Ný vefsíða um samgönguáætlun
Opnuð hefur verið ný vefsíða um samgönguáætlun 2007 til 2018 og má sjá hana með því að smella á merkin efst til hægri á forsíðu vefs ráðuneytisins. Auk samgönguráætlunarinnar sjálfrar, sem leggja á fyrir Alþingi í haust, er birt þar margs konar efni sem tengist samgönguáætlun og samgöngumálum.
Athygli er vakin á því að með samgönguáætlun fylgja nú drög að umhverfisskýrslu. Með nýjum lögum sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní 2006 skal umhverfismat framvegis fylgja skipulags- og framkvæmdaáætlunum og þar með samgönguáætlun. Vinna skal mat á áhrifum áætlunarinnar á umhverfið samhliða áætlanagerðinni sjálfri og skal það liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi. Í samræmi við það hafa verið samin drög að umhverfisskýrslu og eru þau einnig birt á vefsíðu samgönguáætlunar.
Á vefnum er að finna lög um samgönguáætlun og fyrri samgönguáætlanir sem samþykktar hafa verið en þær ná til tólf ára og fjögurra ára og eru endurskoðaðar reglulega. Bent er á helstu atriði áætlunarinnar sem nú er í lokavinnslu, greinargerð og annað sem snertir hana. Þá eru birtar ýmsar skýrslur sem unnar hafa verið vegna samgönguáætlunar og aðrar tengdar skýrslur. Einnig eru tenglar á vefsíður stofnana sem heyra undir samgönguráðuneytið og á samgönguáætlanir annarra þjóða eftir því sem við á.
Sjá má einnig vef samgönguáætlunar með því að smella hér.