daglegum rekstri í Hálendisþjóðgarði líkt og á öðrum friðlýstum svæðum á landinu.

Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og þjóðgarðurinn á Þingvöllum hafa glögglega sýnt að þjóðgarðar hafa mikið aðdráttarafl. Þeir eru mikilvægir til að vernda náttúru, sögu og menningu, en skila um leið efnahagslegum ávinningi. Einmitt þess vegna er Hálendisþjóðgarður svo ótrúlega spennandi verkefni. Hálendisþjóðgarður yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu og einstakur á heimsvísu.

Fjölbreytt markmið Hálendisþjóðgarðs

Fyrir utan að skapa Íslandi ótvíræða sérstöðu hefði þjóðgarðurinn einnig að markmiði að auðvelda almenningi að njóta náttúru miðhálendisins, sögu og menningu svæðisins. Gert er ráð fyrir að endurheimt raskaðra vistkerfa verði líka eitt af markmiðum þjóðgarðsins, en það hefur ekki áður verið sett fram í lagasetningu um þjóðgarða hérlendis.

Hefðbundnar nytjar verða áfram leyfðar innan þjóðgarðsins en að sjálfsögðu gerð krafa um sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda. Í frumvarpsdrögunum eru einnig mótaðar sérstakar reglur sem gilda eiga um mögulega orkunýtingu á svæðinu, þar sem meðal annars yrði litið til þess hvort um er að ræða röskuð eða óröskuð svæði.

Ég geri ráð fyrir að mæla fyrir frumvarpi til laga um Hálendisþjóðgarð nú í vor.

Ég óska ykkur kæru íbúar Austurlands gleðilegs nýs árs og vona að það verði ykkur heillaríkt.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta