Styrkjum úthlutað úr Hvata
Styrkjum hefur verið úthlutað úr Hvata, styrktarsjóði til verkefna á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðherra. Alls hlutu sjö verkefni styrk úr þessari fyrri úthlutun fyrir árið 2024, alls að upphæð 8.200.000 kr.
Hæsta styrkinn að þessu sinni hlýtur LungA-Listahátíð ungs fólks, 3.000.000 kr. LungA er 25 ára listahátíð sem fagnar samtímalist, frumsköpun og jafningjafræðslu. Hátíðin hefur gegnt lykilhlutverki í að efla sjálfstraust ungmenna á Seyðisfirði og víðar ásamt því að hafa unnið að því að styrkja orðspor sitt innanlands sem leiðandi listahátíð með fjölbreytta listadagskrá. Með listrænum smiðjum, sýningum og tónleikum hefur hátíðin gefið ungu fólki tækifæri til að vinna saman og kynna verk sín fyrir fjölbreyttum áhorfendum, en hátíðina sækja allt að 2000 gestir ár hvert.
Í haust var auglýst eftir styrkjum úr Hvata vegna seinni úthlutunar ársins 2023 og fyrri úthlutunar árið 2024. Alls bárust 32 umsóknir um styrk vegna þessara tveggja úthlutana.
Hvati er styrktarsjóður innan menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Styrkjum úr Hvata er úthlutað til ákveðinna verkefna á vegum félaga og samtaka til eins árs í senn. Verkefnin skulu ekki njóta lögbundins stuðnings eða falla undir sjóði eða sérstaka samninga. Þá eru hvorki veittir styrkir til nefndarsetu eða styrkir til BA/BS-, eða meistaraprófsverkefna.
Eftirfarandi verkefni hljóta styrk að þessu sinni. Áætlað er að auglýst verði eftir styrkjum á ný á næsta ári.
Sjá einnig:
Seinni úthlutun 2023: Sjö verkefni hljóta styrk úr Hvata