Úttekt á opinberum vefjum fer fram í sjötta sinn
Kynningarfundur um fyrirhugaða úttekt á opinberum vefjum var haldinn í gær þar sem úttektin var kynnt fyrir ábyrgðarmönnum, stjórnendum og vefstjórum opinberra vefja. Úttektin hefur farið fram annað hvert ár frá árinu 2005 undir heitinu: Hvað er spunnið í opinbera vefi? Er þetta því sjötta úttektin.
Kannaðir eru 263 opinberir vefir og nær úttektin yfir innihald, nytsemi, aðgengi, þjónustu og lýðræðislega þátttöku. Þá er í fyrsta sinn gerð úttekt á öryggi vefja og verða vefirnir skannaðir með forritum til að finna hugsanlega veikleika í öryggi þeirra. Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar á UT-deginum í nóvember næstkomandi.
Fyrirhugað er að veita verðlaun fyrir stigahæstu vefina í almennu úttektinni eins og undanfarin ár. Samspil af stigafjölda og upplifun notenda/dómnefndar ræður þar úrslitum. Niðurstöður öryggisúttektar verða hins vegar ekki sundurliðaðar eftir vefjum og einungis forstöðumenn og vefstjórar munu fá upplýsingar um öryggi eigin vefjar. Hvorki einstakir vefir né þjónustuaðilar verða tilgreindir í opinberum upplýsingum um niðurstöður varðandi öryggi. Aðeins er verið að kortleggja heildarstöðuna með það að markmiði að bæta öryggi opinberra vefja.