Öflugra nám í vísinda- og tæknigreinum með Samstarfi háskóla
Fjölgun nemenda í STEAM greinum (vísinda- og tæknigreinum, verkfræði, listgreinum og stærðfræði) er forsenda þess að Ísland geti mætt tækifærum fjórðu iðnbyltingarinnar og eflt nýsköpun í atvinnulífi. Nauðsynlegt er því að íslenskir háskólar leggi aukna áherslu á STEAM greinar í náinni framtíð, en árið 2020 lögðu aðeins um 19% íslenskra háskólanema stund á nám á því sviði sem er töluvert lægra hlutfall en gengur og gerist á Norðurlöndunum.
,,Það er lykilatriði að fjölga þeim nemendum sem stunda nám í STEAM greinum, ekki aðeins er vöntun á slíku starfsfólki heldur felast í því gríðarleg tækifæri fyrir samfélagið og verðmætasköpun. Ef við eigum að fjölga stoðum samfélagsins þá er háskólamenntun í þessum greinum mikilvægur hlekkur,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála.
12 verkefni af 25 sem nýlega hlutu styrk úr Samstarfi háskóla hafa það að markmiði að efla kennslu og nám í STEAM greinum hér á landi. Þar á meðal er nýtt meistaranám í netöryggi sem hlýtur styrk að upphæð 90 m.kr., öflugt háskólanám í þágu fiskeldis (58 m.kr.) og öflugra tækninám á Norðurlandi (33 m.kr.), en við mat umsókna var m.a. sérstaklega litið til tækifæra á sviði STEAM greina.
Til að fjölga brautskráningum í vísinda-, tækni-, verkfræði- og stærðfræðigreinum hyggjast HA, HÍ og HR í samstarfi útbúa betra kynningarefni um námið, breyta kennsluháttum og koma á netnámskeiðum í eðlisfræði, efnafræði, forritun, stærðfræði og tölfræði til að framhaldsskólanemar um land allt fái betri tækifæri til að undirbúa sig vel fyrir nám á þessu sviði. Verkefnið er styrkt um 30 m.kr.
HÍ og Listaháskóli Íslands (LHÍ) taka höndum saman til að efla STEAM greinar með því að setja upp öfluga Vísindaheima og vel útbúna Fab Lab smiðju í húsnæðinu sem áður hýsti Hótel Sögu er er nú verið að endurbyggja- og skipuleggja fyrir HÍ. Verkefnið, sem hlotið hefur nafnið STEAM í Sögu, er styrkt um 28 m.kr. Þá fá HR og HA 4 m.kr. styrk til að vinna að fjölgun raungreinakennara með því að bjóða upp á sérhæft nám í kennslufræði raungreina til kennsluréttinda á meistarastigi.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir 7 háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður.